Erlent

Blóðtaka hjá Al-Qaeda

Al-Qaeda samtökin í Pakistan urðu fyrir mikilli blóðtöku í gær þegar einn æðsti leiðtogi þeirra var drepinn í skotbardaga. Erlend sendiráð, opinberar stofnanir og bænastaðir eru í viðbragðsstöða af ótta við hefndarverk. Það voru pakistanskir félagar í öryggissveitum sem skutu Amjad Hussain Farooqi, einn æðsta leiðtoga al-Qaeda í Pakistan, til bana í tveggja klukkustunda löngum skotbardaga í gær. Tveir menn voru handteknir og í kjölfar þess hafa enn fleiri verið handteknir víðsvegar um landið. Allt eru það meintir íslamskir skæruliðar og hryðjuverkamenn. Farooqi var meðal annars sakaður um að hafa skipulagt tilræði við Pervez Musharraf, forseta Pakistans, auk morðsins á blaðamanninum Daniel Pearl. Hann er sagður hafa verið öflugur í að safna nýliðum og fótgönguliðum. Yfirvöld höfðu lagt ríflega 300 þúsund dollara til höfuðs honum, eða hátt í 25 milljónir króna. Viðvaranir voru sendar til erlendra sendiráða, opinberra stofnana og bænastaða þar sem talin er hætta á hefndarverkum. Pakistönsk yfirvöld telja handtökurnar ekki einungis valda uppnámi innan al-Qaeda heldur geti þær leitt til þess að takist að uppræta stjórn samtakanna í Pakistan. Höfuðpaurar al-Qaeda, þar á meðal Ósama bin Laden, eru sagðir í felum á landamærum Pakistans og Afganistans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×