Erlent

Fylgi Verkamannaflokksins hrynur

Breski verkamannaflokkurinn galt afhroð í borgar- og bæjarstjórnarkosningum í Bretlandi í gær og tapaði meira en tvöhundruð borgar- og bæjarfulltrúasætum. Þetta er einhver mesti ósigur í sögu flokksins og áfall fyrir Tony Blair. Gengi Verkamannaflokksins í þessum kosningum er hið slakasta frá því að Tony Blair varð formaður flokksins fyrir tíu árum. Ef fer sem horfir verður Verkamannaflokkurinn þriðji stærsti flokkurinn á eftir bæði Íhaldsflokknum og Frjálslynda demókrataflokknum. Þegar nærri helmingur atkvæða hafði verið talinn hafði verkamannaflokkurinn tapað 211 sætum Fréttaskýrendur segja ljóst að þetta muni enn á ný vekja umræður um stöðu Blairs og kröfur um að hann segi af sér fyrir næstu kosningar. Blair var þó kokhraustur þar sem hann ræddi við fréttamenn á fundi leiðtoga stærstu iðnríkja heims, og kvaðst sannfærður um að fylgi flokksins myndi aukast þegar ástandið í Írak batnaði, sem það myndi án efa gera. Leiðtogar Verkamannaflokksins eru sammála um að stríðinu í Írak sé um að kenna. David Blunkett, innanríkisráðherra, segir niðurstöðurnar niðurlægjandi en að Íraksstríðið hafi í raun klofið þjóðina. Sá skaði sé þó vonandi ekki varanlegur. Stjórnmálaskýrendur telja að kjósendur séu að refsa Blair fyrir þáttöku Breta í Íraksstríðinu og segja að miðað við fylgið nú, gætu íhaldsmenn náð hreinum meirihluta á þingi yrði kosið í dag. Verkamannaflokkurinn hlyti 327 sæti og tapa 86; íhaldsmenn fengju 257 og ynnu 91; og frjálslyndir fengju 46 þingmenn, töpuðu sex. Fréttskýrendur benda þó jafnframt á, að lítil fylgni sé jafnan á fylgistölum í sveitarstjórnarkosningum og þingkosningum í Bretlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×