Erlent

Lögsaga Svalbarða er ekki norsk

Norsk stjórnvöld hafa heimilað erlendum skipum að veiða 80 þúsund tonn af síld fram til 15. október í lögsögu Svalbarða samkvæmt Fiskifréttum. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir í samtali við Fréttablaðið ekki skilja hvers vegna íslensk stjórnvöld fari ekki dómstólaleiðina og tryggi rétt sinn á svæðinu. "Það er engin þjóð sem viðurkennir rétt Norðmanna til að líta á lögssöguna í kringum Svalbarða sem norkst yfirráðasvæði," segir Friðrik. Friðrik segir að árið 1920 hafi Norðmenn fengið fullveldi yfir Svalbarða með því skilyrði að aðrar þjóðir hefðu sama rétt innan lögsögunnar og Norðmenn. Þeir hafi síðar fært lögsöguna úr fjórum mílum í 200 og vilji að norsk lög gildi um hana að frátölum þeim fyrstu fjóru. "Við viðurkennum ekki að þeir geti stjórnað veiðum þarna með vísan til noskra laga heldur verða þeir að byggja allar athafnir sína á grundvelli þessa sáttmála," segir Friðrik. Íslensk stjórnvöld eigi að ná samningum við Norðmenn. "En ef ekki þá viljum við að farið verði með þetta mál fyrir alþjóðadómsstól og látið reyna á það hvort að þessir stjórnunarhættir Norðmanna standist." Ekki náðist í Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sem hefur umsjón með málinu og Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra vildi ekki tjá sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×