Sport

Rooney gerir engar rósir

Franski varnarmaðurinn Lilian Thuram, sem leikur með Juventus, segir að enski sóknarmaðurinn ungi Wayne Rooney sé ekki nógu reynslumikill til að gera einhverjar rósir á EM í Portúgal sem hefst á laugardaginn. Wayne Rooney, sem er á mála hjá Everton, er aðeins átján vetra og hefur skorað fimm mörk í þrettán landsleikjum – þar af komu tvö gegn okkur Íslendingum um síðustu helgi. Thuram, sem mun að öllum líkindum gæta Rooneys þegar England og Frakkland mætast í fyrsta leik liðanna á EM, lét hafa þetta eftir sér: „Ég efast um að Rooney geti fært enska liðinu mikið. Hann er mjög ungur – of ungur fyrir svona harða keppni. Hann skortir alþjóðlega reynslu svo það er mjög varhugavert hjá Englendingum að treysta á að hann komi til með að skora mörk fyrir þá í þessari keppni.“ Og Thuram hélt áfram: „Rooney er enginn Michael Owen – hann var mun betri leikmaður þegar hann hóf feril sinn með enska landsliðinu en Rooney er nú. Evertonleikmaðurinn er góður en hann er enginn Pele,“ sagði Lilian Thuram. Nú á að kynda undir sálfræðibálinu og það verður fróðlegt að sjá hvernig Wayne Rooney bregst við þessum ummælum inni á vellinum þegar þessir fornu fjendur, England og Frakkland, mætast á laugardaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×