Innlent

Ríkisstjórnin hefur hundsað viðvaranir

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ.
Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ. MYND/Teitur

Ríkisstjórnin hefur hundsað viðvaranir um að efnahagsstjórnin sé í ólagi og hefur stór hluti launafólks orðið fyrir verulegri kaupmáttarrýrnun undanfarið vegna þróunar efnahagsmála. Forseti Alþýðusambandsins segir viðbrögð ríkisstjórnarinnar við tillögum ASÍ um aðkomu stjórnvalda að endurskoðun kjarasamninga valda vonbrigðum. Forsætisráðherra er þó vongóður um að samkomulag náist í vikunni.

Á föstudaginn funduðu fulltrúar Alþýðusambands Íslands með fulltrúum ríkisstjórnarinnar þar sem rætt var um aðkomu stjórnvalda að endurskoðun kjarasamninga. Tillögur ASÍ fólu meðal annars í sér að tekið yrði upp lægra skattþrep á lægri tekjur, að breytingar verði gerðar á vaxtabótum og fólki tryggðar bætur þrátt fyrir hækkun fasteignamats. Að breytingar yrðu gerðar á barnabótum þannig að aldurinn yrði hækkaður í 18 ára og að framlög yrðu aukin í starfsmenntamálum og breytingar gerðar á eftirlaunafrumvarpi þingmanna. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, varð fyrir vonbrigðum með fundinn. Hann segir það liggja fyrir að ríkisstjórnin hafi hafnað tillögum um nýtt skattaþrep en sé tilbúin að skoða bæði vaxtabætur og barnabætur og fjármuni til fræðslumála. Ríkisstjórnin hefur líka hafnað endurskoðun varðandi löggjöf um aukin lífeyrisréttindi þingmanna og æðstu embættismanna.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að kjarasamningarnir hefðu verið ræddir á ríkisstjórnarfundi. Hann hefði verið í sambandi við aðila vinnumarkaðarins og væri vongóður um að það tækist í vikunni að koma þessu máli saman.

Grétar segir það deginum ljósara að verulegur hluti af félagsmönnum ASÍ hafi þegar orðið fyrir umtalsverðri kaupmáttarrýrnun. Þróun verðbólgu sé líka mjög mikið áhyggjuefni. Grétar segir ASÍ hafa varað við því í mörg misseri, eins og nánast allir aðrir aðilar, bæði innlendir og erlendir, að efnahagsstjórnin hér á landi væri ekki í lagi og að hluta til sé verið að uppskera nú vegna þessa.

Halldór svaraði gagnrýni á efnahagstjórnina í morgun á þann veg að ástandið í þjóðfélaginu sé ekki skelfilegt. Mikil atvinna sé og miklar tekjur og ástandið sé því gott. Hann segir ljóst að verðbólga sé meiri en hann hefði viljað sjá en hann telji að þetta sé tímabil sem gangi yfir. Þrátt fyrir að oft hafi verið sveiflur í efnahagslífinu þá sé ástandið í þjóðfélaginu mjög gott.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×