Innlent

Kvikmyndamiðstöðin braut reglugerð

Menntamálaráðuneytið hefur fellt úrskurð Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um að neita kvikmyndafyrirtækinu Passport um kynningarstyrk vegna myndarinnar Þriðja nafnið úr gildi. Kvikmyndamiðstöðinni er gert að taka málið upp að nýju þar sem ekkert formlegt mat fór fram áður en ákveðið var að hafna umsókninni. Einar Þór Gunnlaugsson, framleiðandi og eigandi fyrirtækisins Passport, telur að gagnrýni hans á Kvikmyndamiðstöðina hafi ráðið úrslitum um að hann fékk ekki styrkinn sem og styrk um eftirvinnslu. Hann segir úrskurðinn áfellisdóm yfir Laufeyju Guðjónsdóttur forstöðumanni og Hirti Grétarssyni, framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvarinnar, þar sem bæði voru í nefnd sem vann að gerð reglugerðar fyrir Kvikmyndamiðstöðina. Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, segir ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvarinnar ekki hafa verið byggða á gagnrýni Einars. "Þegar það er takmarkaður sjóður og margir umsækjendur með verðugar umsóknir þá, því miður, veit maður að margir verða óánægðir og gagnrýna," segir Laufey. "Það er rétt að kvikmyndin fékk ekki skriflega umsögn kvikmyndaráðgjafa. Við fengum mjög margar umsóknir og margir sem biðu svara, meðal annarra Einar." Laufey segir það hafa verið mistök að ekki hafi farið fram formlegt mat á umsókninni. "Við viljum ekki meina að það hafi að minnsta kosti verið viljandi. Það lá ekki fyrir að myndin væri tilbúin, " segir Laufey en það sé skilyrði fyrir kynningarstyrk. Hratt hafi hins vegar verið unnið. "Við vitum það núna að hún er sannarlega tibúin, myndin, og okkur ekkert að vanbúnaði að fjalla um umsóknina aftur." Einar segir mikilvægt að menntamálaráðuneytið endurskoði reglugerðina og geri hana ítarlegri til að forðast svona uppákomur. "Kvikmyndamiðstöð Íslands verður að vera hafin yfir allan grun, að þar sé heiðarlega og eðlilega að mati umsókna staðið því heil atvinnugrein stólar á þessa stofnun."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×