Erlent

Kötturinn sem heilsar dauðanum

Óli Tynes skrifar
Kötturinn Óskar í Steere House.
Kötturinn Óskar í Steere House.

Köttur á bandarísku hjúkrunarheimili fyrir gamalt fólk með mikil elliglöp hefur nú spáð rétt fyrir um dauða fimmtíu sjúklinga.

Starfsfólk á Steere House hjúkrunarheimilinu tók köttinn Óskar að sér þegar hann var kettlingur. Óskar er nú fimm ára gamall.

Langt er síðan starfsfólkið fór að taka eftir því að Óskar virtist finna á sér þegar sjúklingar voru að deyja. Óskar er alla jafna ekkert mannblendinn og reikar einn með sjálfum sér um ganga heimilisins.

Ef hinsvegar einhver er að deyja hoppar hann upp í rúmið hjá viðkomandi og hringar sig uppvið hann þartil hann skilur við.

Dr. David Dosa læknir við heimilið og aðstoðarprófessor við Brown háskólann vakti fyrst athygli á Óskari með grein sem hann skrifaði um hann í læknaritið New England Journal of Medicine árið 2007.

Þá hafði Óskar spáð rétt fyrir um dauðsföll í tuttugu og fimm tilfellum. Í dag hefur sú tala tvöfaldast.

Í nokkrum tilfellum hefur Óskar greint betur en starfsfólkið hvað var að gerast. Eitt sinn settu hjúkrunarkonur hann upp í rúm hjá sjúklingi sem þær héldu að væri að deyja.

Óskar stökk fram úr rúminu og fór til sjúklings á annarri stofu. Sá sjúklingur dó um kvöldið. Hinn sjúklingurinn dó tveim dögum seinna og þá var Óskar kominn upp í rúm til hans.

David Dosa kann enga áreiðanlega skýringu á þessum hæfileika kattarins. Hann veltir upp þeim möguleika að það kunni að vera lyktarskynið. Sagt er að hundar geti fundið lykt af krabbameini.

Dosa segir mögulegt að Óskar finni lykt af ketónum sem er sérstök lykt sem dyjandi frumur gefa frá sér.

Dosa læknir og hjúkrunarfólkið er nú orðið svo visst um greiningar Óskars að það er farið að láta ættingja vita ef hann hringar um sig í rúmi hjá einhverjum.

Ætla mætti að ættingjar og vinir sjúklinga litu á Óskar sem eitthvert óheillakvikindi, en svo er alls ekki.

Þvert á móti segir Dosa að það sé ættingjunum huggun að vita að dýrið hafi hringað sig hjá ástvininum á hinstu stundu þegar þeir gátu ekki verið þar sjálfir.

Óskars sé meira að segja oft getið hlýlega í dánartilkynningum og minningarræðum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.