Innlent

Sex tíma í skýrslutöku

Jón Gerald Sullenberger var í sex klukkustundir í skýrslutökum hjá Ríkislögreglustjóra í gær vegna rannsóknar á meintum efnahagsbrotum forsvarsmanna Baugs. Hann er boðaður aftur í skýrslutöku í dag. Rannsóknin hefur staðið í tæp tvö ár. Jón Gerald mætti í skýrslutöku klukkan tvö í gærdag en kom út af skrifstofu Ríkislögreglustjóra snemma á níunda tímanum í gærkvöldi. Jón sagðist ekkert mega segja um hvað hafi verið rætt, en gaf upp að hann væri boðaður aftur í skýrslutöku í dag. Upphaflega stóð til að teknar yrðu skýrslur af Jóni Geraldi fyrir dómi þar sem öllum er opinn aðgangur en í gærmorgun var ákveðið að skýrslutakan skyldi fara fram fyrir luktum dyrum í húsakynnum Ríkislögreglustjóra. Aðspurður sagðist Jón Gerald ekki vita af hverju þessu hefði verið breytt, því þyrfti lögregla að svara. Jón fullyrðir að samningur sé í gildi milli hans og Baugs þess efnis að hann gefi aðeins skýrslur í dómssal. Hann segir það þó ekki rof á samningnum þó hann hafi gefið skýrslu fyrir luktum dyrum hjá Ríkislögreglustjóra. Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, hafnar með öllu að nokkur slíkur samningur sé í gildi milli Baugs og Jóns Geralds: "Við getum ekki samið um það hvernig Jón Gerald hagar sínum málum gagnvart lögreglunni. Það voru málaferli í gangi milli Nordica og Baugs sem laut að einkaréttarlegu uppgjöri. Því máli lauk með sátt fyrir ári síðan og liður í henni var samkomulag þess efnis að málsaðilar væru bundnir trúnaði um efni sáttarinnar. Sú sátt snertir hins vegar á engan hátt möguleika hans eða heimild til að reifa mál sín fyrir lögreglu eða öðrum yfirvöldum." Jón Gerald kom gagngert til landsins í skýrslutökur vegna Baugsrannsóknarinnar en hann er búsettur í Flórída. Hann er framkvæmdastjóri Nordica á Flórída, sem átti í viðskiptum við Baug en kærði fyrirtækið á sínum tíma til lögreglu þar sem hann taldi Baug skulda sér ógreidda reikninga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×