Innlent

Nei hópur um fjölmiðlalög

Þjóðarhreyfingin, Fylking andstæðinga fjölmiðlalaganna, ætlar að hefja baráttu sína strax í næstu viku. Enn bólar þó ekkert á stofnun félags sem styður lagasetninguna.  Fylkingin er enn í mótun en búið er að velja talsmann, ráða starfsmann og skipa nefndir. Talsmaðurinn er Ólafur Hannibalsson, starfsmaðurinn Hans Kristján Árnason og í nefndum eru meðal annars Þorvaldur Gylfason prófessor og lögfræðingarnir Jónatan Þórmundsson, Kristrún Heimisdóttir og Margrét Heinríksdóttir. Ólafur Hannibalsson segir félagið vera á frumstigi í baráttunni. Félagið sé að setja sér lög og stefnumið og finna sér samastað. Hann segir þau hafa í hyggju að beita sér í því að upplýsa og fræða þjóðina um þau réttindi og skyldur sem hún hefur þegar svona mál komi upp. Baráttan verður ekki kostnaðarsöm segir Ólafur og er stefnan að láta lítil framlög frá einstaklingum duga. Hann segir þau ekki þurfa neitt stórfé frá stórfyrirtækjum, hvorki Norðurljósum né Baugi. Stuðningsmenn fjölmiðlalaganna hafa ekki enn látið á sér kræla opinberlega. Margir þeirra sem fréttastofa hefur rætt við segja að ekkert muni gerast fyrr en þing hefur ákveðið með hvaða hætti þjóðaratkvæðagreiðslan mun fara fram. Aðrir segjast ekki vilja gera Ólafi Ragnari það til geðs að réttlæta synjun hans með alvöru kosningabaráttu. Ólafur segist ekki hafa áhyggjur af því að enginn já hópur sé til staðar. Hann getur ekki séð hvernig hægt sé að drífa upp já hóp með þessari hrákasmíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×