Erlent

Nýr fellibylur

Hver fellibylurinn rekur nú annan í Karíbahafi. Ívan grimmi lék Bandaríkjamenn grátt í nótt og fast á hæla honum bylurinn Jeanne, sem olli mannfalli á sama tíma. Íbúar í suðausturhluta Bandaríkjanna fara ekki varhluta af hamaganginum í Ívani. Nú er ljóst að í það minnsta tuttugu fórust þegar hann gekk yfir í gær, og er óttast að þessi tala muni enn hækka. Á yfirreið sinni um Karíbahaf kostaði Ívan sextíu og níu lífið. Skaðinn sem Ívan olli í Bandaríkjunum var þó minni en óttast hafði verið. Sérfræðingar tryggingafélaga kanna nú skaðann sem Ívan olli, en þeir telja að tjónið sé upp á þrjá til tíu milljarða bandaríkjadollara, eða allt að sjöhundruð og tuttugu milljörðum króna. Björgunarsveitir hreinsa nú til í rústum húsa sem stóðu storminn ekki af sér. Á þriðju milljón íbúa Flórída, Alabama, Georgíu og Missisippi ættu að taka verðmætar eignir úr húsum sínum og drífa sig á brott sagði í tilkynningum á útvarpsstöðvum á Bahama-eyjum í gær og í dag, enda stefnir næsti fellibylur, Jeanne, hraðbyri þangað. Áður gekk hún yfir Dóminíkanska lýðveldið, þar sem tveir týndu lífi. Allt stefnir í að Jeanne sæki enn frekar í sig veðrið og valdi enn meiri usla á leið sinni að mótum Georgíu og Norður-Karólínu í byrjun næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×