Fleiri fréttir

Besti hringurinn hjá Birgi til þessa

Birgir Leifur Hafþórsson átti ljómandi góðan hring á Opna austurríska mótinu í Vínarborg í dag en hann hóf keppni í morgun og lék þriðja hringinn á 68 höggum. Birgir er því á fjórum höggum undir pari að loknum þremur keppnisdögum. Hann lék fyrsta hringinn í mótinu á einu höggi undir pari og annan hringinn fór hann á pari.

Hálfleikur í spænska

Nú er kominn hálfleikur í leikjum kvöldsins í spænska boltanum og heldur betur farið að draga til tíðinda. Topplið Real Madrid er að tapa 1-0 á útivelli fyrir Zaragoza og staðan í leik Barcelona og Espanyol er jöfn 1-1. Börsungar lentu undir í leiknum en Leo Messi jafnaði metin með því að blaka boltanum í netið með höndinni. Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Barcelona. Leikirnir eru sýndir beint á rásum Sýnar.

Fín staða hjá íslenska liðinu í hálfleik

Nú er kominn hálfleikur í fyrri leik Íslands og Serbíu í umspili um laust sæti á EM í Noregi á næsta ári. Íslensku strákarnir hafa yfir 14-13 og hafa í fullu tré við heimamenn sem eru ákaft studdir af áköfum áhorfendum. Birkir Ívar Guðmundsson hefur staðið vaktina vel í markinu og er kominn með 12 varin skot. Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson hafa verið atkvæðamestir í markaskorun íslenska liðsins með 4 mörk hvor.

Eiður í byrjunarliði Barcelona

Eiður Smári Guðjohnsen er í byrjunarliði Barcelona sem tekur á móti grönnum sínum í Espanyol í næst síðustu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Leikurinn er sýndur beint á Sýn, en á sama tíma eigast við Zaragoza og Real Madrid í beinni á Sýn Extra. Liðin eru efst og jöfn í deildinni en Real getur í besta falli tryggt sér titilinn í dag ef úrslit verða liðinu í hag.

Ísland leikur til úrslita gegn Kýpur

Íslenska körfuboltalandsliðið leikur til úrslita gegn Kýpur á Smáþjóðaleikunum í Mónakó. Þetta varð ljóst í dag þegar íslenska liðið vann fjórða leik sinn í röð á leikunum með því að leggja San Marino 92-81. San Marino var 12 stigum yfir í hálfleik en íslenska liðið tryggði sér sigurinn með góðri rispu í fjórða leikhluta.

Fimmta umferð Landsbankadeildar hefst í kvöld

Einn leikur er á dagskrá í Landsbankadeild karla í kvöld þegar Víkingur og Breiðablik spila fyrsta leikinn í fimmtu umferðinni á Víkingsvelli klukkan 19:15. Þá verða fjórir leikir í Landsbankadeild kvenna þar sem ÍR mætir Breiðablik, Stjarnan tekur á móti Fjölni, Þór/KA tekur á móti Fylki og Valur fær Keflavík í heimsókn. Allir leikir hefjast klukkan 19:15.

Draumaúrslitaleikur á Roland Garros

Það verður sannkallaður draumaúrslitaleikur í karlaflokki á opna franska meistaramótinu í tennis, en nú undir kvöld tryggði Rafael Nadal sér sæti í úrslitum gegn Roger Federer þegar hann sigraði Novak Djokovic 7-5, 6-4 og 6-2. Nadal getur unnið titilinn þriðja árið í röð með sigri á Federer um helgina.

Robben með nýjan samning á borðinu

Umboðsmaður og faðir hollenska knattspyrnumannsins Arjen Robben hjá Chelsea segir son sinn vera langt kominn með að undirrita nýjan fimm ára samning við Lundúnaliðið. Forráðamenn Real Madrid lýstu því yfir í gær að þeir ættu í viðræðum um kaup á leikmanninum og vöktu þær yfirlýsingar litla hrifningu í herbúðum Chelsea.

Birgir Leifur komst áfram í Austurríki

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG lék annan hringinn á Opna austurríska mótinu í dag á 71 höggi, eða pari vallar. Hann er því samtals á 141 höggi, eða einu höggi undir pari eftir 36 holur. Hann er í 45.-59. sæti sem stendur og öruggur í gegnum niðurskurðinn. Íslenski kylfingurinn fékk 3 fugla á hringnum í dag, 12 pör og 3 skolla.

Viðtöl eftir fyrsta leik San Antonio og Cleveland

Varnarleikurinn var helsta umræðuefni þjálfara og leikmanna San Antonio og Cleveland í nótt eftir fyrsta leik liðanna í lokaúrslitunum í NBA. Í myndbandinu með þessari frétt má sjá viðbrögð þeirra Gregg Popovich, Mike Brown, Tim Duncan og LeBron James eftir leikinn sem San Antonio vann örugglega 86-76.

Boca Juniors mætir Gremio í úrslitum

Það verða Boca Juniors frá Argentínu og Gremio frá Brasilíu sem mætast í úrslitaleik Copa Liberdadores í Suður-Ameríku þetta árið eftir að Boca vann 3-0 sigur á Cucuta í síðari leik liðanna í undanúrslitum keppninnar í gærkvöld. Það var leikstjórnandinn knái Juan Roman Riquelme sem var maðurinn á bak við sigur Boca, sem fór áfram 4-3 samanlagt.

Beckham verður í hópnum hjá Real á morgun

Enski landsliðsmaðurinn David Beckham verður í leikmannahópi Real Madrid á morgun þegar liðið mætir Real Zaragoza í næstsíðustu umferð spænsku deildarinnar. Þar getur Real orðið spænskur meistari fari svo að erkifjendur þeirra í Barcelona tapi fyrir grönnum sínum í Espanyol.

Bolton kaupir Gavin McCann

Enska úrvalsdeildarfélagið Bolton gekk í dag frá kaupum á öðrum leikmanni Aston Villa á skömmum tíma þegar það fékk til sín miðjumanninn Gavin McCann fyrir óuppgefna upphæð. McCann er 29 ára gamall og fer til Bolton ásamt félaga sínum Jlloyd Samuel sem einnig hefur kosið að fara frá Villa.

Federer marði sigur á Davydenko

Roger Federer tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik opna franska meistaramótsins í tennis þegar hann marði sigur á Nikolay Davydenko í undanúrslitum 7-5, 7-6 og 7-6. Federer átti erfitt uppdráttar allan leikinn en náði að merja sigur og á því möguleika á að vinna sigur á mótinu í fyrsta sinn þar sem hann mætir Rafael Nadal eða Serbanum Novak Djokovic um helgina.

Beckham varaður við stífum flugferðum

Sérfræðingur í flugfræðum hefur varað David Beckham við því að fljúga stíft milli Bandaríkjanna og Evrópu ef hann ætli sér að spila með enska landsliðinu áfram í undankeppni EM. Hann segir Beckham eiga á hættu að fá blóðtappa í lappirnar sem gæti orðið til þess að hann gæti ekki gengið á ný.

Henry spenntur yfir áhuga AC Milan

Framherjinn Thierry Henry hjá Arsenal hefur nú varpað meiri óvissu á framtíð sína hjá félaginu eftir að hann viðurkenndi að það hefði verið sér gríðarlegt áfall þegar stjórnarformaðurinn David Dein hætti á dögunum. Hann viðurkennir að meintur áhugi AC Milan á að fá hann í sínar raðir vekji forvitni sína.

Alonso framlengir við Liverpool til 2012

Spænski miðjumaðurinn Xabi Alonso hefur framlengt samning sinn við Liverpool til ársins 2012. Þessi 25 ára gamli leikmaður hafði verið orðaður við nokkur félög i sumar en hefur nú bundist liðinu til fimm ára. "Ég vissi af áhuga nokkurra liða en það var aldrei á dagskránni að fara héðan," sagði Alonso sem gekk í raðir Liverpool frá Sociedad árið 2004.

Svíum dæmdur 3-0 sigur

Knattspyrnusamband Evrópu hefur dæmt Svíum 3-0 sigur á Dönum í skrautlegum leik þjóðanna í undankeppni EM á dögunum. Leikurinn á Parken í Kaupmannahöfn var flautaður af undir lokin í stöðunni 3-3 þar sem ölvuð fótboltabulla hljóp inn á völlinn og réðist að dómaranum. Dómarinn flautaði af og dæmdi sænskum sigur og nú hefur UEFA staðfest þann grimma dóm yfir Dönum.

Cleveland tekið í kennslustund í San Antonio

San Antonio tók í nótt 1-0 forystu í einvíginu um NBA titilinn með öruggum 85-76 sigri á Cleveland á heimavelli sínum. Varnaráætlun heimamanna gekk fullkomlega upp og skoraði LeBron James aðeins 14 stig og misnotaði 12 af 16 skotum sínum. Tony Parker og Tim Duncan voru í miklu stuði hjá San Antonio.

Enn eitt jafnteflið hjá Blikum

Einn leikur var á dagskrá í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld þar sem Víkingur og Breiðablik skildu jöfn 1-1 á Víkingsvelli. Magnús Páll Gunnarsson kom Blikum yfir en Valur Úlfarsson jafnaði fyrir heimamenn, sem voru sterkari aðilinn í leiknum. Víkingar hafa 8 stig í 2.-3. sæti deildarinnar en Blikar hafa 4 stig í 6. sætinu eftir 4 jafntefli í fyrstu 5 leikjunum í sumar.

Úrslitin í NBA hefjast í nótt - James í sviðsljósinu

Fyrsti leikur San Antonio Spurs og Cleveland Cavaliers í lokaúrslitum NBA deildarinnar er á dagskrá í nótt klukkan eitt og verður sýndur beint á Sýn. Einvígið hefur verið teiknað upp sem einvígi reynslu og hungurs. Þrefaldir NBA meistarar San Antonio falla algjörlega í skuggann af ofurstjörnunni LeBron James í umfjöllun fjölmiðla í Bandaríkjunum.

Skráning hafin á FM 07

Skráning fyrir FM07 hefur verið opnuð í Mótafeng. Þar er hægt að skrá í gæðinga- ungmenna- unglinga og barnakeppni, töltkeppni og 100 m skeið. Formenn aðildarfélaganna eru ábyrgir fyrir skráningu sinna félagsmanna.

Gæðingamót Harðar

Gæðingakeppni Harðar byrjaði í dag á Varmárbökkum í Mosfellsbæ. Mótið stendur til 10. júní. Dagana 7.-10. Forkeppni í A flokk var að ljúka og er Súsanna Ólafsdóttir og Garpur frá Torfastöðum II efst með 8,28.

Dómstörf hafin á Sörlastöðum

Seinni kynbótasýning á Sörlastöðum í Hafnafirði byrjaði í morgun. Dómar standa yfir til 13 júní og eru tæplega 400 hross sem koma þar í dóm.

1 af 27 hrossum yfir 8 á Stekkhólma

Ekki var mikið um sprengingar og stórsýningar á kynbótasýningu á Stekkhólma í dag. Af 27 sýndum hrossum var aðeins eitt hross sem komst yfir 8, en það var Hekla frá Eskifirði sem sýnd var af Hans Kjerúlf og fékk hún 8.30 í aðaleinkunn. Meðfylgjandi eru dómar sýningarinnar.

Úrslit í 100m skeiði á Skeiðleikum Skeiðfélagsins

Keppni í 100m skeiði á Skeiðleikum Skeiðfélagsins og Glitnis er lokið. Þetta var jafnframt síðasta keppnisgrein mótsins í kvöld. Sigurður Sigurðarson sigraði á Drífu frá Hafsteinsstöðum á tímanum 7,59.

Íslandsmót yngri flokka í Glaðheimum

Íslandsmót í hestaíþróttum fyrir börn, unglinga og ungmenni fer fram í Glaðheimum í Kópavogi dagana 21. -24. júní nk. Skráning fer fram hjá hestamannafélögunum sem sjá um að skila inn skráningargjöldum og skrá keppendur til leiks í gegnum Mótafeng.

Auðveldur sigur á Mónakó

Íslenska landsliðið í körfuknattleik vann í kvöld þriðja sigur sinn í röð á Smáþjóðaleiknum í Mónakó þegar það skellti liði heimamanna 86-65. Brenton Birmingham skoraði 19 stig á aðeins 22 mínútum fyrir íslenska liðið og Páll Axel Vilbergsson hitti úr 5 af 8 þristum sínum og skoraði 17 stig. Sigur íslenska liðsins var aldrei í hættu eftir að það náði 21-0 rispu í fyrsta leikhlutanum.

Forráðamenn Real hafa áhyggjur af meiðslum Beckham

Forráðamenn Real Madrid hafa nú staðfest að David Beckham verði mjög tæpur fyrir mikilvægan leik liðsins gegn Real Zaragoza í spænsku deildinni um helgina eftir að hann meiddist á ökkla í landsleik Eista og Englendinga í gærkvöld. Beckham á nú góða möguleika á að vinna sinn fyrsta og eina titil með Real síðan hann gekk í raðir félagsins árið 2003.

Aldrei fleiri útlendingar í úrslitum NBA

Úrslitaeinvígið í NBA deildinni hefst með látum klukkan eitt eftir miðnætti í nótt þegar San Antonio tekur á móti Cleveland Cavaliers. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn. Aldrei hafa fleiri útlendingar verið í liðunum tveimur sem spila til úrslita og verður leikjunum lýst beint í 205 löndum á 46 tungumálum.

Birgir Leifur í 44. sæti eftir fyrsta hring

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG lék fyrsta hringinn á Opna BA CA mótinu í Austurríki á 70 höggum eða einu höggi undir pari. Mótið er haldið í Vínarborg og er liður í Evrópumótaröðinni. Birgir er því í 44. sæti á mótinu en það er enski kylfingurinn Graeme Storm sem er í fyrsta sætinu eftir að hann lék fyrsta hringinn á 63 höggum eða 8 undir pari.

Slúðrið á Englandi í dag

Miðjumaðurinn Florent Malouda hjá Lyon er heitasta nafnið í slúðrinu á Englandi í dag. Þessi sterki miðjumaður var kjörinn leikmaður ársins í Frakklandi fyrir skömmu og er nú orðaður við Liverpool, Chelsea og Arsenal. Leikmaðurinn sjálfur lýsti því yfir í dag að hann væri heitur fyrir því að ganga í raðir Liverpool.

Klose ætlar til Bayern

Þýski landsliðsframherjinn Miroslav Klose hjá Werder Bremen staðfesti endanlega í dag að hann ætlaði sér að ganga í raðir Bayern Munchen í sumar. Klose er 28 ára en á enn eitt ár eftir af samningi sínum við Bremen og það kemur til með að flækja málið nokkuð. "Ég hef ákveðið að spila fyrir Bayern á næstu leiktíð, en ég mun engu að síður leggja mig allan fram með Bremen ef ekkert verður af félagaskiptunum," sagði Klose.

Stjóri McLaren vorkennir Raikkönen

Ron Dennis, stjóri McLaren liðsins í Formúlu 1, segist vorkenna fyrrum ökumanni sínum Kimi Raikkönen sem gekk í raðir Ferrari fyrir tímabilið. Finninn byrjaði vel og náði sigri í sinni fyrstu keppni fyrir Ferrari, en síðan hefur heldur hallað undan fæti hjá honum.

Ribery semur við Bayern Munchen

Bayern Munchen festi í dag kaup á franska landsliðsmanninum Franck Ribery frá Marseille í Frakklandi fyrir 26 milljónir evra og hefur hann þegar undirritað fjögurra ára samning við þýska stórveldið. Því er svo haldið fram að fjórar milljónir evra muni bætast við kaupverðið ef Bayern nær að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Ribery sló í gegn með Frökkum á HM í fyrra og hefur verið mjög eftirsóttur - meðal annar af Arsenal. Hann er 24 ára gamall og á að baki 18 landsleiki.

Eto´o neitar að hafa rætt við Benitez

Framherjinn Samuel Eto´o hjá Barcelona neitar að hafa rætt við Rafa Benitez knattspyrnustjóra Liverpool um að ganga í raðir enska félagsins. Eto´o og umboðsmaður hans segja ekkert til í þeim orðrómi sem verið hefur á kreiki um að hann sé á leið til Liverpool eða AC Milan á Ítalíu.

Viduka gerði tveggja ára samning við Newcastle

Mark Viduka er formlega genginn í raðir Newcastle í ensku úrvalsdeildinni og nú síðdegis skrifaði hann undir tveggja ára samning við félagið eftir að hafa staðist læknisskoðun. Hann er 31 árs gamall og hefur verið einn fremsti markaskorari úrvalsdeildarinnar á síðustu árum. Hann mun keppa um sæti í framlínu Newcastle við þá Michael Owen, Shola Ameobi og Obafemi Martins.

Owen ánægður með markametið

Framherjinn Michael Owen hjá Newcastle og enska landsliðinu var að vonum kátur í gærkvöldi þegar hann skoraði þriðja mark Englendinga í 3-0 sigri liðsins á Eistum í undankeppni EM. Þetta var 23. mark hans fyrir landsliðið í alvöru landsleik og fór hann þar með einu marki fram úr markamaskínunni Gary Lineker.

Chelsea ætlar að klaga Real Madrid

Ummæli forseta Real Madrid í dag varðandi áhuga félagsins á Arjen Robben hafa vakið hörð viðbrögð forráðamanna Chelsea. Félagið hefur í hyggju að kæra Real Madrid til FIFA fyrir að hafa ólöglegt samband við samningsbundinn leikmann.

Eggert bjartsýnn á að halda Tevez

Eggert Magnússon, stjórnaformaður West Ham, segir félagið staðráðið í að reyna að halda argentínska framherjanum Carlos Tevez í sínum röðum og minnir á að hann sé samningsbundinn félaginu til þriggja ára.

Henin og Ivanovic í úrslit opna franska

Justine Henin lék frábæran tennis í dag þegar hún tryggði sér sæti í úrslitaleik opna franska meistaramótsins með sigri á Jelenu Jankovic 6-2 og 6-2. Þar mætir hún serbnesku stúlkunni Ana Ivanovic sem tryggði sér sæti í úrslitum á stórmóti í fyrsta sinn með því að leggja Mariu Sharapovu 6-2 og 6-1. Ivanovic er í 6. sæti styrkleikalistans og er aðeins 19 ára gömul, en Henin sigraði á opna franska í fyrra.

Skorað fyrir gott málefni

Í næstu umferð Landsbankadeildar karla og kvenna verður skorað fyrir gott málefni. Landsbankinn heitir 30.000 kr. fyrir hvert mark sem leikmenn Landsbankadeildar karla og kvenna skora í 5. umferð karla og 4. umferð kvenna.

Viduka í læknisskoðun hjá Newcastle

Ástralski framherjinn Mark Viduka er nú í læknisskoðun hjá Newcastle þar sem hann mun að öllum líkindum skrifa undir samning fljótlega. Hann er með lausa samninga hjá Middlesbrough og hefur til þessa neitað að framlengja samning sinn við félagið.

Real Madrid í viðræðum við Arjen Robben

Forseti Real Madrid, Ramon Calderon, hefur staðfest að félagið sé í viðræðum við Chelsea um kaup á hollenska landsliðsmanninum Arjen Robben. Vængmaðurinn knái gekk í raðir Chelsea frá PSV Eindhoven fyrir 12 milljónir punda og sló í gegn, en erfið meiðsli hafa gert honum erfitt fyrir allar götur síðan.

Reina framlengir við Liverpool

Spænski markvörðurinn Jose Manuel Reina hefur skrifað undir nýjan samning við Liverpool sem gildir til ársins 2012. Reina er 24 ára gamall og hefur átt fast sæti í liðinu undanfarna mánuði. Hann gekk til liðs við rauða herinn árið 2005 frá Villarreal á Spáni og hefur leikið sex leiki fyrir spænska landsliðið þar sem hann er varamaður Iker Casillas hjá Real Madrid.

Sjá næstu 50 fréttir