Erlent

Stór eiturlyfjabarón handtekinn

Mexíkóska lögreglan hefur handtekið eiturlyfjabarón þar í landi sem grunaður er um að standa fyrir smygli á u.þ.b. helmingi þess magns eiturlyfja sem smyglað er árlega til Bandaríkjanna frá Mexíkó. Tvær milljónir dollara höfðu verið settar til höfuðs baróninum, Gilberto Higuera Guerrero að nafni, sem staðið hefur fyrir smygli á kókaíni, heróíni og maríjúana. Hann var handtekinn í borginni Mexicali í norðurhluta Mexíkó í gær. Forseti landsins, Vicente Fox, hét því þegar hann komst til valda fyrir fjórum árum að skorið yrði upp herör gegn eiturlyfjaiðnaðinum og síðan þá hefur fjöldi stórlaxa í þeim geira verið handteknir eða drepnir. Á myndinni er mynd af Guerrero varpað á tjald á blaðamannafundi þar sem handtaka hans var tilkynnt í Mexíkó í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×