Fleiri fréttir

Landsflug rifti samningnum vegna vanefnda

Landsflug hefur rift samningi sem gerður var við Flugfélag Vestmannaeyja um kaup á flugvélum Landsflugs og yfirtöku á innanlandsflugi Landsflugs. Þá hefur Landsflug dregið til baka uppsagnir flugmanna og annarra starfsmanna sem sagt var upp störfum eftir að kaupsamningur var undirritaður 24. maí síðastliðinn. Framkvæmdastjóri Landsflugs segir vanefndir Flugfélags Vestmannaeyja ástæður riftunar.

Framkvæmd EES samningsins rædd á fundi ráðherraráðs

Framkvæmd EES samningsins var meðal þess sem rætt var á fundi ráðherraráðs Evrópska efnahagssvæðisins í Lúxemborg í gær. Á fundinum voru fulltrúar frá Noregi; Liechtenstein, Íslandi, Austurríki og Finnlandi, auk fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB.

Dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir smygl á fíkniefnum

Karlmaður var í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi í Héraðsdómi Austurlands fyrir innflutning á rúmum þremur kílóum af hassi og tæpum fjörtíu og sjö grömmum af kókaíni. Maðurinn reyndi að smygla fíkniefnunum til landsins í bíl með farþegarferjunni Norrænu en efnin fundust við leit tollvarða og lögreglu á Seyðisfirði 7. mars. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 8. mars og kemur gæsluvarðhaldið til frádráttar fangelsisdómi hans.

Albert varð ekki að fellibyl

Íbúar Flórídaríkis búa sig undir að hitabeltisstormurinn Albert gangi á land. Búist er við mikilli úrkomu tengdri óveðrinu en líkurnar á að það verði að fyrsta fellibyl ársins eru sagðar dvínandi.

Telur að rekja megi húsleitina til samkeppnisaðila

Samkeppniseftirlitið gerði fyrr í dag húsleit hjá Vísa Íslandi vegna gruns um brot á samkeppnislögum. Framkvæmdastjóri VISA segist ekkert skilja í aðgerðunum og telur að rekja megi þetta allt til samkeppnisaðila.

Dæmdur fyrir stórfelld skattalagabrot og bókhaldsbrot

Karlmaður var í dag dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi í þrjú ár í Héraðsdómi Suðurlands fyrir stórfelld skattalagabrot og bókhaldsbrot. Maðurinn framdi brot sín með því að skila ekki skýrslum til skattyfirvalda vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi og með því að hafa komið sér undan því að greiða tekjuskatt og úrsvar á árunum 1998 til 2002. Manninum er einnig gert að tuttugu og fimm milljónir króna í sekt. Greiði hann ekki sekt sína innan fjögurra vikna skal hann sæta fangelsi í sex mánuði.

Eve Online fer vel af stað í Kína

Yfir þrjátíu þúsund notendur skráðu sig inn á netleikinn Eve Online á fyrstu klukkustundunum eftir að opnað var fyrir aðgang að honum í Kína í dag. Það er íslenska fyrirtækið CCP sem á og rekur leikinn, en hann gerist úti í geimnum eftir mörg þúsund ár. Fram kemur í tilkynningu frá forsvarsmönnum CCP að yfir 200 þúsund manns hafi skráð sig til leiks á opnunardeginum sem nálgast fjölda íslensku þjóðarinnar.

Engin vettlingatök

Tveir bræður sem handteknir voru í áhlaupi Lundúnalögreglunnar á dögunum vegna gruns um að þeir hygðu á hermdarverk lýstu í dag reynslu sinni. Þeir segjast hafa sætt fádæma fautaskap og haldið að þeirra síðasta stund væri runnin upp.

Heyskapur hafinn undir Eyjafjöllum

Sláttur hófst undir Eyjafjöllum í dag og má telja víst að bændur þar séu þeir fyrstu á landinu til að hefja heyskap þetta sumarið. Þeir segja grasið kraftmikið og gott og svo vel sprottið að það sé byrjað að leggjast.

Eiður Smári væntanlegur til Barcelona í kvöld

Knattspyrnukappinn Eiður Smári Guðjohnsen er ásamt Arnóri föður sínum væntanlegur til Barcelona í kvöld en fastlega er búist við að tilkynnt verði á morgun um sölu hans frá Englandsmeisturum Chelsea til Evrópumeistara Barcelona fyrir tólfhundruðmilljónir króna. Chelsea tilkynnti nú síðdegis að það hefði gefið Eiði Smára leyfi til viðræðna við Barcelona.

Drífa Snædal ráðin framkvæmdastýra VG

Drífa Snædal hefur verið ráðin framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hún tekur til starfa hjá flokknum í haust en þá lætur Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri - grænna í borgarstjórn, af störfum sem framkvæmdastýra.

Vinstri-grænir gagnrýna áherslur nýja meirihlutans

Vinstri hreyfingin-grænt framboð segja að nýmynduð meirihlutastjórn í Reykjavik sé líklega sú versta fyrir Reykjavík og Reykvíkinga. Í yfirlýsingu sem borgarstjórnarflokkur sendi frá sér í dag segir að nýji meirihlutinn muni innsigla gamaldags karlapólitík þar sem verulega hallar á hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum borgarinnar.

Segja lögreglu hafa beitt óþarfa ofbeldi

Tveir bræður sem breska lögreglan handtók í áhlaupi gegn meintum hryðjuverkamönnum í síðustu viku tjáðu sig opinberlega í fyrsta skipti í dag. Þeir voru yfirheyrðir í viku eftir áhlaupið áður en þeim var sleppt án nokkurrar ákæru.

Vitnaleiðslum að ljúka í máli Saddams

Aðaldómarinn í máli Saddams Husseins sagði í morgun að nú væri síðasta tækifæri fyrir verjendur Saddams að leiða vitni fyrir réttinn. Gefur það til kynna að nú fari að draga til tíðinda eftir átta mánaða réttarhöld. Þá eru einungis eftir lokarök verjenda og sækjenda, áður en dómararnir fimm bera saman bækur sínar og kveða upp dóm.

Segir húsleit gerða vegna kvörtunar frá keppinauti

Halldór Guðbjarnason, framkvæmdastjóri VISA Íslands, segist telja að Samkeppniseftirlitið hafi gert húsleit hjá fyrirtækinu í dag vegna kvörtunar frá keppinauti þess, PBS, sem er danskt fyrirtæki. Þetta kom frá á blaðamannafundi sem fyrirtækið efndi til vegna húsleitarinnar.

Kanna áfram möguleika á framleiðslu bóluefnis

Heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna ætla áfram að kanna möguleika á samstarfi norrænu ríkjanna um að framleiða bóluefni gegn fuglaflensu ef heimsfaraldur heimur upp. Þetta kemur fram í frétt á vef Norðurlandaráðs.

Óásættanlegt að Bandaríkin standi utan við Kyoto-sáttmálann

Forstöðumaður Jarðarstofnunar Kólumbíuháskóla í Bandaríkjunum segir óásættanlegt að Bandaríkin skuli standa utan við Kyoto-sáttmálann. Þetta sagði hann eftir undirritun samstarfs við Háskóla Íslands um rannsóknir á sviði loftslagsbreytinga.

Heimilar veiðar á 50 hrefnum á árinu

Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið leyfi til veiða á fimmtíu hrefnum í vísindaskyni og hefjast veiðarnar væntanlega á næstu dögum. Veiðarnar undanfarin ár virðast ekki hafa haft merkjanleg áhrif á ferðamannastraum hingað til lands.

Tafir vegna árekstra í Reykjavík

Þrír minniháttar árekstrar urðu í Reykjavík rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Tveir árekstranna urðu á Bústaðarveg og varð Bústaðaraveg við Litlu hlíð lokað tímabundið vegna þessa. Þriðji áreksturinn var við gatnamót Sæbrautar og Laugarnesvegar. Búast má við einhverjum töfum í umferðinni vegna þessa en lögregla og tækjabílar virða hörðum höndum að því að greiða fyrir umferð á ný.

Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Visa

Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Visa Ísland í dag og lagði hald á ýmis gögn. Forsvarsmenn Visa hafa boðað til blaðamannafundar vegna atviksins í húsakynnum sínum að Laugavegi 77 klukkan 17 í dag.

Guðlaugur Þór nýr formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur kaus Guðlaug Þór Þórðarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í embætti formanns stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar í dag. Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarmanna í borgarstjórn, var kjörin varaformaður.

Dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir inndlutning á fíkniefnum. Maðurinn reyndi að smygla inn tæpum 3,8 kílóum af amfetamíni til landsins í ferðatösku í byrjun febrúar fyrr á þessu ári en hann var þá að koma með flugi frá París í Frakklandi.

Bush birtist óvænt í Bagdad

Bush Bandaríkjaforseti kom í óvænta heimsókn til Bagdad í dag til að funda með Nuri al-Maliki forsætisráðherra Íraks. Til stóð að þeir ræddust við í fjarfundakerfi í dag, en al-Maliki fékk svo að vita með fimm mínútna fyrirvara, að Bush væri væntanlegur á staðinn.

Bjarni Ármanns nýr formaður háskólaráðs HR

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, var kjörinn nýr formaður háskólaráðs Háskólans í Reykjavík á aðalfundi ráðsins sem haldinn var í dag. Sverrir Sverrisson lét af formennsku í ráðinu en hann hefur setið í háskólaráði frá stofnun skólans árið 1998, þar af síðustu sex árin sem formaður þess.

Eldur kom upp í íbúðarhúsi

Eldur kom upp í íbúðarhúsi í Hæðargarði í Nesjum á Höfn í Hornafirði um klukkan eitt í dag. Fréttavefurinn Horn.is greinir frá því að mikinn reyk hafi lagt frá húsinu þegar Slökkvilið Hornafjarðar kom á staðinn.

Aldrei fleiri umsóknir um nám við HÍ

Aldrei hafa fleiri umsóknir borist um nám við Háskóla Íslands. Um tvö þúsund og fjögur hundruð stúdentar sóttu um í grunnnámi næsta skólaár og um átta hundruð í meistar- og doktorsnámi og viðbótarnámi til starfsréttinda.

Stefnir í harkalega lendingu að mati Fitch Ratings

Íslenska hagkerfið stefnir á harkalega lendingu og Seðlabankinn þarf að hækka vexti enn frekar til að halda aftur af verðbólgu að mati forsvarsmanna Fitch Ratings á fundi í Lundúnum í dag. Greint er frá þessu í hálffimmfréttum KB banka.

Ríkisstjórnin hefur hundsað viðvaranir

Ríkisstjórnin hefur hundsað viðvaranir um að efnahagsstjórnin sé í ólagi og hefur stór hluti launafólks orðið fyrir verulegri kaupmáttarrýrnun undanfarið vegna þróunar efnahagsmála. Forseti Alþýðusambandsins segir viðbrögð ríkisstjórnarinnar við tillögum ASÍ um aðkomu stjórnvalda að endurskoðun kjarasamninga valda vonbrigðum. Forsætisráðherra er þó vongóður um að samkomulag náist í vikunni.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kjörinn borgarstjóri

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var kjörinn borgarstjóri rétt í þessu. Vilhjálmur þakkaði Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fráfarandi borgarstjóra, fyrir velunin störf og sagði Vilhjálmur að hann yrði borgarstjóri allra Reykvíkinga. Ólafur F. Magnússon, oddviti F-listans, lagði fram bókun eftir kosninguna þar sem hann lofaði öflugu aðhaldi af hálfu F-listans.

Hanna Birna er nýr forseti borgarstjórnar

Hanna Birna Kristjánsdóttir er nýr forseti borgarstjórnar en kosningu var að ljúka á borgarstjórnarfundi sem nú stendur yfir. Hún hlaut átta atkvæði en sjö af fimmtán borgarfulltrúm skiluðu auðu. Björn Ingi Hrafnsson var kosinn fyrsti varaforseti borgarstjórnar. Júlíus Vífill Ingvarsson var kosinn annar varaforseti borgarstjórnar.

9 létust og 20 særðust í loftárás á Gaza

Níu létust, þar á meðal tvö börn, og tuttugu særðust í loftárás Ísraelshers á Gazaströndina í morgun. Ísraelsk stjórnvöld lýstu því yfir eftir árásina að henni hefði verið beint að bifreið sem notuð væri til eldflaugaárása á skotmörk hinum megin landamæranna.

Atlantsskip leigja gámaskip

Atlantsskip hafa tekið á leigu nýtt skip vegna mikillar aukningar í flutningum félagsins bæði á Evrópu- og Ameríkuleiðum. Hið nýja skip nefnist Camira. Fyrsta hlutverk þess verður að létta á miklum Evrópuflutningum sem eru í bígerð hjá Atlantsskipum en síðan fer það í siglingar fyrir félagið á milli Íslands og Ameríku.

Umferðartafir af völdum Roger Waters

Talsverðar tafir urðu á umferð á Vesturlandsvegi í gærkvöld vegna tónleika Rogers Waters, forsprakka hljómsveitarinnar Pink Floyd, í Egilshöll. Lögregla var með aukamannskap við umferðarstjórn í Grafarvogi en umferð gekk mjög hægt þar sem aðein ein akrein liggur frá Vesturlandsvegi og upp í Egilshöll.

Hópferðabíll með 16 ferðamenn valt

Hópferðabíll með sextán erlenda ferðamenn innanborðs valt á Bláfellshálsi á Kjalvegi í gær. Enginn slasaðist alvarlega en ökumaðurinn var fluttur á Landspítalann. Lögreglu- og sjúkrabílar voru sendir á vettvang en þá var fólkið komið yfir í annan hópferðabíl. Að sögn lögreglu var vegurinn eitt forarsvað og djúpar rákir í honum, en ferðinni var heitið í snjósleðaferð á jökul. Samkvæmt hálendiskorti Vegageraðinnar virðist vegurinn þarna enn vera lokaður vegna aurbleytu.

Sýknaður af líkamsárásarkæru

Karlmaður var í gær sýknaður af ákærum um líkamsárás á konu á skemmtistaðnum Players í Kópavogi í nóvember síðastliðnum. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa veist að konunni inni á klósetti þannig að hún hlaut eymsli og bólgur hægra megin í andliti, glóðarauga og sprungu eða brot í augnbotni. Þar sem framburður vitna var misvísandi þótti sekt mannsins ekki hafin yfir allan vafa og var hann því sýknaður.

Aðildarviðræður við Tyrki hafnar

Evrópusambandið hóf formlega fyrsta hluta aðildarviðræðna við Tyrkland í gær. Þetta er gert þrátt fyrir tilraunir ráðamanna á Kýpur til að reyna að koma í veg fyrir þær. Í gær var rætt um vísindi og rannsóknir og tókst að ljúka samningum um það svið. Enn standa þó eftir samningar um þrjátíu og fjögur svið.

Borgarbúar muni finna þegar nýr meirihluti tekur við

Sjálfstæðismenn eru fullir tilhlökkunar yfir meirihlutassamstarfi sínu við Framsóknarmenn í borginni. Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík segir að borgarbúar muni stax á næstu dögum sjá að nýr meirihluti sé tekinn við borginni.

Slökkvistarf í fallgöngum Kárahnjúkavirkjunar

Slökkviliðsmenn á Héraði unnu afrek þegar þeir slökktu eld, sem logaði á vinnupöllum inni í lóðréttum fallgöngum Kárahnjúkavirkjunar undir kvöld í gær. Eldsins varð vart laust fyrir klukkan fimm og voru öll nálæg vinnusvæði rýmd þar sem reyk lagði frá eldinum.

Kaup Barcelona á Eiði Smára frágengin?

Samkvæmt nýjustu fréttum hefur verið gengið frá kaupum spænska knattspyrnurisans Barcelona á Eiði Smára Guðjohnsen frá Chelsea. Frá þessu er greint á vefsíðunni Goal.com og segir að kaupverðið sé 12 milljónir evra, eða rúmlega 1,1 milljarður króna. Almanntengslafulltrúi Eiðs segir þetta ekki rétt

Eldur í sportvöruverslun í Grafarvogi

Töluvert tjón varð í verslanamiðstöðinni Hverafold í Grafarvogi, þegar eldur kom þar upp í sportvöruverslun í nótt og reykur barst um allt húsið. Þegar slökkvilið kom á vettvang var svo mikill reykur að erfitt var að finna upptök eldsins og munaði minnstu að eldur næði að læsa sig í þak hússins, en eftir að reykkafarar fundu eldinn, gekk slökkvistarf vel. Tjón varð mest í sportvöruversluninni en víða urðu skemmdir af reyk. Slökkviliðsmenn voru fram á morgun að reykræsta húsið. Eldsupptök eru ókunn.

Sporvagnaslys í Japan

Á þriðja tug manna slasaðist þegar tveir sporvagnar rákust saman í Tokyo í morgun. Enginn er þó talinn alvarlega slasaður en nokkur fjöldi manna var um borð í vögnunum þegar þeir rákust saman. Ekki er vitað á þessari stundu hvað olli slysinu en vagnarnir eru nokkuð skemmdir. Slysið varð í norðurhluta Tokyo. Lestarslys hafa verið fátíð í Japan enda mikil áhersla lögð á öryggismál á þessu sviði. Á síðasta ári léstust hins vegar rúmlega hundrað manns þegar lest fór út af teinunum og lenti á íbúðarhúsi.

Sjá næstu 50 fréttir