Viðskipti innlent

Skuldum breytt í hlutafé og jörð veðsett fyrir milljarð

Jón Ólafsson. Jörð undir vatnsverksmiðju á vegum fyrirtækis hans í Ölfusi er veðsett fyrir 1,1 milljarð króna.
Jón Ólafsson. Jörð undir vatnsverksmiðju á vegum fyrirtækis hans í Ölfusi er veðsett fyrir 1,1 milljarð króna.
Hluta af skuldum vatnsfyrirtækis Jóns Ólafssonar hefur verið breytt í hlutafé. Þá hafa erlendir auðkýfingar sem eru vinir hans keypt hlut í fyrirtækinu. Jón keypti jörð undir vatnsverksmiðju sína með hundrað milljóna króna kúluláni frá sveitarfélaginu Ölfusi.

Icelandic Water Holdings framleiðir átappað flöskuvatn undir merkjum Icelandic Glacial á jörðinni Hlíðarenda í Ölfusi, við Þorlákshöfn, en Jón Ólafsson á meirihluta í fyrirtækinu ásamt syni sínum. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að fyrirtækið hafi lokið við hlutafjáraukningu upp á fjörutíu milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 4,7 milljarða íslenskra króna.

Blaðið greinir frá því að tæp 70 prósent af hlutafénu, 28 milljónir dala, um 3,3 milljarðar króna, hafi falist í breytingu á skuldum í hlutafé. Afgangurinn hafi verið nýtt hlutafé.

Við hlutafjáraukninguna hækkaði eignarhluti bandaríska drykkjavörufyrirtækisins Anheurser-Busch InBev í fyrirtækinu úr nítján prósentum í 23,3 prósent. Þá bættust nýir hluthafar við, bandaríski fjárfestingarbankinn JP Morgan auk tveggja kunningja Jóns, en um er að ræða suður-afríska fjárfestirinn Dennis Raeburn og Grikkjann Eiles Mavroleon. Eignarhlutur Jón Ólafssonar og Kristjáns sonar lækkaði við þessar breytingar úr 73 prósentum í 55 prósent, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Fékk kúlulán frá sveitarfélaginu Ölfusi fyrir jörðinni

Iceland Water Holdings hefur ekki skilað ársreikningi vegna síðasta rekstrarárs. Félagið tapaði 12,5 milljónum dala árið 2009, þar af voru 10,3 milljónir dala, jafnvirði 1,2 milljarða, beint rekstrartap. Skuldir félagsins námu þá tæpum 67 milljónum dala, tæpum 7,9 milljörðum króna.

Jón fullyrðir að staða félagsins sé nú betri sem þakka megi aukningu í sölu. Stærstur hluti sölutekna koma frá Bandaríkjunum en Jón segir að fyrirtækið hafi nú hafið sölu á vatninu í bæði Rússlandi og Kína.

Frá því var greint fyrir helgi að Landsbankinn hefði stefnt Jóni vegna 420 milljóna króna ábyrgðar sem hann gekkst í vegna lánveitinga Sparisjóðsins í Keflavík (SpKef) til félagsins Jervistone Limited á Jómfrúreyjum. En Landsbankann tók við skuldunum þegar bankinn tók yfir starfsemi SpKef. Jón hefur fullyrt að skuldamál sín gagnvart Landsbankanum hafi ekki áhrif á aðra starfsemi hans eða fyrirtækja í hans eigu.

Þá greindi DV frá því í helgarblaði sínu að Jón hefði byggt upp vatnsverksmiðjuna á Hlíðarenda eftir að sveitarfélagið Ölfus hefði selt honum jörð undir verksmiðjuna gegn 100 milljóna króna kúuláni. Þ.e Jón hefði keypt jörðina af sveitarfélaginu án þess að greiða fyrir hana með peningum, heldur fengið lán fyrir henni frá sveitarfélaginu sjálfu. Í DV kom jafnframt fram að jörðin í Ölfusi væri veðsett fyrir nærri ellefu hundruð milljónir króna, en veðhafarnir eru nokkur fjármálafyrirtæki og íslenskir lífeyrissjóðir. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×