Sport

9 mörk á White Hart Lane

Arsenal læddi sér aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með dramatískum sigri á Tottenham í einum fjörugasta leik tímabilsins en lokatölur á White Hart Lane urðu 4-5. Heimamenn í Tottenham komust yfir með marki Noureddine Naybet á 37. mínútu en Thierry Henry jafnaði metin á lokasekúndu fyrri hálfleiks. Þá var leikurinn í raun rétt að byrja því sjö mörk litu dagsins ljós í seinni hálfleik. Arsenal komst í 3-1 með mörkum Bisan Lauren úr víti á 55. mín. og Patrick Vieira á 60. mín. Jermain Defoe  minnkaði muninn fyrir Spurs í 3-2 á 61. mínútu en Fredrik Ljungberg jók forystu Arsenal í 4-2 á 69. mínútu. Ledley King minnkaði muninn fyrir Spurs í 4-3 á 74. mín en Robert Pires skoraði sigurmark Arsenal á 81. mínútu. Frederic Kanoute minnkaði svo muninn enn einu sinni fyrir Spurs á 88. mínútu í 4-5 og 9 marka leikur staðreynd. Þetta er fyrsti sigur Arsenal í síðustu 4 deildarleikjum sem hafa átt erfitt með að ná sér á strik að nýju eftir tapleikinn gegn Man Utd 24. nóv sl. Southampton krækti sér í dýrmæt 3 stig með 2-1 sigri í nágrannaslagnum gegn Portsmouth en þetta var fyrsti sigur liðsins í 11 leikjum. Dexter Blackstock og Kevin Phillips skoruðu mörk Southampton og gáfu knattspyrnustjóranum Steve Wigley hugsanlega lengri gálgafrest því hann hefði verið látinn taka pokann sinn hefði liðið ekki unnið þennan leik. Þess má geta að fjölmiðlar í Bretlandi hafa haldið því stíft fram í vikunni að Glen Hoddle taki við starfi Wigley á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×