Innlent

Eiður Smári væntanlegur til Barcelona í kvöld

Knattspyrnukappinn Eiður Smári Guðjohnsen er ásamt Arnóri föður sínum væntanlegur til Barcelona í kvöld en fastlega er búist við að tilkynnt verði á morgun um sölu hans frá Englandsmeisturum Chelsea til Evrópumeistara Barcelona fyrir tólfhundruðmilljónir króna. Chelsea tilkynnti nú síðdegis að það hefði gefið Eiði Smára leyfi til viðræðna við Barcelona.

Það segir sitt um stöðu íslenska landsliðsfyrirliðans í knattspyrnuheiminum að nokkur af sterkustu liðum Evrópu hafa á síðustu vikum sóst eftir að fá hann í sínar raðir, þar á meðal Manchester United, Arsenal, Real Madrid, Valencia og Barcelona. Chelsea ræður hins vegar ferðinni, enda Eiður samningsbundinn því félagi, og enskir og spænskir íþróttafréttamenn hafa staðhæft síðustu daga að Morinjo, þjálfari Chelsea, vilji síður að Eiður fari til keppinauta Chelsea í Englandi. Chelsea tilkynnti nú síðdegis að það hefði gefið Eiði Smára heimild til viðræðna við Barcelona. Spænskir fjölmiðlar sögðu í morgun að Eiður Smári væri búinn að samþykkja þriggja ára samning við Barcelona með möguleika á framlengingu um eitt ár og að Chelsea og Barcelona hefðu samið um kaupverðið, tæpar 1200 hundruð milljónir króna, sem yrði metfjárhæð fyrir íslenskan íþróttamann. Félögin virðast hins vegar enn eiga eftir að ganga frá greiðsluskilmálum. Samkvæmt traustum heimildum NFS eru þeir feðgar Eiður Smári og Arnór væntanlegir til Barcelona í kvöld og búist við að tilkynnt verði á morgun um félagaskiptin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×