Erlent

Nýjar byggingar í landnemabyggðum

Stjórnvöld í Ísrael tilkynntu í gær að þau munu reisa rúmlega 500 byggingar á Vesturbakkanum, til viðbótar við þúsund nýbyggingar sem einnig munu rísa í landnemabyggðum. Þá kunngjörðu þau að smíði aðskilnaðarmúrsins ljúki ekki fyrr en árið 2005, ári á eftir áætlun. Tilkynningin kom í kjölfar stefnubreytingar Bandaríkjamanna varðandi landnemabyggðir Ísraelsmanna, en landnám þeirra brýtur í bága við alþjóðalög. Nýbyggingarnar og aðskilnaðarmúrinn eru liðir í áætlun Ariels Sharon, forsætisráðherra Ísrael, að skilja Ísrael og Palestínu algjörlega að. Hún kveður einnig á um brotthvarf Ísraelsmanna frá Gaza-ströndinni eftir ár. Bandaríkjamenn eru hlynntir brotthvarfinu en hafa hingað til ekki viljað nýjar landnemabyggðir. Á því hefur orðið breyting. Palestínumenn eru ósáttir við stefnubreytinguna og segja hana ógna friði. Ahmed Quera, forsætisráðherra Palestínu, sakar Ísraela um að efna vísvitandi til ófriðar. Landnemabyggðir Ísraela á Vesturbakkanum og Gaza-ströndinni ógna áætlunum Palestínumanna um stofnun sjálfstæðs ríkis. Ísraelsher hernam svæðin árið 1967 og hefur stjórnað þeim æ síðan. Rúmlega 230 þúsund ísraelskir landnemar búa þar núna, langflestir á Vesturbakkanum. Varnarmálaráðherra Ísraels sagði í gær að tæplega hálfum milljarði króna yrði varið í að færa aðskilnaðarmúrinn í samræmi við úrskurð hæstaréttar Ísraels frá því í júní. Dómurinn sagði að á 30 kílómetra svæði bryti múrinn í bága við mannréttinda- og alþjóðalög. Múrinn verður því færður til á 60 kílómetra kafla. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst múrinn í heild sinni ólöglegan og farið fram á að hann verði rifinn niður. Fullbyggður verður múrinn 680 kílómetra langur, þegar er búið að reisa um 200 kílómetra. Múrinn veldur fjölda Palestínumanna miklum vandkvæðum þar sem hann skilur fólk frá vinnustöðum, skólum og nágrannabæjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×