Fleiri fréttir

Stjórnmáflokkarnir setja þak á auglýsingar

Stjórnmálaflokkarnir sem eiga sæti á Alþingi hafa gert með sér samkomulag um að takmarka auglýsingakostnað í aðdraganda kosninganna. Samkomulagið er afrakstur viðræðna milli flokkanna undanfarnar vikur. Heildarkostnaður hvers flokks vegna auglýsinga í dagblöðum og ljósvakamiðlum má að hámarki ná 28 milljónum króna.

Stefán Baldursson verður óperustjóri

Stefán Baldursson leikstjóri og fyrrverandi þjóðleikhússtjóri hefur verið ráðinn óperustjóri Íslensku óperunnar. Bjarni Daníelsson núverandi óperustjóri lætur af störfum 1. júlí næstkomandi. í fréttatilkynningu frá Íslensku óperunni segir að Stefán muni hefja störf í maí. Þá mun hann vinna með fráfarandi óperustjóra að undirbúningi næsta starfsárs.

Tímaspursmál um alvarlegt slys á Gjábakkavegi

Fjöldi ökumanna keyrir daglega um Gjábakkaveg á Lyngdalsheiði þrátt fyrir að hann sé ófær. Ástæðan er sú að hann styttir leiðina milli Reykjavíkur og Árnessýslu um hálftíma. Vegurinn getur hins vegar verið afar varasamur. Bjarni Daníelsson formaður björgunarsveitarinnar Ingunnar segir einungis tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verði á heiðinni.

Lóan er komin til Hornafjarðar

Lóan er komin. Björn Arnarson fuglaáhugamaður og starfsmaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar sá lóu á flugi í Einarslundi í morgun um klukkan 7:30. Björn segir í samtali við fréttavef Hornafjarðar að þetta sé hennar tími því algengast er að hún komin hingað frá 24. til 28. mars.

Tveir milljarðar í orku-útrás

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að leggja tvo milljarða króna í nýtt útrásarfyrirtæki orkuþekkingar, sem nefnist Reykjavík Energy Invest. Markmið félagsins er að viðhalda forystu félagsins í útflutningi þekkingar á umhverfisvænni nýtingu orkulinda, sérstaklega jarðhita.

Vill prófa steinsteyptar götur í Reykjavík

Ástæða er til að kanna hvort steinsteyptar götur dragi úr svifryksmengun, segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi, sem hvetur til þess að Reykjavíkurborg steypi götukafla í tilraunaskyni.

Brot í Hafskipsmálinu sakleysisleg

Vörnin í Hafskipsmálinu byggðist á því að skoða þyrfti tekjur og gjöld í heild. Í dómi málsins frá 1991 var heildarmatskenningu algjörlega hafnað og sakborningar sakfelldir fyrir bókhaldsbrot. Það sama ætti að gera í Baugsmálinu. Þetta sagði Sigurður Tómas Magnússon settur saksóknari í morgun. Hann segir brot í Hafskipsmálinu sakleysisleg í samanburði við Baugsmálið.

Loðnuskip finna ekkert nema síld

Loðnuskipin, sem enn leita að loðnu eftir að kvótinn var aukinn, finna ekkert nema síld, og línubátar, sem eru að verða búnir með þorskkvóta sína og leita nú dauðaleit að öðrum tegundum, fá ekkert nema þorsk.

Bjóst við kröfu á hendur hótelinu

Hótelstjóri Hótels Sögu segist hafa búist við því að aðstandendur hvataferðar klámframleiðenda sem ekkert varð af myndu krefja hótelið um bætur. Hópnum var úthýst af Hótel Sögu eftir mikla umræðu um væntanlega heimsókn hans.

Velferðarmál skipta fólk mestu

Umhverfismál, sem hvað efst hafa verið á baugi í aðdraganda þingkosninganna í vor, eru í fjórða sæti yfir mikilvægustu kosningamálin í vor, samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Aðspurðum var gefinn kostur á að velja sex málaflokka eftir mikilvægi, og kemur þessi niðurstaða sjálfsagt mörgum á óvart. Efst á blaði eru velferðarmál, næst efnahagsmál og í þriðja sæti skattamál, eða málaflokkar sem snerta fjárhag einstaklinga beint.

Framburður Jóns Geralds trúverðugur

Framburður Jóns Geralds Sullenbergers hefur verið afar trúverðugur frá upphafi og ekki tekið breytingum. Þetta sagði Sigurður Tómas Magnússon settur saksóknari í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Sigurður sagði að framburður Jóns Geralds samræmist framburði annarra sem koma að málinu, nema Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar.

Misskilningur Landssambands eldri borgara

Stjórn Landsambands eldri borgara viðurkennir nú að heilbrigðisráðherra hafi farið að lögum um úthlutun Framkvæmdasjóðs og að málin hafi verið rædd á fundi sjóðsstjórnarinnar. Ásakanir um frjálslega meðferð ráðherra á fé sjóðsins hafi verið misskilningur.

Leynifundur D og VG er slúður segir Steingrímur J.

Steingrímur J. Sigfússon segir það rakalausan þvætting og slúður að hann og Geir Haarde hafi rætt mögulega stjórnarmyndun eftir kosningar á leynifundi í liðinni viku. Sagan sé runnin undan rifjum spunameistara framsóknarmanna og sé í raun alvarleg óheilindaásökun á Geir H. Haarde. Um helgina hefur verið mikið slúðrað um meintan leynifund Geirs Haarde og Steingríms J. og hafa fylgt spekúlasjónir um að þar væru menn að kanna grunn að mögulegu stjórnarsamstarfi eftir kosningar. Þetta segir Steingrímur að sé rakalausan þvætting sem runnin sé undan rifjum spunastráka Framsóknarflokksins. Þar vísar Steingrímur til bloggsíðu Péturs Gunnarssonar sem birti fyrst þessa sögu - en Pétur hefur gengt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn. Segir Steingrímur að þetta feli í sér alvarlega ásökun á Geir Haarde þar sem hann sé í raun borin þeim sökum að hafa rofið trúnað við Framsóknarflokkinn.

Sundabrautaráhugi er gömul samþykkt

Samþykkt stjórnar Faxaflóahafna á miðvikudag, um aðkomu að Sundabrautinni, er endurtekning á samþykkt sem gerð var undir lok ársins 2005 í tíð Reykjavíkurlistans. Núverandi minnihluti segir sorglegt, fyrir hagsmuni borgarbúa, að það skipti máli, í samskiptum ríkis og borgar, hvaða litur sé á valdhöfum í borginni.

Samið um að draga Wilson Muuga á flot

Freistað verður þess að draga flutningaskipið Wilsons Muuga af strandstað í maí og verður hafist handa strax eftir páska að þétta skipið, samkvæmt samkomulagi sem er í burðarliðnum milli eigenda og stjórnvalda.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks styður ekki aðferð borgarstjóra

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er andvígur þeirri aðferð borgarstjóra að nota tugi ef ekki hundruð milljóna króna af skattfé almennings til að kaupa út spilasali úr íbúðahverfum borgarinnar. Kjartan telur skynsamlegra að vinna gegn slíkri starfsemi með því að setja inn ákvæði í lögreglusamþykkt eða deiliskipulag.

Hvað má og hvað má ekki?

Suma vöru og þjónustu er heimilt að selja en þær má hins vegar ekki auglýsa. Svo er annað sem leyfilegt er að auglýsa en harðbannað að ástunda.

Krefja Hótel Sögu um bætur

Aðstandendur hvataferðar klámframleiðenda, sem fyrirhuguð var í Reykjavík í þessum mánuði en ekkert varð af, ætla að krefja Hótel Sögu um bætur fyrir að úthýsa þeim. Lögmaður hópsins segir að málið fari fyrir dóm, verði krafan ekki greidd, og útilokar ekki meiðyrðamál.

Segir ESB-aðild handan við hornið

Ísland mun ganga í Evrópusambandið fyrr en síðar, ekki síst vegna vaxandi þrýstings atvinnulífsins. Þetta er skoðun Jóns Baldvins Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Sagði mikla annmarka á bókhaldi Baugs á árunum 2000 og 2001

Fyrsta degi í munnlegum málflutningi í Baugsmálinu lauk laust eftir klukkan fjögur í dag eftir að Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, hafði eftir hádegið farið yfir hluta af þeim köflum ákærunnar sem snúa að meintum bókhaldsbrotum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra fyrirtæksins.

Vilja jafnræði í fréttaumfjöllun

Samtökin Hagur Hafnarfjarðar segja flesta fjölmiðla hafa sniðgengið staðreyndir og flutt fréttir frá Sól í Straumi gagnrýnislaust. Hins vegar sé ekki jafnræði í viðtölum til handa samtökunum og Sól í Straumi. Hagur Hafnarfjarðar er fylgjandi stækkun Álversins. Í yfirlýsingu mótmæla samtökin rangfærslum frá Sól í Straumi og segja þær til þess ætlaðar að ala á tortryggni.

Halldór slasaðist á æfingu

Fresta þarf frumsýningu leiksýningarinnar Grettis sem frumsýna átti í Borgarleikhúsinu á föstudag um þrjár vikur. Ástæðan er sú að Halldór Gylfason leikari, sem leikur sjálfan Gretti, meiddist í baki á æfingu á laugardaginn. Hann sagði í samtali við fréttastofu að hann væri „hundsvekktur."

Innbrotsþjófar á Akureyri

Lögreglan á Akureyri handtók karlmann á veitingastað í bænum aðfararnótt laugardags. Maðurinn var að tína veigar af barnum þegar lögreglan kom að. Hann gerði misheppnaða flóttatilraun og gisti fangageymslur lögreglu um nóttina. Við húsleit á heimili mannsins daginn eftir kom í ljós að hann var búinn að útbúa gróðurhús í einu herberginu til kannabisræktunar.

Mús „rændi“ hraðbanka

Mús japlaði á sem svarar hundruðum þúsunda íslenskra króna, eftir að hafa skriðið inn í hraðbanka í Eistlandi. Dýrið fannst eftir að viðskiptavinur kvartaði út af músarétnum peningaseðlum í útihraðbanka í höfuðborginni Tallin. Bankaöryggisdeild rannsakar nú hvernig músinni tókst að komast inn í vélina.

Lagasetning til varnar lögreglumönnum við störf

Embætti ríkislögreglustjóra fagnar breytingu á lögum um refsingu fyrir brot gegn lögreglumönnum við störf. Með lagasetningunni verður einnig refsivert að aftra lögreglu frá því að gegna skyldustörfum. Slík brot geta varðað allt að tveggja ára fangelsi. Sex ára fangelsisdómur var áður hámark refsingar fyrir brot gegn opinberum starfsmönnum sem hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar. Hámarkið hækkar nú í átta ár.

Mönnum bjargað af bílþaki

Tveir karlmenn sátu kaldir og hraktir á þaki jeppabifreiðar sem sökk niður í krapa á Gjábakkavegi milli Þingvalla og Laugarvatns í hádeginu í dag. Þeim var bjargað eftir klukkustund en höfðu náð að komast þurrir upp á þak bifreiðarinnar. Björgunarsveitin Ingunn kom á staðinn skömmu eftir að mennirni hringdu á hjálp og sendi eftir sérhæfðum björgunarbátaflokki sveitarinnar.

Skjaldborg um forstjóra Baugs

Vitnisburður aðila sem vilhallir eru undir Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóra Baugs, snerist um að slá skjaldborg um forstjórann og afmá fingraför hans af málinu. Þetta sagði Sigurður Tómas Magnússon saksóknari í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann sagði Jón Ásgeir og Tryggva Jónsson fyrrverandi aðstoðarforstjóra hafi sviðsett mótsaganarkennda frásögn af aðkomu Jóns að meintum ólöglegum lánveitingum.

Falsaður peningaseðill í umferð

Falsaður þúsund krónu seðill fannst í vikunni við uppgjör á sundstað á Akranesi. Seðillinn var viðvaningslega falsaður og datt hreinlega í sundur við meðhöndlun, að sögn lögreglu. Þung viðurlög eru við peningafölsun hér á landi. Þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Samráð um 28 milljóna króna hámark í auglýsingar

Stjórnmálaflokkarnir hafa komið sér saman um 28 milljóna króna hámark á birtingu auglýsinga í fjölmiðlum á landsvísu í kosningabaráttunni. Eftirlitsaðili fylgist með því að samkomulagið sé ekki brotið og birtir reglulega tölur fram að kosningum um birtingarkostnað hvers flokks.

Minna um ölvunarakstur um helgina

Þrettán ökumenn voru teknir ölvaðir við akstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Að sögn lögreglu er það í minna lagi. Mjög öflugt eftirlit var í gangi og stöðvaði lögregla nokkur hundruð ökumenn víðsvegar um umdæmið. Átta hinna ölvuðu voru stöðvaðir í Reykjavík, tveir í Hafnarfirði og Kópavogi og einn á Kjalarnesi. Ein kona var í hópnum.

Mjólkuriðnaður falli undir samkeppnislög

Samtök verslunar og þjónustu fagna ummælum forstjóra Mjólkursamsölunnar um að mjólkuriðnaður falli undir samkeppnislög. Guðbrandur Sigurðsson forstjóri MS sagði á aðalfundi Auðhumlu að eðlilegt væri að fyrirtækið beitti sér fyrir niðurfellingu á opinberri verðlagningu mjólkur. Þetta segir í frétt frá samtökunum. Í búvörulögum er ákvæði sem undanskilur mjólkuriðnað frá samkeppnislögum á ýmsan hátt.

Óhræddir á Ísafirði

Eigendur Netheima á Ísafirði eru hvergi bangnir þrátt fyrir umræðu um að allt sé á hverfandi hveli fyrir vestan um þessar mundir.

Má borga skatt af vændi

Fólki verður ekki bannað að greiða skatt af vændi, segir ríkisskattstjóri. Íslenskur karlmaður hyggst greiða virðisaukaskatt af blíðu sem hann kveðst hafa selt fiskverkunarkonu. Lögspekingar telja langsótt að kæra fjármálaráðherra, sem yfirmann ríkisfjármála, fyrir að hafa tekjur af vændi.

Miklar vegaframkvæmdir fara illa saman með uppbyggingu stóriðju

Það fer illa saman að ætla sér að leggja Sundabraut og tvöfalda Hvalfjarðargöng á sama tíma og uppi eru áform um stækkun og uppbyggingu nýrra álvera, segir framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Nauðsynlegt sé að auka útflutning, meðal annars á áli, til að vinna gegn gríðarlegum viðskiptahalla, en samgöngumannvirki eigi að skipuleggja til lengri tíma.

Ekki lengur magur og fagur

Vífilfell, framleiðendur Coca-Cola á Íslandi hafa ákveðið að hætta framleiðslu á kóladrykknum TAB. Enn á eftir að framleiða eina lotu af TAB í hálfslítra flöskum og má búast við að birgðirnar af því endist fram eftir vori. Eftir það verður TAB ekki fáanlegt hér á landi.

Vopnað rán í 10-11

Vopnað rán var framið í verslun 10 11 við Setberg í Hafnarfirði í nótt. Ránið var tilkynnt um hálf þrjú. Einn maður með sólgleraugu gekk inn í búðina í nótt og á eftir honum komu tveir menn með lambúshettur fyrir andlitinu. Þeir ógnuðu starfsmanni um tvítugt með dúkahníf, þvinguðu hann til að opna tvo peningakassa og stálu sígarettum.

Fermingar hafnar

Fermingar eru hafnar og í dag er víða verið að ferma börn í kirkjum landsins. Fréttastofan leit við í Grafarvogskirkju í morgun þar sem föngulegur hópur fermingarbarna staðfesti skírnarsáttmála sinn.

Biðu 15 tíma eftir TF-LÍF

Fimmtán klukkustundir liðu frá því beiðni barst um aðstoð vegna slasaðs sjómanns á hafi úti í gær þar til maðurinn var kominn um borð í TF-LÍF nú í morgun. Skipið var tæpar fjögurhundruð sjómílur frá landi og þyrlur landhelgisgæslunnar drífa ekki svo langt. Fáar vikur eru í að það horfi til betri vegar.

Guðjón Arnar ekki sáttur

Guðjón A Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins er ekki ánægður með útkomu flokksins í könnun Fréttablaðsins í dag, þar sem flokkurinn mælist með 4,4 prósent og kemur ekki manni á þing. Þegar flokkurinn mældist hvað hæst í könnunum fór hann vel yfir tíu prósent, en á þeim tíma stóð yfir hávær umræða um innflytjendamál að frumkvæði forystumanna flokksins.

Breyttu þjóðsöng Íslendinga

Mörgum brá í brún þegar þeir horfðu á 300. þátt Spaugstofunnar í kvöld. Í lokaatriði þáttarins sungu Spaugstofumenn þjóðsöng Íslendinga með eigin texta. Í þættinum í kvöld hófst þjóðsöngurinn á þessum orðum: ,, Ó, stuð vors lands ". Textinn, sem er eftir Karl Ágúst Úlfsson, leikara er ádeila á virkjanastefnu Íslendinga

Hólaskóli verður háskóli

Hólaskóli verður að háskóla frá og með 1. júlí. Af því tilefni var boðað til hátíðar á Hólum í gær og stærsta hesthús landsins tekið í notkun. Það var landbúnaðarráðherra sem boðaði til hátíðarinnar en nýlega voru sett lög um Hólaskóla, Háskólann á Hólum. Lögin marka tímamót í sögu skólans og gefa honum tækifæri til þróunar á næstu árum.

Lögregla gerir upptæk mikið magn fíkniefna

Þrír karlmenn voru handteknir í gærkvöldi eftir að mikið magn fíkniefna fannst í húsnæði í vesturbæ Reykjavíkur. Mennirnir voru handteknir á staðnum þar sem þeir voru í óða önn að pakka efnunum á smærri umbúðir. Við leit fann fíkniefnalögreglan 250 grömm af hassi, 60 grömm af maríjúana, 20 E-töflur og 20 grömm af kókaíni. Þá voru mennirnir með nokkuð af fjármunum á sér. Yfirheyrslur yfir mönnum stóðu fram eftir degi í dag en þeir er nú lokið og telst málið upplýst. Þá var ein kona yfirheyrð í tengslum við málið. Í tilkynningu frá lögreglu segir að fíkniefnadeild LRH hafi komið að 107 málum frá áramótum. Það er umtalsverð fjölgun sé miðað við sama tímabil í fyrra.

Karlmaður hyggst kæra ráðherra fyrir að hagnast á vændi

Karlmaður á fimmtugsaldri kveðst hafa selt erlendri fiskverkunarkonu blíðu sína og ætlar að greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af því sem hann fékk fyrir. Hann hyggst síðan kæra fjármálaráðherra fyrir að hagnast á vændi.

Alvarlegt vinnuslys

Alvarlegt vinnuslys varð í álverinu á Grundartanga rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Slysið varð utan við einn kerskála álversins þegar stórum lyftara var ekið á starfsmann sem var þar á gangi. Aðkoman að slysinu var mjög ljót að sögn lögreglu en maðurinn missti annan fótinn í slysinu. Hann var fluttur með þyrlu á Landspítalann við Hringbraut þar sem hann gengst nú undir aðgerð.

Sjá næstu 50 fréttir