Fleiri fréttir

Ólæti á pöllunum í Róm

Óeirðir brutust út á áhorfendapöllunum á Ólympíuleikvanginum í Róm eftir að Paul Scholes var rekinn af velli í leik Roma og Manchester United. Stuðningsmenn liðanna skutu flugeldum á milli sín og að lokum réðust Rómverjarnir að ensku stuðningsmönnunum. Lögregla blandaði sér í átökin og mátti sjá nokkur blóðug andlit eftir að gæslumenn náðu að róa stuðningsmennina niður.

Wenger styður tillögur Benitez

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist styðja hugmyndir kollega síns Rafa Benitez hjá Liverpool um að leyfa varaliðum stóru félaganna að spila í neðri deildunum á Englandi. Jose Mourinho hefur einnig vakið máls á þessu, en varalið stóru félaganna í Evrópu spila mörg hver í neðri deildunum á meginlandinu.

Van Buyten: Milan er betra á útivöllum

Belgíski landsliðsmaðurinn Daniel van Buyten var hetja Bayern Munchen í gær þegar liðið náði fræknu 2-2 jafntefli við AC Milan á útivelli í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Van Buyten skoraði bæði mörk þýska liðsins og kom því í vænlega stöðu fyrir síðari leikinn á heimavelli.

Kromkamp: Þetta er búið

Jan Kromkamp, leikmaður PSV Eindhoven, viðurkennir að einvígið við Liverpool í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar sé þegar búið þó liðin eigi eftir að mætast öðru sinni á Anfield í Liverpool. Enska liðið vann öruggan sigur í fyrri leiknum í Hollandi í gærkvöld, 3-0.

Giggs: Vonbrigði ef við vinnum ekki Meistaradeildina

Vængmaðurinn Ryan Giggs hjá Manchester United segir að allt annað en að vinna Meistaradeildina í ár yrðu vonbrigði fyrir félagið. Giggs er einn sigursælasti knattspyrnumaður í sögu Manchester United og vill ólmur bæta enn einum titlinum í safnið í vor.

Forlan hafnaði tilboði frá Sunderland

Framherjinn Diego Forlan hjá Villarreal segist hafa hafnað tilboði frá fyrrum félaga sínum Roy Keane um að ganga í raðir Sunderland í sumar. Forlan er samningsbundinn spænska liðinu til ársins 2010 og var markakóngur á Spáni leiktíðina 2004-05.

Duff er ekki á förum frá Newcastle

Glenn Roeder knattspyrnustjóri segir ekkert til í þeim orðrómi að írski landsliðsmaðurinn Damien Duff sé á förum frá Newcastle í sumar. Bresku blöðin héldu því fram að hann færi jafnvel til Sunderland ef liðið næði að vinna sér sæti í úrvalsdeild.

Öryggisreglur hertar til muna á Ítalíu

Ítalska þingið skjalfesti í gær nýjar öryggisreglur sem taka munu gildi í knattspyrnunni þar í landi. Málið hlaut skjóta meðferð á þinginu eftir að lögreglumaður lét lífið í átökum við knattspyrnubullur í febrúar. Öryggisreglur verða hertar til muna á leikjum á Ítalíu og þá verður öllum undir 14 ára aldri veittur ókeypis aðgangur í von um að gera fótboltann fjölskylduvænni en verið hefur.

Eto´o hættur að fara með börn sín á völlinn

Kamerúninn Samuel Eto´o hjá Barcelona segist ekki lengur treysta sér til að koma með börnin sín á leiki í spænsku deildinni vegna kynþáttafordóma. Hann kallar á forráðamenn deildarinnar og félaga á Spáni að bregðast við ástandinu.

Fyrsti leikur gegn Englendingum

Í dag var dregið í riðla í úrslitakeppni EM hjá U-17 ára landsliða. Íslenska liðið er í riðli með Englendingum, Belgum og Hollendingum. Leikið verður í Belgíu dagana 2.-13. maí. Átta lið taka þátt í keppninni og fimm efstu liðin tryggja sér þáttökurétt á HM í Suður-Kóreu. Fyrsti leikur íslenska liðsins verður gegn Englendingum og verður sjónvarpsstöðin Eurosport með eitthvað af leikjum mótsins í beinni útsendingu.

Maradona reyndi ekki að fremja sjálfsmorð

Læknir argentínska knattspyrnugoðsins Diego Maradona hefur þrætt fyrir fréttaflutning sem sagði að ástæða sjúkrahúsvistar hans væri misheppnað sjálfsmorð. Læknirinn segir ástæðu heilsubrestsins vera ofát, ofdrykkju og reykingar. Maradona er sagður á batavegi.

Edu: Við erum ekki hræddir við Chelsea

Brasilíski miðjumaðurinn Edu hjá Valencia, sem áður lék í fjögur ár með Arsenal, segir spænska liðið alls ekki hrætt við Chelsea fyrir leik liðanna á Stamford Bridge í kvöld. Edu er meiddur og getur ekki tekið þátt í leiknum, sem sýndur verður beint á Sýn Extra klukkan 18:30.

Ferguson: Við verðum að skora á útivelli

Sir Alex Ferguson segir að hans menn í Manchester United verði nauðsynlega að ná að skora á útivelli í kvöld þegar þeir mæta Roma í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Róm.

Eggert vill halda Tevez

Eggert Magnússon segist ólmur vilja halda framherjanum Carlos Tevez í herbúðum West Ham ef liðið sleppur við fall úr ensku úrvalsdeildinni í vor. Hann segir Argentínumanninn loksins vera kominn í nógu gott form fyrir úrvalsdeildina, enda hafi það sést á spilamennsku hans í undanförnum leikjum.

Borgarstjórinn í Róm ósáttur við hræðsluáróður Man. Utd

Borgarstjórinn í Róm, Walter Veltroni, er langt frá því að vera sáttur við forráðamenn Manchester United. Ástæðan er að enska félagið varaði stuðningsmenn sína við því að vera á helstu ferðamannastöðunum í Róm þar sem þeir ættu á hættu að vera lamdir af öfgafullum stuðningsmönnum Rómarliðsins.

Rómverjar leiða á ný

Roma er komið yfir á ný gegn Manchester United. Edwin van der Sar gerði vel að verja þrumuskot frá Mancini og sló boltann út í teiginn, en þar var það Mirko Vucinic sem hirti frákastið og þrumaði boltanum í netið. 2-1 fyrir Roma og um 20 mínútur til leiksloka.

Rooney jafnar fyrir United

Wayne Rooney er búinn að jafna metin fyrir Manchester United gegn Roma á útivelli 1-1. Markið kom á 60. mínútu eftir glæsilega skyndisókn gestanna. Þetta var fyrsta mark hans í Meistaradeildinni í 17 leikjum - síðan hann skoraði þrennu í keppninni árið 2004.

Drogba jafnar fyrir Chelsea

Didier Drogba er búinn að jafna leikinn í 1-1 fyrir Chelsea gegn Valencia strax í upphafi síðari hálfleiks. Markið skoraði hann með laglegum skalla yfir markvörð spænska liðsins eftir sendingu frá Ashley Cole. Nú rétt í þessu var Vicente að fara meiddur af velli hjá Valencia. Staðan í Róm er enn 1-0 fyrir heimamenn gegn Manchester United - sem leikur með 10 menn eftir að Paul Scholes var rekinn af velli.

Ensku liðin undir í hálfleik

Chelsea og Manchester United eru undir 1-0 þegar flautað hefur verið til hálfleiks í viðureignunum tveimur sem standa yfir í Meistaradeildinni. Chelsea er 1-0 undir á heimavelli gegn Valencia þar sem Silva skoraði á 30. mínútu og Manchester United er í hvað verri málum í Róm þar sem heimamenn hafi yfir 1-0 með marki Taddei skömmu fyrir hlé. Þá var Paul Scholes vikið af leikvelli eftir að hann fékk sitt annað gula spjald og gestirnir því manni færri.

Solskjær í byrjunarliði United

Leikur Roma og Manchester United verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan 18:30. Ole Gunnar Solskjær er í byrjunarliði enska liðsins og þeir Louis Saha og Darren Fletcher eru óvænt á varamannabekknum.

Hargreaves: Við erum í betri stöðu

Enski landsliðsmaðurinn Owen Hargreaves hjá Bayern Munchen sagði sína menn svekkta með vítaspyrnudóminn sem færði AC Milan annað markið í 2-2 jafntefli liðanna í kvöld. Hann segir þýska liðið þó klárlega í vænlegri stöðu fyrir síðari leikinn í Munchen.

Crouch: Við erum að toppa á réttum tíma

Peter Crouch skoraði þriðja og síðasta mark Liverpool í kvöld þegar liðið burstaði PSV Eindhoven 3-0 í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og komst í mjög vænlega stöðu fyrir síðari leikinn. Crouch sagði sína menn hafa virkað mjög ferska í kvöld og telur liðið vera að toppa á hárréttum tíma, en fyrirliðinn Steven Gerrard vill ekki fara að hugsa um næstu umferðina strax.

Dramatík í Mílanó

AC Milan og Bayern Munchen skildu jöfn 2-2 í fyrri leik sínum í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Það var varnarmaðurinn Daniel van Buyten sem var hetja gestanna þegar hann skoraði jöfnunarmark liðsins nokkrum sekúndum áður en flautað var af. Hann skoraði bæði mörk þýska liðsins í kvöld eftir að Pirlo og Kaka höfðu tvisvar komið Milan í vænlega stöðu.

Auðveldur sigur Liverpool á PSV

Liverpool er komið með annan fótinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir fádæma öruggan 3-0 útisigur á hollenska liðinu PSV Eindhoven í kvöld. Steven Gerrard, John Arne Riise og Peter Crouch skoruðu mörk enska liðsins og var sigurinn aldrei í hættu. Síðari leikur liðanna á Anfield ætti því að vera formsatriði fyrir Liverpool eftir þennan frábæra sigur í kvöld.

Aurelio er með slitna hásin

Fabio Aurelio, leikmaður Liverpool, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir félagið á tímabilinu. Hann varð fyrir því óláni að slíta hásin í leiknum við PSV í Hollandi í kvöld og var honum skipt sárþjáðum af velli. Grunur lék strax á um að hann væri með slitna hásin og sá grunur hefur nú verið staðfestur. Þetta þýðir væntanlega að Brasilíumaðurinn verður frá keppni eitthvað fram á næstu leiktíð.

Mourinho: Við erum hættir að spreða

Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea segir að það sé liðin tíð að liðið spreði milljörðum í leikmenn eins og tíðkaðist fyrr í stjórnartíð hans. Stjórinn segir að einmitt þess vegna muni félagið ekki kaupa spænska framherjann David Villa frá Valencia í sumar eins og breskir fjölmiðlar hafa haldið fram.

Beckham farinn að æfa á ný

David Beckham er nú farinn að æfa með Real Madrid á ný eftir hnémeiðsli sem hann varð fyrir í leik gegn Getafe í byrjun mars. Beckham æfði lyftingar einn síns liðs á meðan hann var meiddur en er nú kominn til liðs við félaga sína á æfingasvæðinu á ný. Ekki er vitað hvort hann verður í leikmannahópi Real þegar liðið tekur á móti Osasuna um helgina.

Ferguson: Við verðum að stöðva Totti

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að hans menn verði að finna leið til að halda aftur af Francesco Totti ef þeir ætli sér að leggja Roma í Meistaradeildinni annað kvöld. Þetta er fyrri leikur liðanna í 8-liða úrslitunum og verður hann að sjálfssögðu sýndur beint á Sýn klukkan 18:30.

Agbonlahor fær nýjan samning

Enski ungmennalandsliðsmaðurinn Gabriel Agbonlahor hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við Aston Villa. Hann er tvítugur og skoraði jöfnunarmark liðsins í 1-1 jafntefli við Everton í gærkvöldi. Agbonlahor er vængmaður og hefur hann komið mjög á óvart með aðalliði Villa í vetur.

Mourinho: Þetta er búið að vera frábært tímabil

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að hann muni alltaf líta til baka á keppnistímabilið sem frábæra leiktíð, jafnvel þó liðið vinni ekki fleiri titla í ár. Hann segist afar stoltur af frammistöðu leikmanna sinna í vetur þar sem meiðsli lykilmanna hafa sett stórt strik í reikninginn hjá tvöföldum Englandsmeisturunum.

Tottenham ekki refsað

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham mun ekki þurfa að blæða fyrir atvikið sem varð á leik liðsins gegn Chelsea í enska bikarnum á dögunum, þegar áhorfandi hljóp inn á völlinn og reyndi að kýla Frank Lampard. Enska knattspyrnusambandið lét rannsaka atvikið og ákvað að refsa félaginu ekki fyrir slaka öryggisgæslu.

Stórveldin slást í beinni á Sýn Extra

Evrópustórveldin AC Milan og Bayern Munchen mætast í kvöld í fyrri leik sínum í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og fer leikurinn fram á San Siro í Mílanó. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Extra og hefst útsending klukkan 18:30. Þetta eru tvö af sigursælustu liðum Evrópuknattspyrnunnar og hafa unnið titilinn tíu sínum samtals.

PSV - Liverpool í beinni á Sýn í kvöld

Fyrri leikur PSV Eindhoven og Liverpool í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar verður sýndur beint á Sýn í kvöld klukkan 18:30. Þetta verður þriðja viðureign liðanna í vetur þar sem þau léku saman í riðlakeppninni. Liverpool ætti að vera klárt í slaginn eftir frábæran sigur á Arsenal um helgina, en hollenska liðinu hefur ekki gengið sérlega vel í deildinni undanfarið.

Flamini vill fara frá Arsenal

Miðjumaðurinn Mathieu Flamini, sem verið hefur í herbúðum Arsenal frá árinu 2004, segist vilja fara frá félaginu. Leikmaðurinn sagði blaðamönnum í heimalandi sínu að hann vildi reyna fyrir sér hjá öðru liði því hann væri þreyttur á að halda ekki föstu sæti í liði Arsenal.

Benitez fær að versla vel í sumar

Breska sjónvarpið greinir frá því í dag að Rafa Benitez, stjóri Liverpool, muni fá allt að 40 milljónir punda til að kaupa leikmenn í sumar. Hann fundaði með eigendum félagsins um síðustu helgi og kom brosandi út af þeim fundi þar sem honum var lofað fjármunum til að styrkja liðið verulega.

Kaka kemur Milan yfir á ný

Brasilíski miðjumaðurinn Kaka er búinn að koma AC Milan yfir á ný gegn Bayern 2-1 í leik liðanna á San Siro. Markið var það sjöunda hjá Kaka í Meistaradeildinni í vetur, en það skoraði hann úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Vítaspyrnudómurinn var afar strangur og hætt við að Þjóðverjarnir eigi eftir að láta í sér heyra eftir leikinn, enda óttuðust þeir mjög reynsluleysi rússneska dómarans fyrir viðureignina í kvöld.

Bayern jafnar í Mílanó

Bayern Munchen er búið að jafna metin í 1-1 gegn AC Milan í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það var Daniel van Buyten sem skoraði þetta gríðarlega þýðingarmikla mark fyrir þýska liðið og ljóst að heimamenn verða að sækja stíft síðustu 10 mínúturnar í leiknum.

Crouch klárar dæmið fyrir Liverpool

Liverpool er komið í 3-0 gegn PSV í Meistaradeildinni. Markið skoraði Peter Crouch með laglegum skalla eftir fyrirgjöf Steve Finnan frá hægri og nú er útlitið orðið mjög dökkt hjá hollenska liðinu, sem á útileikinn eftir á Anfield. Markið kom á 63. mínútu, en staðan í leik AC Milan og Bayern er enn 1-0 fyrir Milan.

Þrumufleygur frá Riise - Liverpool komið í 2-0

Norðmaðurinn John Arne Riise hefur komið Liverpool í 2-0 gegn PSV í Hollandi. Markið kom í upphafi síðari hálfleiks og var þar á ferðinni dæmigert mark fyrir bakvörðinn knáa - bylmingsskot af löngu færi í bláhornið.

Hálfleikur í Meistaradeildinni

Nú er kominn hálfleikur í leikjunum tveimur sem standa yfir í Meistaradeild Evrópu. Liverpool hefur yfir 1-0 á útvelli gegn PSV Eindhoven með marki Steven Gerrard og Andrea Pirlo kom AC Milan í 1-0 gegn Bayern Munchen í Mílanó. Leikirnir eru sýndir beint á rásum Sýnar.

Pirlo kemur Milan yfir

Andrea Pirlo hefur komið AC Milan yfir 1-0 gegn Bayern Munchen í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Pirlo skoraði með góðum skalla á 40. mínútu, en skömmu áður hefði Milan líklega átt að fá vítaspyrnu þegar Kaka var brugðið í teignum.

Gerrard kemur Liverpool yfir

Steven Gerrard er búinn að koma Liverpool í 1-0 gegn PSV í Hollandi. Hann skoraði með skalla eftir laglega fyrirgjöf frá Steve Finnan eftir um 27 mínútur. Staðan í leik AC Milan og Bayern er enn 0-0. Báðir leikir eru í beinni útsendingu á rásum Sýnar, en áskrifendur VefTV geta séð leik Liverpool í beinni útsendingu hér á Vísi.

Þrjár breytingar á liði Liverpool

Rafa Benitez hefur gert þrjár breytingar á byrjunarliði Liverpool sem sækir PSV heim í Meistaradeildinni í kvöld. Alvaro Arbeloa, Jermaine Pennant og Mark Gonzalez detta út úr liðinu og í stað þeirra koma inn bakverðirnir John Arne Rise, Steve Finnan og framherjinn Dirk Kuyt. Byrjunarliðin má sjá hér fyrir neðan.

Jafnt hjá Villa og Everton

Einn leikur var á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Aston Villa og Everton skildu jöfn 1-1 á Villa Park. Joleon Lescott kom gestunum yfir í upphafi leiks en Gabriel Agbonlahor jafnaði fyrir Villa í lokin. Heimamenn hafa ekki unnið leik síðan í byrjun febrúar en eru að mestu sloppnir við falldrauginn. Everton situr í sjöunda sætinu.

Cole stefnir á endurkomu á miðvikudaginn

Miðjumaðurinn Joe Cole hjá Chelsea hefur sett stefnuna á að vera með liði sínu á ný í Meistaradeildarleiknum gegn Valencia á miðvikudagskvöldið. Cole hefur verið frá keppni í fjóra mánuði og vonast til að fá að spila nokkrar mínútur sem varamaður í fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitunum. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Extra.

Sjá næstu 50 fréttir