Fleiri fréttir

Erfiðast að venjast veðrinu

Ekki eru allir útlendingar í ensku úrvalsdeildinni lengi að smella inn í knattspyrnuna þar í landi og á meðan hvorki gengur né rekur hjá framherjanum Andriy Shevchenko hjá Chelsea, hefur Ítalinn Vincenzo Montella farið á kostum í fyrstu leikjum sínum með Fulham.

Shay Given verður frá í mánuð

Írski markvörðurinn Shay Given verður frá keppni í að minnsta kosti mánuð eftir að hann tognaði á nára í leiknum við West Ham um helgina sem lauk með jafntefli 2-2. Þetta er í annað sinn sem Given meiðist gegn West Ham á þessari leiktíð. Liðið er þó ekki á flæðiskeri statt, því varamarkvörðurinn Steven Harper hefur þegar náð sér af sínum meiðslum.

Anelka vill fara aftur til Arsenal

Franski framherjinn Nicolas Anelka viðurkenndi í samtali við fjölmiðla í heimalandi sínu um helgina að hann væri vel til í að fara aftur til Arsenal, þar sem hann hóf feril sinn á Englandi á sínum tíma. Þessi ummæli hans fara eflaust öfug ofan í knattspyrnustjóra hans Sam Allardyce hjá Bolton.

Fernandes í læknisskoðun hjá Everton

Enska úrvalsdeildarfélagið Everton er nú í viðræðum við miðjumanninn Manuel Fernandes hjá Benfica og gengur væntanlega frá lánssamningi við hann í dag ef hann stenst læknisskoðun sem stendur yfir nú í hádeginu. Fernandes er tvítugur og ef hann stendur sig vel fram á vor mun hann væntanlega ganga formlega í raðir Everton í sumar. Hann var áður hjá Portsmouth og spilaði þar 12 leiki.

Baros á leið til Lyon

Forráðamenn Lyon í Frakklandi segja að nú sé aðeins klukkutímaspursmál hvenær liðið landi tékkneska framherjanum Milan Baros frá Aston Villa. Félögin hafa verið í viðræðum síðan á föstudag og forseti franska félagsins er mjög bjartsýnn á að ná að klára viðskiptin fljótlega.

10 milljón punda tilboð í Bale væntanlegt

Breska sjónvarpið greindi frá því í morgun að ónefnt félag væri að íhuga að gera 10 milljón punda kauptilboð í velska ungstirnið Gareth Bale hjá Southampton. Félagið hefur tekið það fram að Bale verði ekki seldur fyrr en í fyrsta lagi í sumar og hefur þegar neitað tilboðum á bilinu 6-8 milljónir punda frá félögum eins og Tottenham og Manchester United.

Ekkert aðhafst í máli Ding

Alþjóða snókersambandið ætlar ekki að aðhafast frekar í máli mannsins sem vísað var úr húsi á úrslitaleiknum á Masters-mótinu í gær þegar kínverski spilarinn Ding Junhui gekk úr salnum á tímabili vegna athugasemda áhorfenda sem hann sagði hafa truflað einbeitingu sína. Ronnie "The Rocket" O´Sullivan rúllaði Ding upp 10-3 í úrslitaleiknum og sýndi einhverja bestu spilamennsku sem sést hefur á mótinu.

United mun halda velli

Arsene Wenger segir að titilvonir Manchester United hafi ekki beðið hnekki í gær þrátt fyrir tapið fyrir Arsenal. "United er mjög sigurstranglegt í deildinni og þó tapið fyrir okkur hafi verið þeim mikið áfall, veit ég að liðið mun taka sig saman í andlitinu og halda áfram að vinna. Það er hinsvegar fínt fyrir deildina að allir séu enn inni í myndinni," sagði Wenger.

Sharapova í átta manna úrslit

Maria Sharapova tryggði sér í nótt sæti í átta liða úrslitum opna ástralska meistaramótsins í tennis þegar hún lagði baráttuglaða Veru Svonarevu 7-6 og 6-4. Kim Clijsters er sömuleiðis komin í undanúrslitin eftir sigur á Danielu Hantuchovu og mætir Martinu Hingis í næstu umferð.

Indianapolis Colts og Chicago Bears leika um ofurskálina

Það verða Indianapolis Colts og Chicago Bears sem mætast í úrslitaleik NFL deildarinnar eftir að liðin unnu leiki sína í úrslitum deilda í gær. Bears lögðu Spútnikliði New Orleans Sains 39-14, en Colts vann ótrúlega dramatískan sigur á New England Patriots 38-34 eftir að hafa lent undir 21-3. Payton Manning fór á kostum í liði Colts.

Þrettán í röð hjá Phoenix Suns

Phoenix Suns burstaði Minnesota Timberwolves 131-102 í NBA í nótt og vann þar með sinn 13. leik í röð. Amare Stoudemire skoraði 25 stig fyrir Phoenix, Leandro Barbosa 20 og Shawn Marion skoraði 17 stig og hirti 20 fráköst. Randy Foye skoraði 25 stig fyrir Minnesota.

Þorvaldur vann

Keppt var á afmælismóti Júdósambands Íslands á laugardaginn. Þar fagnaði Þorvaldur Blöndal sigri í opnum flokki karla en hann vann einnig í +90 kg flokki. Gígja Guðbrandsdóttir vann keppni í opnum flokki kvenna.

Verða að vinna Frakka

Eftir tapið gegn Úkraínu í gær er ljóst að Ísland verður að vinna Frakka í kvöld til þess að komast áfram í milliriðil. Ef það tekst ekki fer liðið í Forsetabikarinn og mun mæta þar þjóðum á borð við Kúveit, Grænlandi, Brasilíu og Argentínu.

Fer með til Suður-Afríku

Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Ólafs Inga Skúlasonar, leikmanns Brentford á Englandi, staðfesti við Fréttablaðið í gær að Ólafur Ingi færi með Helsingborg í æfingaferð til Suður-Afríku á föstudaginn.

Ligg bara í leti og horfi á HM

Davíð Georgsson, handboltamaðurinn efnilegi úr ÍR, hefur gengist undir aðgerð vegna meiðsla á hné. Davíð er aðeins nítján ára en hefur leikið lykilhlutverk með ÍR í DHL-deildinni og skorað mikið.

Ævintýralegur fyrri hálfleikur

Ísland hefur yfir 18-8 þegar flautað hefur verið til leikhlés í lokaleik liðsins gegn Frökkum í B-riðli heimsmeistaramótsins í handbolta. Segja má að allt hafi gengið upp hjá íslenska liðinu fyrstu 30 mínúturnar, en liðið komst í 5-0 og náði svo tíu marka forskoti undir lok hálfleiksins.

Ótrúleg byrjun íslenska liðsins

Íslenska landsliðið hefur náð 5-0 forystu gegn Frökkum í leik þjóðanna á HM. Íslensku strákarnir voru um tíma tveimur færri en náðu samt að halda hreinu. Rétt í þessu voru Frakkar að skora sitt fyrsta mark eftir heilar 7 mínútur.

Alfreð gerir breytingar

Tvær breytingar hafa verið gerðar á íslenska hópnum fyrir leikinn gegn Frökkum í dag. Markús Máni Michaelsson kemur inn fyrir Arnór Atlason og þá hefur Hreiðar Guðmundsson tekið stöðu Rolands Eradze í markinu.

Lélegasti leikur Íslands í mörg ár

Fyrrum landsliðsmaðurinn Sigurður Sveinsson segist vera í hálfgerðu losti eftir leik Íslendinga og Úkraínumanna í dag. Hann segir leik íslenska liðsins þann slakasta sem hann hafi séð í mörg ár og setur spurningamerki við hugarfar leikmanna í dag.

Tap hjá Jóni Arnóri og félögum

Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í spænska liðinu Valencia töpuðu naumlega fyrir liði Etosa Alicante 75-74 í ABC deildinni í dag. Jón Arnór skoraði 11 stig á 30 mínútum fyrir Valencia. Liðið er nú í 10. sæti deildarinnar með 9 sigra og 9 töp.

Chicago Bears í úrslitaleikinn

Chicago Bears batt í kvöld enda á öskubuskuævintýrið hjá New Orleans Saints í NFL deildinni í ruðningi þegar liðið vann öruggan 39-14 sigur og tryggði sér sæti í leiknum um ofurskálina í fyrsta skipti síðan 1985. Nánar verður fjallað um leiki kvöldsins í NFL á morgun.

Jefferson úr leik

Framherjinn Richard Jefferson verður úr leik um óákveðinn tíma í liði New Jersey Nets í NBA eftir að ljóst varð að hann þyrfti að fara í uppskurð vegna ökklameiðsla sem hafa hrjáð hann allar götur síðan í haust. Ljóst er að hann verður frá í að minnsta kosti nokkrar vikur og ekki er ástandið gott fyrir hjá liði Nets, sem hefur valdið stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum í vetur.

Spútniklið Ungverja lagði Norðmenn

Ungverjar tryggðu sér sæti í milliriðlum á HM í síðasta leik mótsins í kvöld þegar liðið skellti Norðmönnum 25-22 eftir að hafa verið yfir 15-13 í hálfleik. Ungverjar lögðu Dani í gær og því verður leikur Dana og Norðmanna upp á líf og dauða á morgun. Gabor Császár skoraði 8 mörk fyrir Ungverja í kvöld og Frank Loke 7 fyrir Norðmenn, en þrír leikmenn fengu rautt spjald í þessum átakaleik í kvöld.

Johnson slapp við brot

Framherjinn skæði Andy Johnson hjá Everton er ekki ökklabrotinn eins og óttast var í fyrstu þegar hann meiddist illa í leik Wigan og Everton í dag. Johnson var borinn af velli og færður á sjúkrahús, en þar leiddi rannsókn í ljós að hann er óbrotinn. Enn er þó ekki víst hvenær hann getur spilað á ný.

O´Sullivan fór hamförum og vann Masters-mótið

Snókerspilarinn Ronnie O´Sullivan var sannarlega í essinu sínu í kvöld þegar hann tryggði sér sigur á Masters-mótinu á Wembley með því að rúlla Kínverjanum Ding upp í úrslitum 10-3. Sexfaldur heimsmeistari Steve Davis afhenti O´Sullivan sigurlaunin eftir leikinn og kallaði þetta einhverja bestu frammistöðu sem hann sjálfur hefði orðið vitni að.

Real Madrid í þriðja sæti

Real Madrid komst í kvöld í þriðja sætið í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu með mikilvægum 1-0 sigri á Mallorca. Það var Jose Antonio Reyes sem skoraði sigurmark Real beint úr aukaspyrnu undir lok leiksins. Barcelona, Sevilla og Real Madrid hafa nú öll 38 stig í efstu þremur sætum deildarinnar en meistararnir í Barcelona eiga leik til góða.

Flugeldasýning í boði Phoenix í kvöld?

Fastlega má búast við því að hið frábæra lið Phoenix Suns bjóði áskrifendum NBA TV á Fjölvarpinu upp á skrautsýningu klukkan eitt í nótt þegar liðið tekur á móti Minnesota Timberwolves. Tveir bestu menn gestanna, þeir Kevin Garnett og Ricky Davis, verða í leikbanni og því verður forvitnilegt að sjá hvort liðinu tekst að hanga í Phoenix sem hefur unnið 12 leiki í röð.

Haukar völtuðu yfir Hamar

Yfirburðir Íslandsmeistara Hauka voru sem fyrr ótrúlegir þegar liðið kjöldró Hamar á heimavelli sínum á Ásvöllum í dag í efstu deild kvenna í körfubolta. Haukar höfðu sigur 107-54 þrátt fyrir að lykilmenn liðsins spiluðu ekki nema rúmlega hálfan leikinn.

Njarðvíkingar á toppinn

Njarðvíkingar sitja nú einir á toppi úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir sigur á liði Hamar/Selfoss í Hveragerði í kvöld 75-69. Á sama tíma töpuðu KR-ingar fyrir Skallagrími í Borgarnesi 93-84 og Keflvíkingar unnu loks sigur þegar liðið skellti Fjölni 102-90 í Keflavík. Þá vann Grindavík nauma sigur á Þór Þorlákshöfn 98-97 í hörkuleik.

Góð sárabót fyrir Dallas

Einum leik er lokið í NBA í dag en hér var á ferðinni einvígi liðanna sem börðust um meistaratitilinn í fyrra. Þetta var fyrsti leikur liðanna síðan Miami tryggði sér titilinn í sumar, en Dallas kom fram hefndum með góðum sigri á útivelli 99-93 þar sem Jerry Stackhouse var hetja gestanna og skoraði 16 stig í fjórða leikhlutanum.

Van Persie úr leik í sex vikur

Jöfnunarmark hollenska framherjans Robin Van Persie hjá Arsenal gegn Manchester United reyndist honum dýrt, því í myndatöku eftir leikinn kom í ljós að hann er með brákað bein á ristinni og verður því frá keppni í að minnst sex vikur.

Hermannsmótið fór fram um helgina

Um helgina fór fram Hermannsmótið í alpagreinum skíðaíþrótta í Hlíðarfjalli við Akureyri, en mótið er liður í bikarkeppni Skíðasambands Íslands. Þorsteinn Ingason tryggði sér Hermannsbikarinn en Salome Tómasdóttir sigraði í keppnini um Helgubikarinn.

Barcelona lagði Tarragona

Barcelona skellti sér á toppinn í spænsku deildinni í kvöld þegar liðið vann tilþrifalítinn en sannfærandi 3-0 sigur á botnliði Tarragona. Eiður Smári Guðjohnsen kom inn sem varamaður á 65. mínútu og átti þátt í tveimur síðustu mörkum liðsins. Barcelona og Sevilla eru efst og jöfn í deildinni með 38 stig en Barca á leik til góða, líkt og Real Madrid sem getur komist í þennan hóp með sigri á Mallorca i kvöld.

Wenger hrósar "ljónunum" sínum

Arsene Wenger var mjög ánægður með sína menn í dag þegar Arsenal náði að leggja Manchester United að velli 2-1 á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni. Wenger líkti leikmönnum sínum við ljón.

Úrslit dagsins á HM

Línur eru farnar að skýrast nokkuð í riðlakeppni HM en nokkrar þjóðir hafa þegar tryggt sér sæti í milliriðlum. Hér fyrir neðan má sjá úrslit dagsins á mótinu.

Ísland tapaði fyrir Úkraínu

Íslenska landsliðið í handknattleik steinlá fyrir Úkraínu 32-29 í leik liðanna í B-riðli heimsmeistaramótsins í dag. Íslenska liðið var yfir 13-12 í hálfleik, en sá aldrei til sólar í þeim síðari, hvorki í vörn né sókn.

Úkraína fjórum mörkum yfir

Úkraínumenn hafa yfir 22-18 gegn Íslendingum þegar síðari hálfleikur er hálfnaður í Magdeburg. Íslenska liðið hefur verið heillum horfið í síðari hálfleik og fátt bendir til annars en að Úkraínumenn fari með sigur af hólmi.

Dramatískur sigur Arsenal á Man Utd

Arsenal vann í dag dramatískan 2-1 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og því er ljóst að forskot United er enn aðeins sex stig á toppnum. Wayne Rooney kom United yfir í fyrri hálfleik, en Robin Van Persie jafnaði á 87. mínútu fyrir Arsenal og það var svo hinn magnaði Thierry Henry sem tryggði Arsenal sigurinn í uppbótartíma.

Eins marks forysta í hálfleik

Íslendingar leiða gegn Úkraínumönnum með einu marki, 13-12 í hálfleik. Roland Valur Eradze hefur verið besti maður íslenska liðsins í hálfleiknum og meðal annars varið vel úr hraðaupphlaupi og eitt víti.

Ein breyting á íslenska hópnum

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari gerði eina breytingu á 14 manna hópi fyrir leikinn gegn Úkraínumönnum sem er í þann mund að hefjast. Roland Valur Eradze kemur inn fyrir Hreiðar Levý Guðmundsson.

Jafnt á Emirates í hálfleik

Ekkert mark er enn komið í stórleik Arsenal og Manchester United á Emirates vellinum í London. Jafnræði hefur verið með liðunum fyrir hlé, en Jens Lehmann hefur tvisvar varið meistaralega frá framherjum United.

Sigurganga Inter heldur áfram

Ítalíumeistarar Inter Milan héldu áfram ótrúlegri sigurgöngu sinni í A-deildinni í dag þegar liðið lagði Fiorentina 3-1 eftir að hafa lent marki undir. Roma varð á í messunni og náði aðeins jafntefli við Livorno á útivelli þar sem Francesco Totti jafnaði leikinn 1-1 áður en hann var rekinn af velli í lokin.

Frakkar söltuðu Ástrali

Fimm leikjum er lokið á HM í handbolta í dag og óhætt er að segja að þeir hafi allir unnist nokkuð örugglega. Þrátt fyrir fádæma sigur Frakka á Áströlum tókst þeim ekki að slá met okkar Íslendinga yfir stærstu sigra í sögu HM en til þess vantaði þá fjögur mörk í viðbót.

Látum Larsson ekki eyðileggja fyrir okkur aftur

Cesc Fabregas, miðvallarleikmaður Arsenal, segir ekki koma til greina að láta sænska markaskorarann Henrik Larsson endurtaka leikinn frá í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra þegar sá sænski átti stóran þátt í sigri Barcelona á Arsenal. Liðið tekur á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag klukkan 16.

Safarova sló Mauresmo úr keppni

Tékkneska stúlkan Lucie Safarova kom heldur betur á óvart í nótt þegar hún gerði sér lítið fyrir og sló Amelie Mauresmo úr leik á opna ástralska meistaramótinu í tennis. Safarova er í 40. sæti heimslistans, en Mauresmo átti titil að verja á mótinu og var í öðru sæti heimslistans fyrir mótið.

Sjá næstu 50 fréttir