Innlent

Sjóðurinn grefur undan bönkunum

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir alvarlegt mál ef opinber stofnun eins og Íbúðalánasjóður reyni að grafa undan trúverðugleika bankanna.  Hallur Magnússon, sviðsstjóri hjá Íbúðalánasjóði, sagði í viðtali við Fréttablaðið í morgun að hann drægi í efa að bankarnir hefðu fjárhagslegt bolmagn til að bjóða þá vexti á húnsæðislánum sem þeir væru að gera. Guðjón segir opnun íslensks efnahagslífs og innkomu erlendra fjárfesta á undanförnum árum fest í sessi raunvaxtalækkun til frambúðar, almenningi í hag. Að því leyti komi ummæli sviðsstjóra Íbúðalánasjóðs á óvart. Auk þess hafa fjármálafyrirtæki hér á landi eflst gríðarlega í kjölfar einkavæðingar ríkisbanka að sögn Guðjóns og svo sannarlega í stakk búin að takast á við þetta verkefni. Honum finnst jafnvel alvarlegra að opinberir starfsmenn viðhafi ummæli sem geti orðið til þess að grafa undan trausti fyrirtækja sem skráð eru á markaði. En skyldi staða bankanna hafa breyst svo mikið á nokkrum mánuðum? Þegar bankarnir óskuðu eftir áliti ESA á því hvort starfsemi Íbúðalánasjóðs bryti í bága við Evrópureglur kom fram að þeir gætu ekki boðið sömu kjör og sjóðurinn vegna ríkistryggingar hans. Guðjón svarar því til að bankarnir séu í allt annarri stöðu í dag en fyrir hálfu ári, svo ekki sé talað um fyrir ári, og það lýtur fyrst og fremst að fjármögnun á markaði. Eftir sem áður segi hann afar óeðlilegt að ríkið sé ennþá stærsti aðilinn á fjármálamarkaði á þessu sviði og það þekkist ekki í löndunum í kringum okkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×