Erlent

Fjórði fellibylurinn á sex vikum

Fjórði fellibylurinn á sex vikum gerði Flórídabúum lífið leitt í dag. Fellibylurinn Jeanne lagði í rúst það sem björgunarsveitir voru enn að reyna að bæta eftir yfirreið síðasta byls. Þó að Jeanne sé ekki lengur kraftmesta gerð fellibyls heldur einungis af stærðargráðu tvö, var vindhraðinn samt 53 metrar á sekúndu í morgun sem er fárviðri samkvæmt gömlu íslensku mælingunum. Tom Harmer, lögreglumaður í borginni Stuart á Flórída, segir að við fyrstu sýn virtust skemmdirnar meiri en eftir fellibylinn Frances. Mörg þök hafa fokið, rafmagnslínur liggja á vegum og flóðin eru miklu meiri en síðast. Jeanne gekk á land skammt austan við Stuart en það er nánast á sama stað og Frances tók land fyrir aðeins þremur vikum. Rafmagnslínur, sem sumar eru nýviðgerðar eftir fyrri óveður, hafa nú enn og aftur farið í sundur og þök og reyndar allt lauslegt fýkur um svæðið. Óttast er að fellibylurinn valdi flóðum í öðrum nálægum borgum, meðal annars í Orlandó og Fort Lauderdale. Yfirvöld í Flórída höfðu hvatt um þrjár milljónir manna til að yfirgefa heimili sín en íbúar eru orðnir svo leiðir á þessu endalausa óveðri sem yfir þá hefur gengið að fáir hlýddu tilmælunum. Fellibylurinn Jeanne er fjórði fellibylurinn sem gengur yfir Flórídabúa á örfáum vikum. Þetta er reyndar í fyrsta sinn síðan mælingar hófust árið 1851 að fjórir fellibyljir hafa gengið yfir eitt og sama ríkið í Bandaríkjunum á einu og sama fellibyljatímabilinu, sem stendur frá júní til nóvemberloka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×