Innlent

Jarðskjálfti upp á 3,4 á Richter

Jarðskjálfti sem mældist 3,4 á Richter varð á svæðinu milli Heklu og Torfajökuls, nánar tiltekið 12,3 kílómetra norðnorðvestur af Álftavatni, fyrir tæplega hálfri klukkustund eða klukkan 15:34. Annar minni skjálfti varð á svæðinu tveimur mínútum áður og mældist hann 1,5 á Richter. Samkvæmt upplýsingum frá jarðeðlisfræðingum Veðurstofu Íslands er ekki óalgegnt að skjálftar verði í grennd við Torfajökul. Í október síðastliðnum varð skjálftahrina í Torfajökli en þá mældist um tugur smáskjálfta á bilinu 0,6-1 á Richter, aðeins austar en þeir jarðskjálftar sem urðu í dag. Jarðskjálfti sem mældist 2,9 á Richter varð rétt fyrir klukkan eitt í dag, tuttugu og þrjá kílómetra norðnorðaustur af Drangey í Skagafirði. Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki óvenjulegt að skjálftar verði út af mynni Skagafjarðar en engin sérstök skjálftavirkni hefur verið á svæðinu. Hrina smáskjálfta varð aftur á móti um tuttugu kílómetra norður af Siglufirði síðastliðinn sunnudag og mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×