Fleiri fréttir

"Geðþóttamat" hjá FME - Ingólfur sætir ekki rannsókn

Ingólfur Guðmundsson gerir alvarlegar athugasemdir við tilkynningu Fjármálaeftirlitsins þar sem birtur er rökstuðningur FME fyrir því að Ingólfur hafi þurft að víkja sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ingólfur er meðal annars ósáttur við að FME haldi því fram að hann hafi gefið stofnuninni rangar upplýsingar þegar hann sendi til hennar gögn sem áttu að liggja til grundvallar mati á hæfi hans. "Ef FME taldi svar mitt vísvitandi rangt hefði stofnunin átt að vísa málinu til rannsóknar hjá lögreglu. Það var ekki gert sem segir meira en mörg orð," segir Ingólfur. Að sögn Ingólfs var þarna um að ræða athugasemdir FME vegna svars hans á eyðublaði um hæfisupplýsingar þess efnis um hvort hann hafi sætt opinberri rannsókn. Ingólfur ítrekar að hann hafi aldrei sætt opinberri rannsókn og að þannig hafi hann svarað spurningunni, sannleikanum samkvæmt. Vísir sagði í morgun frá því að FME hefði loks birt gagnsæistilkynningu vegna mats á hæfi Ingólfs sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ingólfur þurfti síðasta haust að víkja úr stöðunni vegna mats stjórnar FME. Eins og Vísir greindi frá hefur Ingólfur stefnt FME vegna ákvörðunarinnar og krefst hann þess að henni verði hnekkt. FME krafðist frávísunar, á þeim grundvelli að Ingólfur væri hættur störfum, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 16. maí var þeirri kröfu FME hafnað. Ingólfur lítur svo á að fagleg sjónarmið hafi ekki verið uppi þegar matið var gert. "Þessi ákvörðun byggir á geðþóttamati embættismanna á störfum mínum í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins. Þetta mat er rangt og hefur mál verið höfðað til ógildingar ákvörðunarinnar fyrir dómstólum," segir í athugasemdum sem Ingólfur sendi fréttastofu vegna málsins. "Framganga FME í þessu efni er nokkuð sérstök í ljósi umfjöllunar stjórnar FME um svar Gunnars Andresen, fyrir hönd Landsbankans, um erlenda starfsemi bankans þann 26. júní 2001, þar sem m.a. aflandsfélaga á Guernsay er hvergi getið þó hann væri stjórnarformaður a.m.k. eins slíks fyrirtækis," segir í athugasemdum Ingólfs, en Gunnar Andersen er forstjóri FME. Þá hafnar Ingólfur því algjörlega að Landsbanki Íslands sem var rekstraraðili Íslenska lífeyrissjóðsins hafi skilað inn röngum skýrslum til FME varðandi fjárfestingar í einstökum verðbréfum, og segir hann að stjórn lífeyrissjóðsins, þar sem hann var sjálfur stjórnarformaður, hafi sinnt hlutverki sínu vel. FME gerði einnig athugasemdir við breytingu stjórnar lífeyrissjóðsins á fjárfestingarstefnu einnar ávöxtunarleiðar sjóðsins og segir í mati FME að fé hafi verið flutt yfir í áhættumeiri fjárfestingakosti. Ingólfur segir einfaldlega rangt að sú leið sem farin var hafi verið áhættumeiri. Ingólfur segir ennfremur að sjóðfélagar hafi verið upplýstir um breytinguna, þvert á það sem FME heldur fram, og að rangt sé að breytingin hafi verið háð samþykki fjármálaráðherra eða sjóðfélagar. "Fullyrðing þessi er sett fram í vondri trú, því að fyrir liggur bréf Fjármálaráðuneytisins þann 31. janúar 2011 til FME þar sem þetta kemur skýrt fram," segir Ingólfur.

Hirða hærri vexti af bílalánum

Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki, Byr og Drómi reikna öll húsnæðislán með sama hætti. Drómi og Avant reikna bílalán sömuleiðis með sömu aðferð. SP-fjármögnun, Lýsing og Íslandsbanki reikna bílalán hins vegar með örðum hætti sem gefa nokkuð hærri eftirstöðvar. Þetta kemur fram í greinargerð sem Raunvísindastofnun gerði fyrir Umboðsmann Skuldara.

ÍLS getur ekki boðið sömu kjör og Landsbankinn

Íbúðalánasjóður stendur ekki vel og vart á hann leggjandi að krefjast þess að hann bjóði sömu úrræði og Landsbankinn býður viðskiptavinum sínum. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag.

Viðskiptabankarnir afskrifuðu 480 milljarða á tveimur árum

Viðskiptabankarnir afskrifuðu 480 milljarða íslenskra króna af lánum fyrirtækja sem voru í viðskiptum við þá á á árunum 2009-2010. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar á Alþingi sem vildi vita hve mikið fé er talið hafa tapast vegna gjaldþrota eða afskrifta hjá fyrirtækjumí helstu atvinnugreinum á árunum 2006-2010. Hann vildi jafnframt vita hverjar væru forsendur útreikninganna.

Nóg lánsfé til í Landsbankanum

Bankastjóri Landsbankans segir að bankinn eigi nóg lausafé til útlána, en eftirspurn eftir lánum sé hins vegar lítil. Hann leggur áherslu á að eyða óvissu til að breyta ástandinu.

Hagnaður Arion banka nam 3 milljörðum

Hagnaður af rekstri Arion banka á fyrsta ársfjórðungi nam þremur milljörðum króna eftir skatta samanborið við 3,4 milljarða á fyrsta fjórðungi í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 11,3% á ársgrundvelli. Eiginfjárhlutfall bankans styrktist og var 19,7% í lok tímabilsins. Árshlutareikningurinn er óendurskoðaður.

Íslandsbanki skilaði 3,6 milljarða hagnaði

Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi ársins nam um 3,6 milljörðum króna og nema áætluð opinber gjöld tímabilsins tæpum 1,1 milljarði króna, samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Eiginfjárhlutfall bankans var 27,4%. Fjármálaeftirlitið setur skilyrði um 16% hlutfall. Arðsemi eiginfjár var 11,7%.

Ingólfur gaf FME rangar upplýsingar um sjálfan sig

Fjármálaeftirlitið lítur svo á að Ingólfur Guðmundsson hafi ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni sem stjórnarformaður Íslenska lífeyrissjóðsins þegar hann lét hjá að líða að fylgjast með ráðstöfun eigna sjóðsins á árinu 2008 og bregðast við með viðeigandi hætti þegar fjárfestingar sjóðsins voru langt umfram lagaheimildir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í gagnsæistilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu þar sem birtur er rökstuðningur fyrir því að Ingólfur var ekki metinn hæfur til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Fjármálaeftirlitið ákvað á sínum tíma að birta ekki gagnsæistilkynningu um ákvörðunina en vegna ítrekaðrar fjölmiðlaumfjöllunar um mál hans, og þeirrar staðreyndar að hann hefur höfðað dómsmál til ógildingar ákvörðuninni, birtir Fjármálaeftirlitið á miðvikudag. Lögmaður Ingólfs í málaferlunum er Jónas Fr. Jónasson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt gagnsæistilkynningunni gaf Ingólfur Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar í gögnum sem hann sendi eftirlitinu og áttu að liggja til grundvallar mati á hæfi hans til að gegna stöðu framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins, og er það ámælisvert að mati Fjármálaeftirlitsins. Í tilkynningunni kemur einnig fram að stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins, þar með talinn Ingólfur sem þá var stjórnarformaður, hafi látið undir höfuð leggjast að afla samþykkis sjóðsfélaga við breytta fjárfestingarstefnu séreignarsparnaðarleiðarinnar Líf IV. Breytt fjárfestingarstefna var samþykkt á stjórnarfundi í apríl 2007 en breytingarnar ekki tilkynntar fjármálaráðherra eins og gert er ráð fyrir, en um verulegar breytingar var að ræða þar sem fjármunir voru færðir af innlánsreikningum yfir í umtalsvert áhættumeiri fjárfestingaleið. Ingólfur var ráðinn framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga í febrúar 2010 með fyrirvara um að hann uppfyllti skilyrði um hæfi. Hæfismat Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að Ingólfur hefði gerst sekur um ámælisverð brot og því ekki forsvaranlegt að hann héldi stöðunni. Hann lét því af störfum í september á síðasta ári. Við mat á hæfi Ingólfs skoðaði Fjármálaeftirlitið feril Ingólfs, en hann sat í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá árinu 1995 til 2009, eða í 14 ár. Þá var hann stjórnarformaður síðustu 9 árin. Frá 1998 starfaði hann samhliða hjá Landsbanka Íslands sem framkvæmdastjóri einkabankasviðs, á árinu 2004 og fram að falli bankans 2008. Landsbanki Íslands er rekstraraðili Íslenska lífeyrissjóðsins.

Vilja bíla fólks sem fer í greiðsluaðlögun

Lánafyrirtækið SP fjármögnun hótar að rifta samningum um kaupleigu á bílum einstaklinga sem óskað hafa eftir greiðsluaðlögun eftir að nöfn þeirra birtast í Lögbirtingarblaðinu. Kaupleigusamningar teljast lán og því má fólk ekki greiða af bílunum.

Bærinn leggur fé í sparisjóð

Akureyrarbær hyggst leggja fé í Sparisjóð Höfðhverfinga. Njáll Trausti Friðbertsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir að í ljósi núverandi aðstæðna geti stofnun sparisjóðs með aðkomu bæjarins til skamms tíma styrkt samfélagið. Bæjarbúum verði sem fyrst boðið að fjárfesta í stofnfé nýja sjóðsins.

Telur hagvöxt verða 2,2% í ár

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) spáir 2,2 prósenta hagvexti á Íslandi í ár í skýrslu sem stofnunin birti á miðvikudag. OECD byggir spá sína meðal annars á auknum fjárfestingum og einkaneyslu. Þá er spáð 2,7% verðbólgu á árinu og að atvinnuleysi minnki niður í 7%.

Ekki þrýst á aðgerðir

Landsbankinn kynnti í dag nýjar leiðir til að lækka skuldir heimila, en meðal þeirra er 20 prósent endurgreiðsla á vöxtum síðustu tveggja ára. Bankastjórinn segir engan þrýsting um aðgerðirnar hafa komið frá stjórnvöldum.

Þorkell nýr stjórnarformaður Framtakssjóðsins

Þorkell Sigurlaugsson verður stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands. Aðalfundur sjóðsins fór fram í dag en Ágúst Einarsson, sem gegnt hefur formennsku frá því að sjóðurinn var stofnaður í fyrra, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarformennsku.

Allianz hyggst áfrýja úrskurði

Allianz hyggst áfrýja úrskurði Neytendastofu vegna samanburðar á vörum Allianz við vörur Sparnaðar. Neytendastofa taldi fyrirtækið hafa brotið gegn ákvæöum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að nota villandi samanburð á lífeyristryggingum Allianz og Sparnaðar.

Tæplega 13 milljarða hagnaður á fyrsta fjórðungi

Alls var 12,7 milljarða króna hagnaður af rekstri Landsbankans eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011. Arðsemi eigin fjár var 26,7%. Hagnaður á sama tíma á síðasta ári var 8,3 milljarðar króna og var arðsemi eigin fjár þá 21,2%. Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 20,4% en var 19,5% í lok árs 2010.

Endurgreiða 20% af vöxtum af lánum einstaklinga

Landsbankinn mun endurgreiða 20% af vöxtum af lánum einstaklinga og heimila sem greiddir hafa verið frá 31. desember 2008 til 30. apríl síðastliðins. Þetta nýtist öllum einstaklingum sem voru í skilum við bankann þann 30. apríl. Endurgreiðslan kemur til lækkunar eftirstöðva skulda en ef viðskiptavinur er skuldlaus verður endurgreiðslan lögð inn á innlánsreikning viðkomandi. Í tilkynningu frá Landsbakanum segir að

Heinz leggur niður 1000 störf

Stjórnendur Heinz verksmiðjanna munu leggja niður 1000 störf og loka fimm verksmiðjum víðsvegar um heiminn. Fimm verskmiðjum, víðsvegar um heiminn, verður lokað. Tvær þeirra eru í Bandaríkjunum, tvær í Evrópu og ein á Kyrrahafssvæðinu. Þetta þýðir að um 800-1000 störf verða lögð niður, en 76 verksmiðjur munu standa eftir að breytingarnar ganga í gegn. Heinz er þekkt vörumerki, meðal annars vegna tómatsósu og bakaðra bauna.

Hætt við kaup á þremur Dreamliner þotum

Ekkert verður af því að Icelandair fái þrjár af fjórum nýjum Boeing Dreamliner B-787 þotum, sem félagið pantaði fyrir nokkrum árum. Pöntun á einni vél stendur eftir, en Dreamliner vélarnar marka upphaf nýrrar kynslóðar farþegavéla, hvað varðar rými, þægindi og eldsneytissparnað.

OECD spáir 2,2% hagvexti

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, spáir 2,2% hagvexti á Íslandi á þessu ári vegna aukinna fjárfestinga og einkaneyslu. Þá er spá 2,7% verðbólgu á árinu og að atvinnuleysi minnki niður í 7%. Þetta kemur fram í skýslu OECD, Economic Outlook, sem birtist í gær.

Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgar - nýskráningum einnig

Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgaði um 26% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Alls voru 83 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta, en 66 í apríl fyrir ári síðan. Flest gjaldþrot voru hjá fyrirtækjum í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Fyrstu fjóra mánuði þessa árs hefur gjaldþrotum fjölgað um 44%. Þau eru 519 það sem af er ári, en voru 360 á sama tíma í fyrra.

Allianz notaði villandi samanburð á lífeyristryggingum

Neytendastofa hefur úrskurðað að Allianz hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að nota villandi samanburð á lífeyristryggingum Allianz söluumboðs og Sparnaðar / Bayern-Versicherung. Sparnaður kvartaði til Neytendastofu yfir samanburði og útreikningi Allianz á kostnaði og ávinningi af viðbótarlífeyrissparnaði Allianz og Sparnaðar. Athugasemdir Sparnaðar snéru bæði að framsetningu samanburðarins sem og útreikningum Allianz.. Neytendastofa féllst á flestar athugasemdir Sparnaðar og telur samanburðinn villandi fyrir neytendur og að Allianz söluumboð hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu í nokkrum liðum.

Gæti komið niður á fjárfestingum sjóða

Áætlað er að nýr eignaskattur á lífeyrissjóði sem ríkisstjórnin boðar í svokölluðum skattabandormi í tengslum við nýgerða kjarasamninga skili tæpum tveimur milljörðum króna. Skatturinn nemur 0,0972 prósentum.

Verðbólgan eykur á vanda Seðlabankans

Ársverðbólga nemur nú 3,4 prósentum. Búist er við að verðbólga aukist enn næstu mánuði. Greiningardeild Arion banka segir Seðlabankann í vanda.

FME vildi að forstjóri VÍS hætti

Fjármálaeftirlitið taldi rétt að Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri Vátryggingafélags Íslands, viki úr starfi vegna óeðlilegrar lánastarfsemi sem átti sér stað í félaginu á árunum 2008-2010. Þetta er fullyrt í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

Gefur kost á sér sem forstjóri AGS

Christine Lagarde hefur tilkynnt að hún vilji verða næsti framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lagarde er fjármálaráðherra Frakklands. Áður höfðu borist fréttir af því að hún hefði áhuga á embættinu.

Kröfuhafa yfirtaka formlega rekstur N1

Formlega hefur verið gengið frá yfirtöku kröfuhafa á rekstri N1 hf. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar hafa kröfuhafar samþykkt að breyta skuldabréfum í nýtt hlutafé í N1.

Greining telur Seðlabankann í verulegum vanda

Gangi spár greiningar Arion banka eftir er útlit fyrir að ársverðbólgan færist nú fjær verðbólgumarkmiði en í því felst verulegur vandi fyrir Seðlabankann. Bankinn stendur á ákveðnum krossgötum í augnablikinu.

Scandic hótelin fá umhverfisverðlaun

Scandic-keðjan hlýtur verðlaunin fyrir að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu á Norðurlöndum og um allan heim. Meðvituð umhverfisstefna og litlar einfaldar aðgerðir hafa haft í för með sér mikinn ávinning. Norrænu umhverfisverðlaunin verða afhent ásamt þremur öðrum norrænum verðlaunum, fyrir bókmenntir, kvikmyndir og tónlist, á Norðurlandaráðsþingi í byrjun nóvember. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2011 eru veitt fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. Verðlaunin, sem nema 350.000 dönskum krónum, eru veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum ferðaþjónustu á Norðurlöndum. Verðlaunahafinn er Scandic hótelakeðjan, sem í nær tvo áratugi hefur verið í farabroddi á sviði sjálfbærrar ferðaþjónustu. - Scandic hefur síðan 1994 gengið á undan með góðu fordæmi og dregið úr mengandi áhrifum starfseminnar og hafa margir fylgt þeirra fordæmi, bæði í hótelageiranum og samfélaginu í heild sinni. Scandic hefur sýnt þor með því að gera kröfur til birgja og bjóða gestum að taka þátt í að reyna að uppfylla vistvæn markmið, t.d. með því að minnka þvott og flokka úrgang, skrifar dómnefndin í rökstuðningi sínum. Það var starfsmaður Scandic sem fékk þá hugmynd að leggja til að hótelagestir spöruðu þvott á handklæðum og Scandic var einnig meðal þeirra fyrstu sem notuðu fljótandi sápu. Smáatriði sem hafa haft mikil áhrif og eru notuð á hótelum um allan heim. Á árinu 1993 ákváðu forráðamenn Scandic að bæta umhverfisvitund starfsfólks og hafa rúmlega 11.000 starfsmenn fengið fræðslu um umhverfismál. Þá hafa 19.000 hótelaherbergi verið byggð úr sjálfbærum byggingarefnum. Alls hafa 114 af 147 hótelum í keðjunni fengið Svansmerkið, umhverfisviðurkenningu Norrænu ráðherranefndarinnar, sem gerir hvað ströngustu kröfur til umhverfisverndar. Vatnsnotkun Scandic hefur frá 1994 minnkað um 17%, orkunotkun um 22% og koltvísýringslosun um 38%. Kaffið sem veitt er á Scandic er lífrænt og vatnið er ekki úr plastflöskum. Samkvæmt umhverfisbókhaldi Scandic hefur koltvísýringslosun vegna vatnsflutninga minnkað um 160 tonn á ári. Náttúru- og umhverfisveðlaun Norðurlandaráðs byggja á norrænum gildum um sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni. Þau eru veitt stofnun, fyrirtæki eða einstaklingi, sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir náttúru og umhverfi í starfi sínu, eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt að sértækum aðgerðum náttúru og umhverfi til góða. Náttúru- og umhverfisverðlaunin nema, eins og verðlaunin fyrir bókmenntir, tónlist og kvikmyndir, 350.000 dönskum krónum (u.þ.b. 50.000 evrum) og verða afhent við hátíðlega athöfn ásamt hinum verðlaununum á árlegu þingi Norðurlandaráðs þann 2. nóvember 2011.

Nýr framkvæmdastjóri fjármála hjá OR

Ingvar Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Ingvar, sem hefur viðskiptafræðipróf á endurskoðunarsviði auk meistaragráðu í fjármálum og stjórnun, var valinn úr hópi 25 umsækjenda um starfið. Hann stýrir nú Íslandsbanka Fjármögnun og hefur störf hjá OR á næstu vikum. Ingvar hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu. Hann var starfsmannastjóri hjá Esso í átta ár, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Olíufélagsins í fjögur ár, framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Lyfja og heilsu í tvö ár, kennari við Háskólann á Bifröst í fjármálum, samningatækni, stjórnun og stefnumótun samhliða annarri vinnu og loks framkvæmdastjóri og forstöðumaður Íslandsbanka Fjármögnunar sem er um 40 manna eining innan bankans. Ingvar er 45 ára gamall, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur matvælafræðingi og eiga þau tvo syni. Hann tekur við starfinu af Inga Jóhannesi Erlingssyni, sem tók tímabundið við starfinu í janúar síðastliðnum. Ingi Jóhannes mun áfram gegna starfi forstöðumanns fjár- og áhættustýringar hjá OR. Capacent ráðningar höfðu umsjón með ráðningarferlinu.

Verðbólgan 3,4 prósent

Verðlag í landinu hækkaði um 0,94 prósent í maí frá fyrra mánuði, en mikil verðbólga hefur mælst síðustu fjóra mánuði. Ársverðbólgan er nú 3,4 prósent og er tæpu prósentustigi yfir markmiði seðlabankans.

Sendur norðurleiðina með hraði

Gos hófst í Vatnajökli rétt í þann mund sem tilbúið var nýtt sérbrugg af samnefndum bjór í Ölvisholti í Flóahreppi. „Ég gekk yfir í brugghúsið á laugardagskvöldið að sækja Vatnajökul í könnu og frétti þegar ég kom út að gos væri hafið,“ segir Jón Elías Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Ölvisholts.

Kortleggja fyrirtæki í sjávarútveginum

Velta tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi nam 26 milljörðum króna í fyrra. Þetta eru tæp tíu prósent af heildarumfangi sjávarútvegsfyrirtækja á sama tíma.

Ákvörðun Hæstaréttar fordæmislaus

Það heyrir til algerra undantekninga að mál séu flutt frammi fyrir sjö manna dómi Hæstaréttar. Það mun þó gerast þann 6. júní næstkomandi þegar mál Landsbankans gegn þrotabúi Motormax verður flutt fyrir dómnum. Í málinu er deilt um það hvort lán Landsbankans, sem var veitt árið 2007, hafi verið löglegt.

Ágúst Einars hættur í stjórn Framtakssjóðsins

Dr. Ágúst Einarsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarformennsku í Framtakssjóði Íslands næsta starfsár en aðalfundur sjóðsins verður haldinn á fimmtudag þar sem ný stjórn verður kjörin. Ágúst hefur verið formaður sjóðsins frá upphafi en sjóðurinn er í eigu lífeyrissjóða auk Landsbanka Íslands og VÍS. Á árinu 2010, sem var fyrsta heila starfsár sjóðsins skilaði Framtakssjóður Íslands 700 milljóna króna hagnaði og voru heildareignir í árslok 5,6 milljarðar króna. Ágúst Einarsson segir: „Það hefur verið ákaflega gefandi að vinna að uppbyggingu Framtakssjóðs Íslands með starfsfólki og samstarfsfólki í stjórn. Nú eru ákveðin kaflaskil í starfsemi sjóðsins; uppbygging eignasafns er vel á veg komin og sjóðurinn búinn að festa sig í sessi sem virkur fjárfestir í íslensku atvinnulífi. Afkoma sjóðsins á fyrsta starfsári ári var góð; ávöxtun eigin fjár var 49% og ráðinn hefur verið góður og samhentur hópur starfsmanna til sjóðsins. Það er því með nokkru stolti sem ég kveð Framtakssjóð Íslands að loknum þessum uppbyggingarfasa."

Skuldum breytt í hlutafé og jörð veðsett fyrir milljarð

Hluta af skuldum vatnsfyrirtækis Jóns Ólafssonar hefur verið breytt í hlutafé. Þá hafa erlendir auðkýfingar sem eru vinir hans keypt hlut í fyrirtækinu. Jón keypti jörð undir vatnsverksmiðju sína með hundrað milljóna króna kúluláni frá sveitarfélaginu Ölfusi.

Verðbólguálagið hefur tvöfaldast frá áramótum

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er nú nærri tvöfalt hærra en það var í upphafi árs. Álagið er nú 4,3% til 5 ára, en um áramótin var það 2,1%. Það má því segja að skuldabréfamarkaður endurspegli litla trú markaðsaðila á því að fyrirheit stjórnvalda í kjarasamningum um verulega styrkingu krónu og verðbólgu við markmið Seðlabankans næstu misserin gangi eftir.

Goldman Sachs spáir 130 dollara olíuverði í árslok

Greining Goldman Sachs spáir því að heimsmarkaðsverð á Brent olíunni fari í 130 dollara á tunnuna í lok þessa árs. Þetta er endurmat á fyrri spá sem gerði ráð fyrir að verðið yrði 120 dollarar. Í morgun hefur olíuverð hækkað aðeins og stendur Brentolían í 111 dollurum á tunnuna.

Kínverjar styðja Lagarde sem forstjóra AGS

Kínverjar styðja Christine Lagarde fjármálaráðherra Frakklands í embætti forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Þetta segir Francois Baroin talsmaður frönsku stjórnarinnar í samtali við Bloomberg fréttaveituna.

McDonald neitar að reka trúð sinn

„Ronald McDonald fer hvergi,“ þannig hljóða skilaboðin frá stjórn McDonald hamborgarakeðjunnar eftir að um 550 heilbrigðissamtök, stofnanir og sérfræðingar fóru að beita keðjuna þrýstingi um að losa sig við trúð sinn Ronald. Ástæðan fyrir þessum þrýstingi er að trúðurinn er talin slæm fyrirmynd fyrir börn.

Ísland með þyngstu greiðslubyrðina hjá AGS

Ísland er með þyngstu greiðslubyrðina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum af þeim löndum sem sjóðurinn hefur lánað til á undanförnum árum. Hér er átt við greiðslubyrði samkvæmt höfðatölu en endurgreiðslur á lánum AGS munu nema rúmlega 2.800 dollurum á hvern Íslending eða tæplega 330.000 kr.

JP Morgan fjárfestir í íslenska vatninu

„Það er langt frá því að fyrirtækið standi illa,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings. Fyrirtækið framleiðir átappað flöskuvatn undir merkjum Icelandic Glacial við Þorlákshöfn. Fyrirtækið hefur lokið við að auka hlutafé fyrirtækisins um fjörutíu milljónir dala, jafnvirði 4,7 milljarða íslenskra króna.

4G byltir þráðlausum samskiptum

"4G-kerfi hafa verið byggð upp í Bandaríkjunum, Noregi, Svíþjóð og víðar. Þetta er allt að gerast núna,“ segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri farsímafyrirtækisins Nova. Fyrirtækið sótti í gær um heimild hjá Póst- og fjarskiptastofnun um leyfi til að prófa innleiðingu næstu kynslóðar í gagnaflutningstækni hér í samstarfi við kínverska tæknifyrirtækið Huawei.

Sjá næstu 50 fréttir