Erlent

Varað við borgarastríði í Írak

Bandaríska leyniþjónusturáðið hefur varað George W. Bush Bandaríkjaforseta við því að borgarastríð kunni að brjótast út í Írak fyrir árslok 2005. Þetta byggir ráðið á rannsókn stjórnmála, efnahags- og öryggismála í Írak. Ráðið segir þrjá möguleika fyrir hendi um þróun mála í Írak og alla slæma. Bjartsýnasta spá ráðsins er sú að viðkvæmt jafnvægi muni ríkja í Írak. Önnur er að auknar árásir og upplausn í írösku þjóðfélagi dragi úr möguleikum á að byggja upp miðstýrða landsstjórn og grafi undan lýðræðisþróun í landinu. Þriðja spáin er að ofbeldið versni enn og leiði til borgarastríðs. Ráðið vann rannsókn sína síðla sumars og var markmiðið að lýsa möguleikum á þróun mála fram til ársloka 2005, þegar fyrirhugaðri hersetu Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak lýkur. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur í fyrsta sinn kveðið upp úr með að innrásin í Írak hafi verið ólögleg. "Frá okkar sjónarhorni og út frá stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna var innrásin ólögleg," sagði hann í viðtali við BBC. Ríkisstjórnir sem stóðu að innrásinni í Írak gáfu ekki mikið fyrir orð Annans. Bush sagðist myndu taka sömu ákvörðun nú ef hann þyrfti þess. "Öryggisráðið hafði samþykkt nokkrar ályktanir og ráðgjöfin sem við fengum var sú að innrásin væri algjörlega lögleg," sagði John Howard, forsætisráðherra Ástralíu. "Ummæli Annans koma okkur ekki á óvart. Þetta er það sem spænska stjórnin hefur sagt og ástæðan fyrir því að við kölluðum hermenn okkar heim frá Írak," sagði Javier Valenzuela, talsmaður spænsku ríkisstjórnarinnar. Hvorki náðist í Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra né Davíð Oddsson utanríkisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×