Innlent

Kona fannst látin í Fossvogi

Eldri kona fannst látin í fjörunni í Fossvogi um klukkan þrjú eftir hádegi í gærdag. Þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöld hafði ekki tekist að bera kennsl á hina látnu. Vegfarandi fann lík konunnar í fjörunni og lét lögreglu vita. Ekki er talið að konan hafi látist vegna glæpsamlegs athæfis. Menn frá rannsóknarlögreglunni voru við störf á staðnum í um einn og hálfan klukkutíma og á meðan vöktuðu lögreglumenn svæðið til að koma í veg fyrir umgang fólks. Miðað við að svæðið í kringum fundarstað líksins var ekki afgirt með borðum bendir allt til að ekki hafi verið framinn glæpur. Líklegt er talið að ekki hafi liðið mjög langur tími frá því að konan lést og þar til hún fannst. Fjöldi fólks var á ferð skammt frá fjörunni, enda Fossvogurinn vinsælt útivistarsvæði. Margir vegfarendur stöðvuðu til að fylgjast með en lögreglan bað þá vinsamlegast að halda ferð sinni áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×