Erlent

Tvær milljónir flýja heimili sín

Tvær milljónir Bandaríkjamanna flýja nú heimili sín í Flórída, Louisiana og Alabama-ríki af ótta við fellibylinn Ivan. Búist er við að Ivan gangi á land þar á morgun.  Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í þessum þremur ríkjum; Flórída, Louisiana og Alabama og fólk er hvatt til að yfirgefa heimili sín. Ivan hefur mjög oft breytt um stefnu síðustu dagana og sneiddi til að mynda hjá Kúbu, þvert ofan í spár. Að sama skapi virðist líklegt að Flórídaríki sleppi við mesta veðurhaminn í þetta sinn. Sérfræðingar óttast hins vegar að flóðbylgjur geti valdið miklu tjóni á allri strandlengjunni. Sérstaklega er óttast um borgina New Orleans í Louisiana-ríki sem liggur undir sjávarmáli. Ef allt fer á versta veg gæti tæplega sex metra há flóðbylgja skolast yfir borgina. Um ein og hálf milljón manna býr í New Orleans og nágrenni og hafa yfirvöld hvatt íbúa til að forða sér. Gríðarlegar tafir hafa myndast á vegunum út úr borginni og ljóst að ekki komast allir í burtu. Hver fellibylurinn á fætur öðrum gengur nú yfir Karíbahafið og Mexíkóflóa og enn einn bylurinn, sem fengið hefur nafnið Jeanne, er að myndast við Púertó Ríkó og Jómfrúreyjar. Meðfylgjandi er gervihnattamynd af Ivan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×