Erlent

Clinton sér fyrir frið á N-Írlandi

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, telur að samsteypustjórn kaþólikka og mótmælenda komist á í Norður-Írlandi. Clinton stuðlaði að friðarsamningum milli deilenda á Norður-Írlandi árið 1998, helsta markmið samninganna var að þeir myndu stjórna saman. Clinton var staddur á Norður-Írlandi í gær og heimsótti bæinn Londonderry, þar sem hann tók á móti heiðursnafnbót og flutti ræðu um friðarferlið. Þá fundaði hann með formönnum stærstu flokkanna í landinu og breska landstjóranum, Paul Murphy. Bresk og írsk yfirvöld hefja samningaviðræður í næstu viku en mótmælendur, sem eru hlynntir sambandi við Bretland, og Sinn Fein, flokkur kaþólikka sem vilja aðskilnað, koma einnig að viðræðunum. Clinton segist búast við að John Kerry leggi meira af mörkum til friðarviðræðna á Norður-Írlandi, verði hann forseti, en George Bush hefur gert. Hann segir baráttu Bush gegn hryðjuverkum hafa mistekist og fara verði aðrar leiðir til að ná sáttum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×