Erlent

Langar vaktir skapa hættu

Líkur á mistökum hjá hjúkrunarfræðingum þrefaldast fari vaktir þeirra yfir tólf og hálfa klukkustund. Fjórar af hverjum tíu vöktum hjúkrunarfræðinga í Bandaríkjunum eru svo langar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknar sem birtust í tímaritinu Journal of Health Affairs í gær. Í rannsókninni voru vaktir 393 hjúkrunarfræðinga um gjörvöll Bandaríkin rannsakaðar í fjórar vikur af sérfræðingum við háskólann í Pennsylvaníu. Alls voru vaktirnar 5317 talsins og sú lengsta var tæpur sólarhringur að lengd. Rannsakendur segja niðurstöðurnar sýna að nauðsynlegt sé að draga verulega úr löngum vöktum heilbrigðisstarfsfólks og útrýma þurfi óvæntri yfirvinnu sem bætist við venjulegar vaktir. Langar vaktir starfsfólks á sjúkrahúsum hafa færst mjög í vöxt á undanförnum árum í Bandaríkjunum og rannsakendurnir segja gífurlega mikilvægt að spornað verði við þeirri þróun með því að auka framboð á menntuðu starfsfólki í heilbrigðisgeiranum. Auk fyrrgreindrar hættu af vöktum sem dragast yfir tólf og hálfa klukkustund benda niðurstöðurnar einnig til að öll yfirvinna auki verulega líkur á a.m.k. einum mistökum, óháð því um hve langa vakt er að ræða. Fjölmargar rannsóknir hafa bent til fylgni milli mikillar yfirvinnu lækna og læknamistaka en hingað til hafa afleiðingar mikillar vinnu hjúkrunarfræðinga ekki verið athugaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×