Erlent

Risasnákur fannst í Flórída

Stærsti búrmasnákur sem fundist hefur í Flórída fannst nýlega í Everglades þjóðgarðinum, segja vísindamenn í samtali við BBC fréttastöðina. Snákurinn er 5,18 metrar að lengd og vegur 74 kíló. Í snáknum fundust 87 egg, sem einnig er talið vera met. Búrmasnákar eru orðnir nokkuð algengir í Everglades þjóðgarðinum en þeim er kennt um að spendýrum í garðinum hefur fækkað þar að undanförnu. Snákurinn sem fannst var dauður og verður krufinn til að hægt verði að rannsaka á hverju hann nærist.

Erlent

Stór skjálfti við Rússland

Jarðskjálfti sem mældist 7,7 stig varð við rússnesku eyjuna Sakhalin um eittleytið að staðartíma í nótt. Enginn lést í skjálftanum, að því er rússnesk yfirvöld greina frá. Upptök skjálftans voru á 373 mílna, eða um 600 kílómetra, dýpi. Almannavarnaráðuneyti Rússlands segir að enginn hætta sé á flóðbylgju og að litlar líkur séu á eftirskjálftum. Skjálftinn fannst á norðurhluta Japan, en þar í landi búast menn heldur ekki við að nein flóðbylgja verði.

Erlent

Bandarískir svindlarar í áratugalöng fangelsi

Tveir bandarískir karlmenn hlutu í gær áratugalanga fangelsisdóma fyrir umfangsmikinn fjárdrátt á árunum 2006-2011. Mennirnir drógu sér því sem nemur sex milljörðum króna og fór svindlið fram í sex fylkjum í Bandaríkjunum. Annar mannanna var dæmdur í 27 ára fangelsi en hinn í 22 ára fangelsi. Mennirnir eru helstu forsprakkar stórs glæpahrings sem stóð að svindlinu, sem fólst meðal annars í því að starfsmenn banka komust yfir persónuupplýsingar viðskiptavina bankans og nýttu þær til að draga sér fé. Alls hafa 27 manns í glæpahringnum verið dæmdir eða játað sekt.

Erlent

Stofnandi Cosmopolitan látin

Helen Gurley Brown, fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Cosmopolitan og höfundur metsölubókarinnar Sex and the Single Girl, lést í gær. Brown skrifaði bókina árið 1962 og með henni vildi hún sýna fram á að konur gætu átt eigin starfsframa og um leið hamingjusamt hjónaband og gott kynlíf, en þetta þótti nokkuð framandi hugmynd á þeim tíma. Brown ritstýrði Cosmopolitan í meira en þrjá áratugi. Hún var níræð þegar hún lést.

Erlent

Norskt dagblað vill Stoltenberg burt

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, ætti að segja af sér embætti vegna sannleiksskýrslunnar um hryðjuverkin í Noregi í fyrra, að mati leiðarahöfundar norska blaðsins Verdens Gang.

Erlent

Vilja banna nýnasistaflokkinn í Þýskalandi

Komin er upp hávær krafa í Þýskalandi um að nýnasistaflokkurinn, NPD, verði bannaður með lögum þar í landi. Á vef danska ríkisútvarpsins segir að fjórir ríkisstjórar í Þýskalandi hafi að undanförnu farið fram á að flokkurinn verði bannaður og krefjast þess að bæði þýskir ráðherrar og þingmenn láti málið til sín taka. Torsten Albig, ríkisstjóri í Schleswig-Holsten, segir að flokkurinn berjist gegn gildum samfélagsins og við það sé ekki hægt að una.

Erlent

Vopnaþungi uppreisnarinnar meiri

Sýrlenskir uppreisnarmenn segjast hafa skotið niður orrustuflugvél stjórnarhersins. Þeir halda flugmanni vélarinnar nú föngnum en sá náði að skjóta sér úr vélinni áður en hún varð eldi að bráð og hrapaði. Sýrlenski stjórnarherinn greindi frá því að flugmaðurinn hefði yfirgefið vélina en segja ástæðuna hafa verið bilun í vélinni.

Erlent

Barist við sex skógarelda á Spáni

Tveir slökkviliðsmenn í Alicante á Spáni eru látnir eftir að hafa barist við skógarelda þar. Í gær var barist við sex skógarelda í landinu og hafa margir þurft að yfirgefa heimili sín vegna þessa.

Erlent

Maður skotinn til bana í Osló

Þrjátíu og eins árs karlmaður var skotinn til bana fyrir utan bensínstöð við Ensjø-lestarstöðina í Osló í kvöld. Samkvæmt fréttavef norska ríkisútvarpsins var viðbúnaður lögreglu mikill á svæðinu en fórnarlambið lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Erlent

Fagna nýju ári með varðeldum

Hundruð varðelda loga nú í kínversku borginni Xichang. Yi-þjóðflokkurinn fagnar nú nýju ári og kveður um leið ára og illa anda á brott.

Erlent

Sló óvænt í gegn á YouTube

Söngvari frá Suður-Kóreu hefur slegið í gegn á veraldarvefnum á síðustu vikum eftir að hann frumsýndi myndband við nýtt lag. Yfir 27 milljónir hafa horft á myndbandið á Youtube.com.

Erlent

Skotárás við háskóla í Texas - þrír látnir

Að minnsta kosti þrír eru látnir eftir að maður hóf skothríð í grennd við A&M háskólann í Texas í Bandaríkjunum síðdegis í dag. Einn af þeim látnu er lögregluþjónn samkvæmt New York Times. Mikil hræðsla greip um sig á meðal nemenda á svæðinu þegar maðurinn hóf skothríð við eina af byggingunum. Lögreglumaðurinn sem lést fór inn í hús byssumannsins eftir að tilkynnt var um skothríðina og var hann skotinn eftir að hann fór inn í íbúðina. AP fréttastofan hefur eftir lögreglu að byssumaðurinn hafi verið fluttur á spítala eftir að hafa orðið fyrir skoti en hafi látist af sárum sínum á spítala.

Erlent

Hárprúði borgarstjórinn dansaði við Spice Girls

Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, sló heldur betur í gegn á lokaathöfn Ólympíuleikanna í borginni þegar stúlknahljómsveitin Spice Girls steig óvænt á svið. Á myndskeiði sem birt hefur verið á Youtube.com sést borgarstjórinn dansa við lagið Spice Up Your Life en við hlið hans er David Cameron, forsætisráðherra landsins, ásamt eiginkonu sinni Samönthu.

Erlent

Bretar ánægðir með Ólympíuleikana

Nýliðnir Ólympíuleikar í Lundúnum eru bestu Ólympíuleikar sögunnar. Þetta segir að minnsta kosti breska blaðið Daily Telegraph sem hefur skoðað fréttaumfjöllun miðla víða að úr heiminum um leikana.

Erlent

Stökkbreytt fiðrildi frá Fukushima

Geislavirkni í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fukushima í Japan virðist hafa leitt til stökkbreytinga hjá fiðrildum á svæðinu. Vísindamenn segja að fiðrildi á svæðinu hafi öðruvísi fætur, vængi og fálmara.

Erlent

Útilokar ekki afsögn vegna sannleiksskýrslunnar

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segist miður sín yfir því að björgunaraðgerðir hafi tekið of langan tíma þann 22. júlí í fyrra og að Anders Behring Breivik skyldi ekki hafa verið handtekinn fyrr en raunin varð. Þetta sagði hann á blaðamannafundi eftir að sannleiksskýrsla um atburðina var birt í dag. Hann lofar því að styrkja björgunarlið.

Erlent

Sjálfboðaliðar leita Sigrid í dag

Rúm vika er síðan hin sextán ára gamla Sigrid hvarf sporlaust, steinsnar frá heimili sínu í Ósló. Hennar er nú leitað á alþjóðlegum vettvangi en grunur leikur á að hún hafi verið numin á brott þegar hún var á leið heim til sín aðfaranótt sunnudags.

Erlent

Hefði mátt koma í veg fyrir hryðjuverkin

Það hefði mátt koma í veg fyrir hryðjuverkin í Noregi þann 22. júlí í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem kynnt var stjórnvöldum þar í landi í dag. Eins og kunnugt er varð fjöldamorðinginn Breivik 77 manns að bana. Skýrslan var birt á Netinu klukkan eitt að norskum tíma eða ellefu að íslenskum tíma. Helsta niðurstaðan er sú að með því að beita öryggisráðstöfunum sem norsk yfirvöld höfðu þegar tileinkað sér hefði verið hægt að koma í veg fyrir hryðjuverkin.

Erlent

Giffords flytur aftur á heimaslóðir

Gabrielle Giffords, fyrrverandi þingmaður á bandaríkjaþingi, og eiginmaður hennar flytja aftur til Tucson á næstunni. Giffords hefur búið í Houston í um eitt og hálft ár þar sem hún hefur undirgengist líkams- og talþjálfun. Hún var hætt komin þegar hún var skotin í höfuðið á pólitískri samkomu í byrjun síðasta árs, en Giffords var ein af nítján sem var skotin. Sex manns fórust í árásinni.

Erlent

Simpansi gekk um götur Las Vegas

Simpansi, sem ráfaði um götur Las Vegas í síðasta mánuði, eiganda sínum til mikillar armæðu, slap aftur úr búri sínu í gær og á götur borgarinnar. Eigandi simpansans, Timmi De Rosa, sagði í samtali við Associated Press fréttastofuna að einhver óprúttinn aðili hljóti að hafa hleypt honum úr búri sínu. Svo rammgert væri það að hann kæmist ekki þaðan sjálfur. Apinn náðist fljótlega eftir að hann slap úr búri sínu. Hann fær ekki að vera áfram á heimili eiganda sins heldur verður hann sendur í dýragarð í Oregon.

Erlent

Hélt afmælisveislu fyrir helstu stuðningsmenn

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hélt í gær veislu á heimili sínu í Chicago fyrir helstu stuðningsmenn sína til að afla fjár fyrir forsetakosningarnar. Obama, átti afmæli í síðustu viku, og var því um nokkurskonar afmælisveislu að ræða. 75 gestum var boðið í veisluna, en Obama segist hafa þekkt flesta þeirra mjög lengi eða frá því áður en hann eignaðist sín fyrstu jakkaföt.

Erlent

Upplýsingum um Breivik haldið leyndum í 60 ár

Stærstur hluti þeirra upplýsinga sem norsk yfirvöld hafa um fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik og ástæðurnar að baki morðunum í Ósló og í Útey í fyrra munu ekki birtast almenningi fyrr en eftir sextíu ár. Þetta kemur fram á vef Jyllands Posten í dag. Ný skýrsla um atburðina verður kynnt yfirvöldum í dag og verður haldinn blaðamannafundur í framhaldi af því. Skýrslan lak í fjölmiðla á föstudag, en þar kemur meðal annars fram hörð gagnrýni á viðbrögð lögreglunnar þennan örlagaríka dag.

Erlent

Búist við margmenni á Heathrow

Um sex þúsund íþróttamenn munu fara um flugstöð sem var sett upp sérstaklega vegna Ólympíuleikana, eftir því sem fram kemur í fréttum Daily Mail í dag.

Erlent

Verður ákærður fyrir að reyna að myrða dætur sínar

Karlmaður sem stakk fjögurra ára gamlar tvíburadætur sínar á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn í gær verður ákærður fyrir tvöfalda morðtilraun. Báðar telpurnar særðust alvarlega í árásinni og var á tímabili talið að minnsta kosti önnur þeirra væri í lífshættu. Þær eru núna í öndunarvél en ástand þeirra er stöðugt. Telpurnar höfðu verið með foreldrum sínum á spítalanum um skeið, en önnur þeirra hafði átt við langvarandi veikindi að stríða. Faðirinn hefur ekki verið yfirheyrður og því er ekki vitað hvað honum gekk til með árásinni.

Erlent

Harry mætti með mágkonunni

Ólympíuleikunum lauk í Lundúnum í gær með glæsilegri lokaathöfn. Þar komu fram margar af skærustu stjörnum heimsins, eins og The Who, Pet Shop Boys, Muse, Take That, og fleiri. Um áttatíu þúsund manns voru viðstaddir athöfnina. Harry Bretaprins var þar, sem fulltrúi bresku konungsfjölskyldunnar, en hann mætti með Kate Middleton, mágkonu sína upp á arminn. Vilhjálmur bróðir hans og eiginmaður Kate var hins vegar fjarri góðu gamni og sömu sögu er að segja af drottningunni Elísabetu, ömmu þeirra.

Erlent

Rúmlega 40 ára aldursmunur á parinu

Auðjöfurinn og fjárfestirinn George Soros fagnaði áttatíu og tveggja ára afmæli um helgina með því að bjóða nánustu vinum og ættingjum til veislu. Í veislunni tilkynntu hann og unnusta hans að þau hyggjast gifta sig. Unnustan heitir Tamiko Bolton, en hún er fjörutíu og tveimur árum yngri en hann. Soros og Bolton hafa verið par frá árinu 2008. Þetta er þriðja hjónaband Soros og annað hjónaband Bolton.

Erlent

Þriðja tegund manns fundin

Rannsóknir á steingervingum frá norðurhluta Kenía benda til þess að fundin sé ný ættkvísl manna sem lifðu í Afríku fyrir um tveimur milljónum ára. Uppgötvunin bendir því til þess að þrjár ótengdar tegundir manna hafi lifað á sama tíma, án vitneskju um hverja aðra.

Erlent

Fimmtíu þúsund flóttamenn í Tyrklandi

Tugþúsundir Sýrlendinga hafa flúið yfir landamærin til Tyrklands og annarra nágrannaríkja frá því stjórnarbylting hófst í Sýrlandi á síðasta ári. Yfirvöld í Tyrklandi áætla að rúmlega fimmtíu þúsund flóttamenn séu nú í landinu.

Erlent