Fleiri fréttir

Lýst eftir 15 ára pilti

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Jóhanni Lúðvík Þorgrímssyni sem hvarf frá heimili sínu í Reykjavík fimmtudaginn fjórða ágúst. Jóhann Lúðvík er um 170 cm á hæð, dökkhærður og stuttklipptur, um 60 kg á þyngd. Þegar hann hvarf var hann klæddur í hvítan og gráan vindjakka, og rauðar joggingbuxur, líklega í hvítum skóm. Þeir sem hafa orðið varir við eða vita um ferðir Jóhanns Lúðvíks eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444 1000.

Íslandsdagur í Eistlandi - Retro Stefson og Hjaltalín koma fram

Sérstakur Íslandsdagur verður haldinn í Tallinn, höfuðborgar Eistlands, 21. ágúst næstkomandi. Það er gert í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá því að Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands.

Stálu gróðurhúsalömpum

Brotist var inn í verslun við Akralind í Kópavogi í nótt og þaðan stolið gróðurhúsalömpum. Þjófurinn er ófundinn, en grunur leikur á að hann ætli að nota þá til kannabisræktunar.

Bjarni Ben: Ekki minni fjárfestingar síðan 1944 - hækkun skatta glapræði

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir fjárfestingar hér á landi ekki hafa verið minni í sextíu og sjö ár eða frá lýðveldisstofnun. Því telur hann brýnt að ráðist verði í augljósar fjárfestingar sem allra fyrst. Hann segir algjört glapræði að ætla að hækka skatta ennfrekar.

Íslendingar bjarga 21 þúsund börnum

Um 9.800 manns hafa gefið í söfnun Rauða krossins vegna hungarsneyðar í Sómalíu með því að hringja í söfnunarsímann 904-1500. Þannig hafa safnast tæpar 15 milljónir króna en söfnunarfé Rauða krossins er nú komið upp í 31 milljón.

Arion banki styrkir Hörpu

Arion banki verður fyrsti og einn helsti bakjarl tónlistarviðburða í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Samningur þess efnis verður undirritaður í dag.

Hjólar syngjandi hringinn kringum Ísland

Enski hjólagarpurinn og söngvarinn Daniel Hutton mun hjóla hringinn kringum Ísland í ágúst og september til þess að safna fé til góðgerðarmála. Ekki nóg með það, heldur mun Hutton syngja alla leiðina.

Gæsluvarðhald yfir nauðgara staðfest - rannsókn að ljúka

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir tuttugu og fimm ára gömlum karlmanni sem grunaður er um að hafa nauðgað ungri konu í Herjólfsdal um verslunarmannahelgina. Hann mun sitja í gæsluvarðhaldi til 2. september næstkomandi.

Hætta getur stafað af fölsuðum snyrtivörum

Slá má því föstu að falsaðar snyrtivörur séu í umferð hér á landi. Um er að ræða eftirlíkingar af þekktum merkjum sem ekki hafa gengist undir nauðsynlegar prófanir á efnainnihaldi og er því hætta á ofnæmi og ýmsum húðkvillum af notkun þeirra.

Útgerðarmenn taka illa í hækkun veiðigjalds

Hugmyndir stjórnvalda um að hækka en veiðigjald til að afla tekna upp í fjárlagagatið, mæta andstöðu útgerðarmanna. Gjaldið er nú sex krónur og 44 aurar á hvert þorskígildiskíló, en þegar er búið að boða hækkun upp í níu krónur og 46 aura á nýju fiskveiðiári, sem hefst um mánaðamótin.

Brennuvargar á ferð í nótt

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu þurfti að bregðast við tveimur íkveikjum í gærkvöldi og í nótt. Fyrst var kveikt í ruslagámi við verslanamiðstöð við Fjallkonuveg í Grafarvogi laust fyrir miðnætti.

Makríll í miklu magni suður af Látrabjargi

Skipverjar á þremur smábátum sigldu í gegnum vaðandi makríltorfur nokkrar sjómílur suður af Látrabjargi í gær og kraumaði yfirborð sjávarins eins og sjóðandi vatn í potti, eins og einn sjómaðurinn lýsti því.

Vilja lægra bjórverð svo gestir komi fyrr

Félag kráareigenda leggur til að veitingastaðir fái bjór og léttvín á sérkjörum svo að hægt verði að bjóða upp á slíkar veigar á hagstæðu verði. Arnar Þór Gíslason, sem rekur Enska barinn, Dönsku krána og Oliver, segir að með þessu móti mætti bæta vínmenningu landans og minnka álag hjá lögreglunni.

Dómsmál ef álögur lækka ekki

Verði reglum ekki breytt til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis, sem segir fyrirkomulag tollaálagningar á innfluttar landbúnaðarvörur ólöglegar, verður málið kært til dómstóla. Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).

Efnahagsbrotamál undir einn hatt

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og embætti sérstaks saksóknara verða sameinuð um næstu mánaðamót samkvæmt lögum sem þá taka gildi. Við gildistöku laganna flyst rannsókn mála, er undir efnahagsbrotadeild heyra, ákæruvald og sókn þeirra mála sem þegar sæta ákærumeðferð fyrir dómstólum af hálfu ríkislögreglustjóra, frá embætti RLS til embættis sérstaks saksóknara.

Skoða aðgerðir vegna ofsaaksturs á hálendi

„Það er umhugsunarefni hvort eðlileg viðbrögð séu að fylgja fordæmi ýmissa nágrannaþjóða okkar þar sem gert er ráð fyrir að innlendur aðili sé með í öllum ferðum um viðkvæm svæði.“

Athygli kynnir ESB á Íslandi

Evrópusambandið hefur valið fyrirtæki til að sjá um kynningar- og upplýsingaskrifstofu sambandsins á Íslandi.

Kútvelta yfir Kollafirði

Nokkrir ungir ofurhugar héldu í flugferð á dögunum þar sem þrjár vélar af Yak-gerð flugu yfir Kollafjörð og nærsveitir. Til tíðinda dró í fjögur þúsund fetum þegar Skúli Þórarinsson stóð upp úr sæti sínu, gekk fram á væng með fallhlíf á bakinu og kvaddi flugmanninn, Snorra Bjarnvin Jónsson. Þá lagðist hann niður á vænginn og hélt fast á meðan Snorri kútvelti flugvélinni í heilan hring.

Fjöldi hugmynda kominn fram

Þátttaka í hugmyndaleit um framtíðarskipulag á Þingvöllum hefur verið góð. Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður er ánægður með þátttökuna, en segist þó búast við að íslenska aðferðin verði í hávegum höfð; að flestar tillögur komi síðustu vikuna.

Heppinn Norðmaður fær 120 milljónir

Það var heppinn Norðmaður sem var með allar tölurnar réttar í Víkingalottóinu í kvöld og fær hann um 120 milljónir króna í sínar hendar.

Guðlaugur Þór: Stjórnvöld brutu lög

Stjórnvöld brutu lög þegar þau höndluðu sjálf eignarhlut sinn í SpKef og Byr í stað þess að láta Bankasýslu ríkisins hafa umsjón með málunum, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Bankasýslan hafi sjálf búist við að halda utan um hlut ríkisins í fyrirtækjunum.

Hafa svigrúm til að lækka bensínið um fimm krónur

Framkvæmdastjóri félags íslenskra bifreiðaeigenda segir verðlækkun bensínstöðva í Danmörku sýna að olíufélögin á Íslandi hafa svigrúm til að lækka lítraverðið á eldsneyti um fjórar krónur. Það sé í takt við heimsmarkaðsverðið.

Hundur sem hvarf í innbroti kominn aftur heim

Chihuahua hundurinn Snúlla, sem grunur lék á að hefði verið stolið þegar brotist var inn í íbúð í Norðurmýri aðfararnótt sunnudags, er kominn í leitirnar. Þýfið er þó enn ófundið.

Gagnrýnd fyrir að ýta undir ójöfnuð foreldra

Ritfangaverslunin Office1 hrinti af stað nýrri auglýsingaherferð í byrjun júní undir yfirskriftinni "Við elskum mömmur“. Íris Dögg Lárusdóttir, meistaranemi í félagsráðgjöf við HÍ, hefur sent kvörtun til fyrirtækisins, en hún segir herferðina ýta undir ójöfnuð foreldra.

Staða aðalsjóðs Reykjavíkurborgar versnar enn

Áætlað er að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs Reykjavíkurborgar verði neikvæð næstu þrjú árin, og fari úr því að vera -2,9 milljarðar samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins 2011, og í rúmlega -4,6 milljarða árið 2014.Á ætlað er að eignir aðalsjóðs dragist saman á tímabilinu um 20,3% og verði í lok þess 58,5 milljarðar króna.

Gagnrýnin er aukinn vindur í seglin

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn, segir gagnrýni minnihlutans á vinnu meirihlutans við þriggja ára fjárhagsáætlun borgarinnar blása auknum vindi í seglin í þeirri vinnu. Hann bendir á að frágangur áætlunarinnar hafi tafist vegna flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar, og þar af leiðandi óvissu um fjármögnun málaflokksins. Þetta hafi öllum verið kunnugt um svo mánuðum skiptir. Tæplega hálft ár er síðan borgin átti að skila áætluninni og hefur innanríkisráðuneytið hótar viðurlögum ef henni verður ekki skilað fyrir 18. ágúst. Nú stendur yfir aukafundur í borgarstjórn þar sem borgarfulltrúar voru kallaðir úr sumarleyfi til að ganga frá áætluninni.

Hanna Birna: Óafsakanlegt að skila of seint

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir það grafalvarlegt og algjörlega óafsakanlegt að svo stórt sveitarfélag sem Reykjavíkurborg er, sinni því ekki að lögum og reglum með þeim afleiðingum að borgaryfirvöldum er hótað því að viðurlögum verði beitt ef ekki verði bætt úr hið fyrsta. Aukafundur í borgarstjórn, sem minnihlutinn boðaði til, hófst klukkan tvö og voru borgarfulltrúar kallaðir úr sumarleyfi til að mæta á fundinn. Ástæðan er sú að tæplega hálft ár er liðið síðan Reykjavíkurborg átti að skila inn þriggja ára fjárhagsáætlun og hefur borgarstjórn borist bréf frá innanríkisráðuneytinu þar sem gefinn er frestur til 18. ágúst til að skila áætluninni, ella verði gripið til aðgerða.

Segir ekkert lagt í þriggja ára áætlun meirihlutans

Aukafundur hefst í Borgarstjórn Reykjavíkur klukkan tvö í dag en minnihlutinn óskaði eftir því að fundurinn færi fram. Á fundinum mun meirihlutinn leggja fram þriggja ára fjárhagsáætlun eins og skylt er að gera, en það hefur dregist frá því í febrúar.

Nýtt vikurit hefur göngu sína á Akureyri

Nýtt vikurit kemur út á Akureyri á morgun, fimmtudaginn 10. ágúst. Blaðið nefnist einfaldlega Akureyri en það er félagið Fótspor ehf. sem stendur að baki útgáfunni.

Geðlæknar ekki alltaf fyrsta úrræðið

Breyta þarf heilbrigðiskerfinu þannig að geðlæknar séu ekki alltaf fyrsta úrræðið segir talsmaður sjúklinga á geðsviði Landspítalans. Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir helgi að geðlæknar anni ekki eftirspurn og veikir einstaklingar þurfi stundum að bíða í allt að þrjá mánuði eftir tíma. Bergþór Grétar Böðvarsson talsmaður sjúklinga á geðsviði Landspítalans segir vanta upp á að kynna þeim sem leiti eftir slíkri þjónustu önnur úrræði, en sjúklingar geti til að mynda leitað til sálfræðinga, iðjuþjálfa og félagsráðgjafa „Þarna eru aðilar sem geta veitt fólkinu viðtal og stuðning jafnvel," segir Bergþór. Hann segir sjúklinga eiga rétt á að fá upplýsingar hjá heilsugæslustöðvum um öll þau úrræði sem eru í boði en þar sé potturinn brotinn. „Fólk fer til heimilislæknis og ef að sá læknir er ekki nógu duglegur að upplýsa fólk um möguleg úrræði, og vísa fólki á önnur úrræði, þá er viðkomandi vísað hingað niður eftir, vísað á geðlækni, sem er löng bið eftir," segir hann. Bergþór telur marga sjúklinga vissulega þurfa á hjálp geðlækna að halda, en að önnur úrræði geti gagnast þeim á meðan þeir bíði eftir að komast að.

Ökumaður handtekinn fyrir lygi

Karl á þrítugsaldri var handtekinn eftir að hafa verið staðinn að hraðakstri á Vesturlandsvegi í Reykjavík síðdegis í gær. Tilefni handtökunnar var ekki hraðaksturinn, enda ekki um ofsaakstur að ræða, heldur var það lygi ökumannsins sem leiddi til handtökunnar.

Styrkleikastuðull sólarinnar fór yfir fjóra um helgina

Á heiðskírum sumardögum er mikilvægt að muna eftir sólarvörn því styrkleiki sólar getur verið hættulegur ef nýta á hvern einasta sólargeisla. Veðrið hefur leikið við landsmenn undanfarna daga og hafa útistaðir kaffihúsa, garðar og Nauthólsvíkin verið þéttsetin af sólarþyrstum Íslendingum sem vilja nýta þessa fáu sumardaga til hins ítrasta. Húðlæknastöðin setti nýlega upp mælingu á útfjólubláum stuðli sem segir til um styrkleika sólarinnar, þeim mun hærri stuðull þeim mun hættulegri er sólin. Samkvæmt þeirra mælingum hefur sólin verið mjög sterk undanfarna daga. Til að mynda fór stuðullinn yfir fjóra um helgina sem þýðir að einstaklingur með venjulega húð megi einungis vera í um klukkutíma og korter utandyra án þess að byrja að roðna. Þá getur einstaklingur með viðkvæma húð einungis verið í um hálftíma úti án sólarvarnar ef hann vill ekki roðna. Sextíu prósent úfjólublárra geisla fáum við milli hálf tólf og hálf fjögur á daginn og því nauðsynlegt að vera með sólarvörn, sólgleraugu og hatt ef dvelja á lengi úti í sólinni. Hægt er að fræðast um útfjólubláan stuðul og fylgjast með styrkleika sólarinnar á heimasíðu húðlæknastöðvarinnar. i: http://www.hls.is/page68/index.html

Ágreiningur um atvinnuuppbyggingu veldur töfum

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir ágreining ráðherra um atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi tefja fjárfestingu á svæðinu. Hann óttast að einkasjúkrahús á Reykjanesi verið aldrei að veruleika.

Fundu fálkaungann ósjálfbjarga við þjóðveginn

Fálkafjölskylda hafði komið sér vel fyrir garði einum við Skessugil á Akureyri og fengu ungarnir reglulega kennslustundir í flugi. Hjónin Áslaug ÓLöf Stefánsdóttir og Oddgeir Sigurjónsson nutu þess að geta fylgst með tignarlegum fuglunum út um gluggann hjá sér. Það var síðan í gær sem þau fundu einn fálkaungann ósjálfbjarna og afræktan niðri við þjóðveg, og hvorki hinir ungarnir né foreldrarnir sjáanlegir. Áslaug tók meðfylgjandi myndir af fálkaunganum, en eftir að hafa gist fangagleymslur lögreglunnar á Akureyri í nótt er fálkinn nú kominn til Reykjavíkur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Hjón unnu 26 milljónir: Stórt brúðkaupsafmæli á næstunni

Það voru lukkuleg hjón sem komu til Getspár í morgun með vinningsmiðann góða frá síðustu helgi. Hjónin sem eiga 6 uppkomin börn keyptu miðann í Happahúsinu Kringlunni og höfðu svo sannarlega heppnina með sér í það skiptið þar sem þau voru þau einu sem voru með allar 5 tölurnar réttar. Þau áttu nokkra miða og fengu útprentun á réttum vinningstölum og fóru sjálf yfir miðana. Það var síðasta röðin á síðasta miðanum sem gaf þeim rúmlega 26 milljónir í vinning. Miðinn var 10 raða sjálfvalsmiði með Jóker og er þetta í fyrsta sinn sem þau vinna þann stóra í Lottóinu en þau spila alltaf með bæði í Lottó og Víkingalottó. Hjónin, sem eiga stórt brúðkaupsafmæli á næstunni, ætla að gera vel við sig í í tilefni afmælisins en sögðu annars að Lottóvinningurinn væri frábær varasjóður við eftirlaunin þegar þar að kæmi

FÍB: Enn svigrúm til bensínlækkana

FÍB telur að íslensku olíufélögin hafi svigrúm til að lækka lítraverðið hér um nokkrar krónur, þrátt fyrir að olíuverð á heimsmarkaði fari nú heldur hækkandi á ný.

Hveragerði blómstrar um helgina

Bæjarhátíð Hveragerðisbæjar, sem ber nafnið Blómstrandi dagar, verður haldin nú um helgina, og munu bæjarbúar sameinast um að skreyta hverfi sín og garða í öllum regnbogans litum.

Búist við töfum á Sæbraut vegna malbikunar

Búast má við töfum á umferð um Sæbraut vegna malbikunar milli Laugarnesvegar og Langholtsvegar fram eftir degi í dag. Í framhaldi af því verður Reykjanesbraut malbikuð frá Sprengisandi við Bústaðaveg að Breiðholtsbraut. Lögreglan beinir því til ökumanna að virða vegmerkinga og fara að öllu með gát. Þessu til viðbótar þá var í morgun byrjað að fræsa og malbika Bæjarháls milli Hraunbæjar og Stuðlaháls. Þar má búast við töfum á umferð og því er skynsamlegt fyrir ökumenn að finna sér hjáleið í gegnum iðnaðarhverfið norðan megin við Bæjarhálsinn í stað íbúðahverfisins að sunnanverðu. Þá er vakin athygli á því að malbikun er lokið á Miklubraut, en búist var við að þar yrði malbikað fram á fimmtudag.

Mikið af fölsuðum varningi í umferð

Mikið magn af fölsuðum varningi er flutt til Íslands en stór hluti er gerður upptækur af tollayfirvöldum. Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofu, segir það koma mörgum á óvart hversu mikið af fölsuðum varningi er flutt til landsins. Þar á meðal eru snyrtivörur, úr, farsímar, fótboltatreyjur og jafnvel lyf. Borghildur var gestur þáttarins Í bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hún vakti athygli á ráðstefnu sem Einkaleyfastofa stendur fyrir fimmtudaginn 18. ágúst í tilefni af 20 ára afmæli stofunnar.

Fálkaungi í vörslu lögreglunnar

Fálkaungi er nú í vörslu lögreglunnar á Akureyri og verður afhentur Nátttúrufræðistofnun í dag. Fólk á gönguför ofan við bæinn, sá til ungans í gærkvöldi og náði að handsama hann, enda virðist hann vannærður og afræktur af foreldri sínu.

Jarðskjálftar vestur af Grímsey

Jarðskjálftahrina varð um það bil 40 kílómetra vestur af Grímsey upp úr miðnætti og mældist snarpasti skjálftinn þrír á Richter. Nokkrir snarpir skjálftar fylgdu í kjölfarið en síðan hefur þeim farið fækkandi og styrkurinn í þeim farið dvínandi.

Sjá næstu 50 fréttir