Erlent

Vottur af sprengiefni fannst

Hryðjuverk er nú talið langlíklegasta skýringin á því að tvær rússneskar farþegaþotur fórust fyrr í vikunni. Sprengiefni fannst í braki annarrar vélarinnar og öryggisþjónusta Rússlands telur nokkra farþega grunsamlega. Í morgun bárust af því fregnir, að vottur af sprengiefni hefði fundist í nótt á flaki annarar rússnesku farþegaþotunnar sem hrapaði í fyrradag með 89 manns innanborðs. Talsmenn öryggisþjónustu Rússlands staðfestu þetta í morgun og segja sprengiefnið sömu gerðar og það sem tsétsénskir uppreisnarmenn hafa áður notað til hryðjuverkaárása. Hópur íslamskra öfgamanna sendi einnig frá sér yfirlýsingu þess efnis, að vélunum hefði verið rænt til að hefna morða á múslímum í Tsétséníu. Þar segir að fimm flugræningjar hafi verið um borð í hvorri vél. Að auki telja rannsóknarmenn öryggisþjónustunnar að nokkrir farþegar annarar vélarinnar séu tsétsénskir og grunsamlegir. Áður höfðu flugumferðarstjórar í Moskvu greint frá því, að vélin hefði þrisvar sinnum sent frá sér neyðarkall vegna flugráns áður en hún hvarf af ratsjárskjám. Þessar vísbendingar tengjast allar annari vélinni, en stjórnendur rannsóknarinnar segja enn á huldu hvað varð þess valdandi að hin vélin hrapaði til jarðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×