Sport

Detroit vann fyrsta leikinn

Detroit Pistons er komið með forystu, 1-0, í lokaeinvígi NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir tólf stiga sigur, 87-75, á Los Angeles Lakers í fyrsta leik liðanna í Staples Center í Los Angeles á sunnudagskvöldið. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en leikmenn Detroit sig fram úr í síðari hálfleik og tryggðu sér óvæntan og mikilvægan sigur. Það sem gerir þennan sigur enn sætari fyrir Detroit er að þeim tókst að ná sigri þrátt fyrir að þeirra sterkasti sóknarmaður, Richard Hamilton, ætti slakan leik og tröllið Shaquille O’Neal hjá Los Angeles Lakers færi hamförum undir körfunni. Það var hinn sterki varnarleikur, sem er aðalsmerki liðsins, auk góðra sóknartilþrifa hjá Chauncey Billups sem færði þeim sanngjarnan sigur. Ben Wallace, miðherjinn sterki hjá Detroit, sem mátti sín lítils gegn O’Neal sagði eftir leikinn að lykillinn að sigri Detroit hefði verið sá að þeir eru ekki háðir einum manni sóknarlega. „Það geta allir tekið af skarið í liðinu og ef einn leikmaður er í vandræðum þá kemur annar maður í hans stað," sagði Wallace eftir leikinn. Eins og áður sagði átti O’Neal frábæran leik í liði Lakers, skoraði 34 stig og tók 11 fráköst. Kobe Bryant skoraði 25 stig en það háði Lakers verulega að stjörnurnar Gary Payton og Karl Malone voru ósýnilegar allan leikinn og skoruðu aðeins sjö stig saman, nokkuð sem er langt frá þeirra besta. Chaunchey Billups var stigahæstur hjá Detroit með 22 stig, Rasheed Wallace skoraði 14 stig, Richard Hamilton skoraði 12 stig og Tayshaun Prince skoraði 11 stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×