Innlent

Argasta bull

"Þetta er argasta bull," sagði Magnús D. Brandsson, formaður stjórnar Sparisjóðs Hólahrepps og fulltrúi Sambands íslenskra sparisjóða í henni, um fram komna gagnrýni tveggja stjórnarmanna varðandi ráðningu nýs sparisjóðsstjóra. Magnús sagði, að í fyrradag hefðu verið kallaðir til viðtals þrír af þeim þrettán sem sótt hefðu um stöðuna og þótt líklegir til að fá hana. Síðan hefði Vilhjálmur Baldursson verið ráðinn, enda hefði hann verið "langhæfasti umsækjandinn" í hópnum. Í yfirlýsingu sem hinir óánægðu stjórnarmenn sendu frá sér í gær, sögðust þeir harma vinnubrögð meirihluta sparisjóðsstjórnarinnar og biðja aðra umsækjendur "afsökunar að vera plataðir til að sækja um starfið". "Það er gríðarlegur ábyrgðarhluti stjórnarmanna að senda svona frá sér," sagði Magnús og bætti við: "Þetta er svo fyrir neðan allar hellur að menn eru ekki með réttu ráði." Í yfirlýsingunni sagði enn fremur, að tvímenningarnir óttuðust að með ráðningunni umdeildu væri sparisjóðurinn "í raun orðinn deild í Kaupfélagi Skagfirðinga". "Þetta er alrangt. Sparisjóðurinn er sjálfstæður en þessir menn eru ekki að hugsa um hagsmuni hans þegar þeir láta svona," sagði Magnús. "þeir eru að skaða hann verulega með svona vitleysisyfirlýsingum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×