Erlent

Þjóðarsorg ríkir í Rússlandi

Drungi sorgar og ótta liggur yfir Rússlandi í kjölfar flugslysanna í gær. Engar vísbendingar finnast um orsakir þess að vélarnar hröpuðu, en almenningur er sannfærður um að hryðjuverkamenn hafi grandað þeim. 89 manns fórust í slysunum tveimur í gær. Í dag hafa sérfræðingar reynt að vinna úr gögnunum sem svörtu kassarnir innihalda í von um að komast að örsökum þess að vélarnar hröpuðu. Rússneskir fjölmiðlar hæðast að yfirvöldum fyrir að láta sér detta í hug að aðrar skýringar séu á flugslysunum en hryðjuverk. En þeir sem að rannsókninni koma segja vísbendingar ekki gefa slíkt til kynna. Engin merki um sprengiefni hafi fundist um borð. Ráðgjafi Pútíns forseta, sem fylgist með rannsókninni, sagði síðdegis að engar upplýsingar hefðu fengist úr svörtu kössunum og var á honum að skilja, að hann teldi hryðjuverk líklegustu skýringu atburðanna, án þess að hann skýrði það frekar. Dagblaðið Kommersant hafði eftir ónafngreindum heimildarmanna innan rússnesku öryggisþjónustunnar að í næstu viku, að loknum kosningum í Tsétséníu, mætti vænta þess að opinberlega yrði viðurkennt að hryðjuverkamenn hefðu grandað vélunum. Ættingja þeirra sem voru um borð í vélunum beið í dag það nöturlega hlutverk að bera kennsl á lík ástvina sinna. Almenningur í Rússlandi virðist einnig í áfalli vegna atburðanna og þjóðarsorg er í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×