Innlent

Áhyggjur vegna fasteignaskatts

Verði kirkjum gert að greiða fasteignagjöld kemur það væntalega í hlut þeirra rúmlega 280 safnaða að greiða þau, segir Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs þjóðkirkjunnar. Guðmundur segir að verði af gjaldtökunni væri sanngirnismál að kirkjur landsins fengju hærri fjárframlög. Kirkjan muni kanna stöðu sína: "Það má ekki gleyma því að ríkið skerti sóknargjöldin varanlega í fyrra um sjö prósent. Það var þungbær skerðing fyrir marga söfnuði. Komi þetta til viðbótar er það áhyggjuefni og visst áfall, sérstaklega þar sem kirkjur eru oft stór mannvirki." Fasteignagjöld eru greidd eftir verðmati eigna og hefur tekjustofnanefnd sveitarfélaga og ríkisins náð samkomulagi um slíkar greiðslur. Magnús Axelsson, forstöðumaður safnaðarráðs Fríkirkjunnar, segir fjárhæð fasteignagjalda sennilega ekki gera söfnuðinn gjaldþrota: "Öll útgjöld sem bætast við safnaðarstarfið þrengja að öðrum þáttum. Þá er minna eftir fyrir barnastarf, unglingastarf, starf aldraðra og svo framvegis."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×