Innlent

Gaul var ekki sökkt

Útilokað er að sovéskur kafbátur hafi sökkt breska togaranum Gaul sem sökk út af ströndum Noregs árið 1974. Togaranum var illa við haldið og því fór sem fór. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar sem kynnti niðurstöður sínar í morgun. Togarinn Gaul lagði úr höfn í Hull í febrúar árið 1974 og stefndi í norðurátt. Þegar hann var um sjötíu mílur frá ströndum Noregs rofnaði sambandið við togarann og hann hvarf. Ekkert neyðarmerki barst og ótrúlegustu sögusagnir fóru af stað um að ekki væri allt með felldu. Í þrjá áratugi hafa sögusagnir verið á kreiki um að skipið hafi í raun verið hlerunarskip sem fylgdist með sovéska flotanum. Af þeim sökum hafi sovéskur kafbátur sökkt togaranum. Flakið fannst fyrst árið 1997 og tveimur árum síðar var rannsókn fyrirskipuð á því sem gerðist. Niðurstaða þeirrar rannsóknarvinnu var kynnt í morgun og niðurstaðan er ekki til þess fallin að friðþægja þá sem trúa sögusögnum um njósnastarfsemi Togarinn sökk í ofsaveðri, og er fullyrt að ruslalúga hafi verið opin þar sem sjór gat streymt inn óhindrað inn á dekkið. Viðhaldi hafi einnig verið illa sinnt. Aðrar ástæður eru útilokaðar: engar vísbendingar séu um að nokkur hafi komið um borð og hreinlega rænt togaranum, engin ummerki séu um árekstur eða sprengingu af nokkru tagi, né heldur mikla ísingu, vélarbilun eða því um líkt. Og næsti sovéskur kafbátur hafi verið í um þúsund mílna fjarlægð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×