Erlent

Friður í Najaf

Friður hefur loks náðst í helgu borginni Najaf í Írak. Í Bagdad brutust hins vegar út átök þegar bandarískar hersveitir birtust. Bush Bandaríkjaforseti hefur viðurkennt í fyrsta sinn að hafa gert mistök í Írak.  Eftir blóðsúthellingar í gær hófst nýr dagur með friði og ró í Najaf, eftir að trúarleiðtoganum Ali al-Sistani tókst að ná friðarsamkomulagi við harðlínuklerkinn Múktada al-Sadr í gærkvöldi. Bardagamenn í Mehdi-hersveitum al-Sadrs yfirgáfu Imam Ali moskuna í morgun og afhentu lyklana að henni. Þeir lögðu einnig niður vopn, en fréttamenn Reuters segja þá Medhi-liða sem rætt var við hafa sagst bíða fyrirmæla al-Sadrs og að þeir myndu áfram drepa Bandaríkjamenn og væru reiðubúnir að berjast. Bandarískar hersveitir eiga samkvæmt samkomulaginu einnig að hörfa frá borginni og verður hún vopnalaust svæði. Al-Sadr verður ekki heldur hnepptur í varðhald eða handtekinn. Tugir þúsunda pílagríma eru nú komnir til Najaf til að fagna friði. Í Bagdad fer minna fyrir friði, en bardagar brutust út þar í Haifa-hverfinu, þar sem glæpa- og uppreisnarmenn eru sagðir halda til. Bandarískir hervagnar birtust þar í morgun og þyrlur sveimuðu yfir. Bush Bandaríkjaforseti viðurkennir í fyrsta sinn í viðtali sem birtist í New York Times í morgun, að hann hafi ekki áttað sig á því hvernig ástandið yrði að loknu stríði í Írak. Hann vildi þó ekki ræða nákvæmlega hann hefði gert rangt, en sagði ekki hafa verið gert ráð fyrir upplausn og ofbeldi í kjölfar þess að snöggfenginn sigur vannst á Saddam Hússein og sveitum hans. Bush sagði að brugðist væri við síbreytilegum aðstæðum í Írak, þar sem 989 bandarískir hermenn hafa fallið frá upphafi stríðs í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×