Erlent

Miðausturlönd án kjarnorkuvopna

"Forsætisráðherrann staðfesti við mig að stefna Ísraels yrði áfram sú að í samhengi við frið í Miðausturlöndum teldi Ísrael æskilegt að komið yrði á kjarnorkuvopnalausu svæði í Miðausturlöndum," sagði Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar eftir fund með Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels. ElBaradei sagði að þó þetta væri ekki stefnubreyting hjá Ísraelum þætti honum mikils vert að það væri forsætisráðherrann sem lýsti þessu yfir. Það veitti þessu aukna vigt. ElBaradei fór til Ísraels til að ræða við stjórnvöld um kjarnorkuvopn í Miðausturlöndum. Hann vildi meðal annars fá Ísraela til að ræða opinskátt um kjarnorkuvopnaeign sína. Talið er að þeir ráði yfir kjarnorkuvopnum en þeir hafa aldrei fengist til að staðfesta það. Embættismenn sögðust í viðræðum við ElBaradei óttast að Íranar kynnu að koma sér upp kjarnorkuvopnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×