Sport

Ranieri til Valencia

Ítalinn Claudio Ranieri, hinn nýburtrekni framkvæmdastjóri Chelsea, er á leiðinni síns gamla félags, Valencia, og tekur við af Rafael Benitez, sem líklega er að taka við stjórninni hjá Liverpool. Ranieri skrifaði í gær undir tveggja ára samning við spænsku meistarana. Eftir að hafa gert feitan starfslokasamning við Chelsea snýr Ranieri aftur til Valencia en hann var við stjórnvölinn hjá Leðurblökunum á árunum 1997–1999. Hann gerði góða hluti þar, eins og hann hefur gert alls staðar þar sem hann hefur komið við, og undir stjórn hans komst Valencia í Meistaradeildina í fyrsta skipti og vann spænska bikarinn 1997. Frá Valencia hélt Ranieri til Madrídar og tók þar við liði Atletico en dvöl hans þar spannaði aðeins eitt tímabil. Hann tók við framkvæmdastjórastöðunni hjá Chelsea í september árið 2000 af landa sínum Gianluca Vialli. Flestir voru á því að uppsögn hans nýverið hafi ekkert með frammistöðu hans eða liðsins að gera - Roman Abramovich, eigandi Chelsea, vildi af einhverjum ástæðum ekkert með Ranieri hafa. Ranieri kom til Valencia á mánudaginn og þetta hafði hann þá að segja: „Loksins er ég kominn heim, ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur til Valencia og hlakka til starfans.“ Óhætt er að segja að Ranieri takið við góðu búi en síðastliðið keppnistímabil var mjög fengsælt fyrir Valencia - liðið hampaði Spánarmeistaratitlinum og vann sigur að auki í Evrópukeppni félagsliða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×