Körfubolti

Lék á móti íslenska landsliðinu í Höllinni á dögunum og verður með ÍR í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Kovac í baráttu við Martin Hermannsson í leiknum í Laugardalshöllinni.
Roberto Kovac í baráttu við Martin Hermannsson í leiknum í Laugardalshöllinni. Mynd/fiba.basketball
Silfurlið ÍR frá síðasta tímabili hefur bætt við sig svissneskum landsliðsmanni en Roberto Kovac hefur gert samning við Breiðholtsliðið.

ÍR-ingar segja frá þessum nýja leikmanni sínum á fésbókarsíðu sinni.

Roberto Kovac lék með svissneska landsliðinu í naumu tapi á móti íslenska landsliðinu í Laugardalshöllinni á dögunum og var þá með 13 stig og 5 stoðsendingar á tæpum 30 mínútum. Það er besti leikur hans í riðlinum hvað varðar stig, stoðsendingar og framlag.

Roberto Kovac er 29 ára gamall og 191 sentimetri að hæð en hann leikur í stöðu skotbakvarðar. Síðustu ár hefur Roberto spilað í heimlandinu með Lions de Genève.  Hann hóf feril sinn með Fribourg Olympic.

Kovac upplifði það og nýju liðsfélagarnir hans á síðustu leiktíð en Ljónin frá Genf töpuðu þá í lokaúrslitum um svissneska meistaratitilinn. Kovac var með 12,8 stig og 1,9 stoðsendingar að meðaltali á 27,8 mínútum en hann hitti meðal annars úr 42 prósent þriggja stiga skota sinna eða 103 af 245.

Kovac mætir íslenska landsliðinu aftur á morgun en þjóðirnar mætast þá í óopinberum úrslitaleik um sigur í riðlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×