Erlent

Fjörutíu létust í bardögum

Í það minnsta fjörutíu manns létu lífið í bardögum og árásum víðs vegar í Írak í gær. Flestir féllu í bardögum í Sadr-borg, fátæktarhverfi í Bagdad. Þar létust 34 í hörðum bardögum og nær 200 manns til viðbótar voru fluttir særðir á sjúkrahús. Bardagarnir brutust út í fyrri nótt en stóðu fram á morgun í gær. Áður en bardagarnir blossuðu upp hafði verið rólegt um nokkurra daga skeið í hverfinu þar sem bandarískir hermenn og stuðningsmenn sjíaklerksins Muqtada al-Sadr hafa oft borist á banaspjót undanfarið. Flestir þeirra sem létust í bardögunum í Sadr-borg voru Írakar, raunar allir nema einn bandarískur hermaður. Ekki var gefið upp hvernig skiptingin væri milli vígamanna og óbreyttra borgara. Vegfarandi lést þegar sprengjuárás var gerð á bílalest borgarstjórans í Bagdad og þrír lífverðir hans særðust. Fimm bandarískir hermenn féllu í bardögum og sprengjuárásum víðs vegar í Írak í gær. Þrír féllu þegar sprengjur sprungu á vegum sem þeir áttu leið um og tveir féllu þegar skotið var að sveitum þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×