Erlent

Svíar oft veikir

Svíar taka sér veikindafrí, vakni þeir þreyttir og leiðir. Raunar virðist þeim finnast hvaða afsökun sem er duga, samkvæmt nýrri rannsókn. Yfirvöld telja rétt að bregðast við þessum með fræðsluherferð. Samkvæmt rannsókninni telja 65% prósent Svía streitu í vinnu góða ástæðu til að taka sér veikindafrí, og 41% telur deilur við yfirmann eða samstarfsfélaga nægja. Þreyta, þynnka og leiðindi eru einnig ofarlega á lista, eins og raunar veikindi barna. Tilhneigingin til að taka sér bara veikindafrí virðist einnig ríkari hjá yngra fólki. Þetta kemur fram í grein sem Anna Hedborg, yfirmaður Tryggingastofnunar þeirra Svía, ritar í Dagens Nyheter í dag. Félagsmálayfirvöld eru ekki á sama máli og hinir meintu sjúklingar, og hyggjast því hefja herferð til að fræða almenning um hvenær megi, lögum og reglum samkvæmt, taka sér veikindafrí. Nauðsynlegt sé að ítreka, að veikindafrí eigi einungis að taka, þegar menn liggi í raun og veru veikir og óvinnufærir í rúminu. Það virðist reyndar full ástæða til að ítreka þetta við Svía, því á undanförnum tveimur árum virðist heilsu þeirra hafa stórhrakað, miðað við fjölda veikindadaga. Þeim hefur fjölgað um helming á þeim tíma, eru nú 800 þúsund sem jafngildir fimmtungi vinnufærra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×