Innlent

Fá ekki heilsdagsvist

Nokkrir tugir barna hafa enn ekki fengið heilsdagsvist í frístundaheimilum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur (ÍTR) fyrir veturinn. Þetta veldur miklum óþægindum fyrir foreldra sem þurfa að gera aðrar ráðstafanir ef bæði eru útivinnandi. Jósep Thorlacius er faðir tveggja barna í Ölduselsskóla sem ekki hafa fengið vist í frístundaheimili. "Það er ekki nóg pláss fyrir alla og fólk er sett á biðlista. Því er sagt að því miður þurfi það að bíða eftir að einhverjir aðrir hætti og fólk þurfi að sjá um sig sjálft," segir Jósep. Að sögn Steingerðar Kristjánsdóttur hjá ÍTR er unnið hörðum höndum að því að leysa þau vandamál sem upp hafa komið. Hún segir að sér virðist sem ástandið sé einna verst í Árbænum. "Við erum að reyna að leysa allt sem við getum og staðan er að breytast frá klukkutíma til klukkutíma. þannig að það er von okkar að þetta hafist allt saman," segir Steingerður. Þetta er fyrsti veturinn sem ÍTR sér um rekstur allra frístundaheimila í Reykjavík en áður voru þau ýmist á vegum ÍTR eða Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. "Við eigum einfaldlega við ákveðna byrjunarerfiðleika að etja," segir hún. Hún segir að meðal þeirra úrlausnarefna sem ÍTR standi frammi fyrir sé að starfsmenn frístundaheimilanna séu margir í skóla og því sé það púsluspil að raða upp vöktum. "Ég geri mér grein fyrir að þetta er mjög óþægilegt fyrir þá foreldra sem eru í þessari stöðu en engu að síður þá erum við með ákveðin öryggisatriði og teljum okkur ekki vera að þjóna börnunum eða foreldrunum með því að setja of mörg börn inn í lítið húsnæði eða hafa of fáa starfsmenn til að sinna þeim," segir hún. Steingerður vonast til þess að mál sem flestra leysist á næstu dögum. Hún segir fólk sem eigi í vandræðum eiga að snúa sér til forstöðumanna ÍTR í hverju hverfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×