Erlent

Skilnaðurinn reiðarslag fyrir Dani

Jóakim Danaprins og eiginkona hans Alexandra ætla að skilja eftir níu ára hjónaband. Fréttirnar eru reiðarslag fyrir dönsku þjóðina. Formlega var tilkynnt um skilnaðinn á blaðamannafundi í dönsku konungshöllinni í morgun. Jóakim og Alexandra giftust árið 1995 og eiga tvo syni, Nikolai sem er fimm ára og Felix, tveggja ára. Í fréttatilkynningu segir að þau hafi í sameiningu ákveðið að skilja eftir mikla og stranga erfiðleika í sambandinu. Jóakim muni eftirleiðis búa í Schackenborgar-höll en litlu prinsarnir muni búa hjá móður sinni í íbúð í Amalie-borg. Þau ætla í sameiningu að sjá um uppeldi sonanna og deila forræði þeirra. Samkvæmt talsmanni konungshallarinnar hefur Alexandra ekki í hyggju að yfirgefa Danmörku og bæði munu halda áfram að sinna opinberum skyldum sínum. Þá heldur Alexandra prinsessutitli sínum en missir hins vegar hinn konunglega titil. Alexandra er ættuð frá Hong Kong en parið kynntist þar fyrst í janúar 1994 og giftist ári síðar í Friðriksborgarhöll. Alexandra var vinsæl meðal dönsku þjóðarinnar og skilnaðurinn hefur vakið mikla undrun í Danmörku. Í fréttatilkynningunni segist parið ætíð hafa fundið fyrir velvilja í sinn garð og vonar að mæta skilningi á þessum erfiðu tímum. Jóakim og Alexandra komu í fimm daga heimsókn til Íslands fyrir þremur árum og gerðu víðreist um landið. Eldri bróðir Jóakims, Friðrik krónprins, gifti sig í maí á þessu ári. Eiginkona hans, Mary Donaldson, er frá Ástralíu. Myndin er frá blaðamannafundinum í konungshöllinni í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×