Innlent

Deep Purple á Íslandi

Hljómsveitin Deep Purple ætlar að endurnýja kynni sín af Íslendingum næstu tvö kvöld, en síðast þegar þeir héldu tónleika hér á landi, voru þeir vægast sagt endasleppir. Deep Purple kom hingað til lands síðast árið 1971 og troðfylltu Laugardalshöllina, þar sem þeir munu leika annað kvöld og á fimmtudagskvöld. Það er reyndar ljóst að þeir fylla húsið aftur, en miðar á seinni tónleikana seldust upp á klukkustund og nokkrir miðar eru til á fyrri tónleikana. Þegar tónleikarnir fyrir 33 árum voru að ná hámarki, fór rafmagnið af höllinni, hljómsveitinni og ekki síður tónleikagestum til mikils ama. Reyndar sýndi hljómsveitin reiði sína með því að kasta hljóðfærðum og öðru frá sér og söngvarinn barði gat á gólfið með hljóðnemastandinum. Í spjalli við Ian Gillan söngvara hljómsveitarinnar spurði hann hvort búið væri að gera við gatið. Hljómsveitarmeðlimir eiga fleiri skrýtnar minningar frá Íslandsförinni en Roger Glover, bassaleikari minntist þess helst þegar þeim var hent upp í lögreglubíl til að komast í burtu í skyndi. Bíllinn festist í leðjunni fyrir utan og fólkið sem þeir áttu að vera að flýja gekk hið rólegasta framhjá og virtist ekki kippa sér upp við nálægð stjarnanna. Á tónleikunum hér verður nýtt efni í bland við eldra efni sem er nokkrum kynslóðum rokkunnenda vel kunnugt. Hljómsveitin hefur nánast verið á stöðugu ferðalagi í 20 ár og segir rokkið alltaf jafnskemmtilegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×