Erlent

Heita herferð gegn Síonistum

Hefndum er heitið fyrir drápið á einum leiðtoga Hamas-samtakanna í Sýrlandi í morgun. Hamas heitir herferð gegn Síónistum um allan heim. Árásin í dag gæti markað breytingu í baráttu Hamas og ísraelskra stjórnvalda. Bílsprengja sem sprakk í Damaskus í Sýrlandi í morgun grandaði Izz Eldine Subhi Sheik Khalil, einum leiðtoga vopnaða vængs Hamas. Talsmenn ísraelskra öryggismálayfirvalda gengust við því að útsendarar Ísraelsríkis væru viðriðnir tilræðið. Viðbrögð Hamas voru skýr: samtökin birtu á heimasíðu sinni yfirlýsingu þar sem sagði að Síonistar hefði nú fært baráttuna út fyrir landamæri Ísraels og Palestínu. Fram til þess hefði Hamas látið Síonista erlendir í friði en nú yrðu Síonistarnir að taka afleiðingum gjörða sinna. Talsmaður Hamas, Mushir al-Masri, var vígreifur og sagði þessi morð hvorki hafa áhrif á andspyrnu Hamas né veikja samtökin. Andspyrnan hafi kennt þeim að standa ekki aðgerðalaus gagnvart þessum glæpum og hann sagði að fyrir þá verði refsað. „Síonistar mega vita það að þeir munu gjalda fyrir þá glæpi að myrða Ahmed Yassin, dr. Abdul Aziz Rantisi og aðra Palestínumenn. Andspyrnuhreyfingin sækir í sig veðrið með hverjum deginum sem líður,“ sagði al-Masri. Þetta er aðeins í annað skipti á þrjátíu árum sem Ísraelsmenn grípa til einhvers konar aðgerða innan landamæra Sýrlands, og segja fréttaskýrendur í Ísrael í þessu felast skýr skilaboð til stjórnvalda í Damaskus þess efnis að þau skuli ekki veita hryðjuverkamönnum skjól. Nýlegar fregnir frá Damaskus herma raunar að Sýrlendingar hafi skipað fyrir um að skrifstofum palestínskra samtaka í landinu skyldi lokað. Að auki hafa Ísraelsmenn heitið því að ganga á milli bols og höfuðs á forystu Hamas og ítrekuðu þeir þá fyrirætlan sína nýlega. Á föstudag greindi arabíska dagblaðið al-Hayat frá því að ónafngreindur Arabi hefði látið ísraelsku leyniþjónustunni Mosad í té upplýsingar um leiðtoga Hamas erlendis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×