Innlent

Þjóðminjasafnið á áætlun

Þjóðminjasafnið verður opnað 1. september næstkomandi og ekki deginum seinna. Framkvæmdir eru á lokastigi, segir þjóðminjavörður, og starfsmenn vinna nótt sem nýtan dag jafnt innan húss sem utan, til þess að ekki verði frekari tafir á opnun safnins. Í fréttum Stöðvar 2 þann 13. apríl síðastliðinn lýsti menntamálaráðherra því yfir að Þjóðminjasafnið yrði opnað 1. september á þessu ári. Nú er lítur út fyrir að þessi dagsetning muni standa enda allt á fullu í framkvæmdum innan húss sem utan þessa dagana. Loforð fyrrverandi menntamálaráðherra um opnun safnsins Sumardaginn fyrsta stóð sem kunnugt er ekki, en að þessu sinni verða engin loforð svikin að sögn Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar. Hún segir að samhliða framkvæmdunum hafi safnið unnið að uppsetningu sýninga sem sömuleiðis verði opnaðar um næstu mánaðamót.  Sú mikla yfirvinna sem unnin er virðist þó ekki verða þess valdandi að fjárhagsáætlanir fari úr skorðum því verkið fer ekki fram úr þeirri kostnaðaráætlun sem gerð var fyrir tæpu ári síðan að sögn Óskars Valdimarssonar, forstjóra framkvæmdasýslu ríkisins. Og það er ekki eingöngu utan húss sem miklar framkvæmdir eiga sér stað heldur líka innan hússins þar sem framkvæmdir eru vel á veg komnar og ekki seinna vænna til þess að setja megi upp sýningar í tæka tíð fyrir opnunina. Myndatökur eru hins vegar bannaðar innandyra fyrir opnunina því ætlunin er að koma fólki á óvart að sögn þjóðminjavarðar. Myndin var tekin af Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra inni í Þjóðminjasafninu í apríl síðastliðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×