Innlent

Nýr ráðuneytisstjóri félagsmála

"Ég hlakka til að takast á við verkefnið í samvinnu það ágæta starfsfólk sem er þarna fyrir," sagði Ragnhildur Arnljótsdóttir lögfræðingur, sem hefur verið skipuð í embætti ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins til fimm ára. Hún sagði að nýja starfið legðist vel í sig, en við því tekur hún 15. september. Ragnhildur er fædd 20. júní 1961. Hún útskrifaðist með kandídatspróf frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991. Síðastliðin tvö ár hefur hún starfað sem fulltrúi félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel. Á árunum 1995-2002 starfaði hún í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Einnig hefur hún starfað sem lögfræðingur í nefndadeild skrifstofu Alþingis, hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, sem og framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands og á Ríkisútvarpinu. Aðrir umsækjendur voru Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, Helga Jónsdóttir borgarritari, Hermann Sæmundsson, settur ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri miðborgar Reykjavíkur, og Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×