Innlent

Úttekt á þjónustu við aldraða

Ríkisendurskoðun gerir nú úttekt á þjónustu við aldraða á stofnunum. Benedikt Davíðsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir að stórar öldrunarstofnanir eigi að heyra sögunni til. Vistmennn þar hafi verið mjög óánægðir með tíð starfsmannaskipti og þjónustuna almennt.  Athugun hófst í sumar að frumkvæði Ríkisendurskoðanda og eru niðurstöður væntanlegar í janúar eða febrúar. Skoðað verður hvaða þjónusta er veitt á þessum stofnunum og hvað hún kostar og gerður samanburður milli stofnana. Í úttekt sem gerð var af einkaaðilum fyrir forsvarsmenn virtrar öldrunarstofnunar í borginni sýndu niðurstöður mikla óánægju aldraðra og aðstandenda þeirra. Óánægjan var fyrst og fremst vegna tíðra starfsmannaskipta og fjölda erlendra starfsmanna sem olli því að fólki fannst erfitt að gera sig skiljanlegt. Benedikt segist vona að úttekt ríkisendurskoðunar verði tæki til að fara fram á úrbætur. Hann segir ekki nærri nógu vel búið að eldra fólki á elliheimilum, m.a. vegna fjárhagserfiðleika heimilanna. Benedikt segir mikilvægt að auðvelda öldruðu fólki að vera sem lengst á heimilum sínum. Auka þurfi heimaþjónustu og gera þeim fjárhagslega kleift að vera heima. Leggja beri áherslu á að byggja upp hjúkrunarheimili en tæplega tveggja ára bið sé fyrir fólk sem brýnt er að fari á hjúkrunarheimili. 25-30 prósent lifa það ekki að komast á slíkt heimili. Benedikt telur að dvalarheimilin eigi eftir að fjara út en að sjálfsögðu þurfi hjúkrunarheimilin að vera til staðar. Hann segir að fólkið á dvalarheimilunum eigi mikið frekar eiga að vera heima við en á slíkum stofnunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×